Gangandi vegfarendur

Gangandi vegfarendur verða að sýna aðgát í kringum bíla og ökumenn verða að sýna aðgát í kringum gangandi vegfarendur.

Í umferðarlögunum eru taldar upp mikilvægar reglur fyrir gangandi vegfarendur í samhengi við umferð bifreiða. Spurningin um hver á réttinn er algeng, sér í lagi við gangbrautir, upphækkanir og þar sem göngustígar eru þvert á götur.

Höfum í huga að verði árekstur með 70 kg manneskju á 5 km/klst. hraða og 1200 kg bifreið á 40 km/klst. hraða þá er kraftafræðin ávallt hinum gangandi í óhag, hver svo sem átti nú réttinn. Gangandi vegfarendur verða að sýna aðgát í kringum bíla og ökumenn verða að sýna aðgát í kringum gangandi vegfarendur, sérstaklega í íbúagötum, við skóla og verslanir. Virðum hámarkshraða og gætum að heilsu hvers annars.

Nokkur góð ráð

  • Ef þú þarft að ganga á vegi skaltu gera það vinstra megin á móti umferð bíla. Ef þú ert að reiða hjól þá skaltu vera hægri megin í sömu stefnu og bílaumferðin. Ef leiðin er torveld eða hættuleg skal vera þeim megin sem öruggast er.

  • Göngum hægra megin á stígum og miðum við hægri regluna.

  • Verum sýnileg í myrkri og skammdegi. Notum endurskinsmerki.

  • Horfum og hlustum eftir umferð. Höfum í huga að lítið vélarhljóð er frá rafmagnsbílum.

  • Gætum okkur í hálkunni á veturna. Góðir skór eru gulls í gildi.

Notar þú endurskinsmerki?

Endiskinsmerki auka sýnileika þinn um allt að fimm sinnum. Þú getur fengið frítt endurskinsmerki á þjónustuskrifstofum okkar í Borgartúni 19, Akureyri og Keflavík.