Eftirvagnar

Þegar ekið er með eftirvagn þarf að hafa ýmis atriði í huga til að draga úr slysahættu.

Þegar ekið er með eftirvagn, til dæmis ferðavagn eða kerru, þarf að hafa ýmislegt í huga til að tryggja öryggi í umferðinni. Haga þarf aksturslagi í samræmi við stærð og þyngd eftirvagnsins. Tryggja þarf frágang og búnað vagns sem dreginn er, að hann sé í góðu lagi og standist kröfur. Við höfum tekið saman nokkur góð ráð sem gott er að hafa í huga áður en farið er af stað með eftirvagninn.

Eftirvagninn
  • Notið öryggisvír eða keðju í drætti.

  • Gætið þess að ofhlaða ekki vagn eða kerru.

  • Kannið veður, sérstaklega vindstyrk áður en haldið er af stað með eftirvagn.

  • Látið skoða eftirvagninn í samræmi við skoðunarskyldu.

Bíllinn
  • Þarf að vera með dráttarbeisli/krók sem er skráður.

  • Í skráningarskírteini eru upplýsingar um leyfilega þyngd sem bíll má draga.

  • Þarf að vera með framlengingar á hliðarspeglum ef eftirvagninn er breiðari en bíllinn.

  • Er líklega með ABS hemla en mögulega ekki eftirvagninn. Það getur kallað á ójafnvægi við nauðhemlun sem ökumenn þurfa vera meðvitaðir um.

Annað
  • Það er ekki sjálfgefið að ökumaður sé með réttindi til þess að draga eftirvagninn. Kynntu þér ökuréttindi þín.

  • Stöðugur vindur eða hviður sem ná 15-20 m/sek eru varasamar. Styrkur vindhviða er mismunandi eftir landslagi og hvort hviðan feykir eftirvagni eða ekki getur farið eftir þyngd vagnsins, ákomuhorni vindhviðunnar og viðnámi vegar.

  • Á mínum síðum á heimasíðu Samgöngustofu er hægt að finna upplýsingar um skoðunarskyldu og þar kemur fram hvernig þeim málum er háttað fyrir hvert og eitt ökutæki.

Ef þú ert ekki viss með þín réttindi varðandi akstur með eftirvagn er hægt að skoða útskýringar á ökuréttindum á heimasíðu Samgöngustofu eða með því að smella hér.