Bifhjól

Öryggisatriði bifhjóla er sérstaklega mikilvægt á vegum landsins. Hér finnur þú allt um bifhjól, búnað og öryggi.

Bifhjól er samheiti yfir margar gerðir ökutækja, oftast á tveimur hjólum og nefnd mótorhjól í daglegu tali. Bifhjól geta einnig verið á þremur eða fjórum hjólum. Mikilvægt er að kynna sér eiginleika bifhjólsins því mismunandi réttindaflokkar gilda um mismunandi stærðir eins og fram kemur á vefsíðu Samgöngustofu.

Öryggi:

 • Notaðu viðeigandi hlífðarbúnað, föt, hjálm, hanska, skó og brynjur ef þú ert í torfæruakstri.

 • Hitaðu upp á vorin áður en þú ferð út í hjólasumarið. Við verðum öll stirð eftir veturinn. Hemlun, stýring, öfugstýring. Ef það er langt síðan þú fórst á bifhjól síðast er upplagt að taka einn til tvo tíma hjá ökukennara.

 • Gættu að akstri um gatnamót og treystu bara sjálfum þér.

 • Gættu að möl og öðrum óhreinindum á veginum. Brunnlok og yfirborðsmerkingar geta verð sleip og stundum safnast olía og óhreinindi upp í hringtorgum.

 • Gætið varúðar þar sem er nýlögð klæðning eða malbik, mögulega er veggrip þar lítið.

Fjölbreyttur flokkur ökutækja:

 • Bifhjól eru mjög fjölbreyttur ökutækjaflokkur með margvíslegum réttindaþrepum. Ef þú ert óviss um í hvaða flokki bifhjólið þitt er eða hvaða réttindi þú hefur, hringdu þá í Samgöngustofu eða kíktu á heimasíðuna þeirra.

 • Létt bifhjól í flokki 1 eru hönnuð fyrir akstur allt að 25 km/klst. Létt bifhjól í flokki 2 eru oft nefnd skellinöðrur hafa hönnunarhraða að 45 km/klst.

 • Svokölluð þung bifhjól eru svo flokkuð í lítið bifhjól og stórt bifhjól eftir ákveðinni reikniformúlu um hlutfall þyngdar hjólsins og afls og hámarkshestaflafjölda.

Vissir þú?

 • Fyrsta Harley Davidson mótorhjólið náði 40 km/klst. hraða.

 • Hraðametið á mótorhjóli er 605,69 km/klst.

 • Fyrsta mótorhjólið kom til Íslands 1905.