Reykskynjarar eru ódýr öryggistæki. Skerandi vælið í þeim getur bjargað mannslífum. Við höfum tekið saman helstu atriði sem gott er að hafa í huga þegar kemur að reykskynjurum.


Alþjóðlegur dagur reykskynjarans er 1. desember ár hvert. Reykskynjarar eru ódýr öryggistæki sem geta bjargað mannslífum – en aðeins ef þeir eru til staðar, á réttum stöðum og ef þeir virka. Af því tilefni hvetjum við alla til að huga að eldvörnum á heimilum sínum.
Til eru tvær megingerðir af reykskynjurum: Optískir skynjarar sem skynja vel glóðarbruna og jónískir skynjarar sem skynja vel reyk með litlum ögnum, til dæmis opinn eld. Einnig eru til aðrir skynjarar sem sameina eiginleika beggja
Óháð gerð reykskynjara, er lykilatriði fyrir öryggi heimilisins að hafa nægjanlega fjölda virkra reykskynjara á réttum stöðum. Til að virkni reykskynjara sé sem best getur þurft að hafa blöndu af jónískum og optískum skynjurum. Dæmi um staðsetningar eru:
Eldhús: Velja skal optískan reykskynjara í eldhúsið.
Svefnherbergi: Ef raftæki eins og sjónvarp, hljómflutningstæki og tölva eru í svefnherberginu, ætti að vera optískur reykskynjari þar, en annars jónískur.
Stofa: Ef sjónvarp og önnur raftæki eru í stofunni ætti að vera optískur reykskynjari.
Alrými: Í alrými er gott að hafa bæði optískan og jónískan reykskynjara.
Á gangi og við stigaop: Þar eru jónískir reykskynjarar æskilegir.
Þvottahúsið: Í þvottahúsið setjum við optískan reykskynjara þar sem jónískur getur gefið frá sér falsboð vegna gufu sem myndast við þvott.
Við rafmagnstöflu: Setjið optískan reykskynjara nálægt rafmagnstöflur.
Bílskúr: Sé bíll geymdur í bílskúr er hætt við að útblástursreykur geti sett reykskynjara af stað. Í slíkum tilvikum er rétt að nota hitaskynjara.
Unnt er að tengja marga reykskynjara saman. Það er æskilegt í stórum húsum því þá gera allir skynjarar viðvart um leið og einn fer í gang. Samtengdir skynjarar eru ýmist þráðlausir eða tengdir saman með vír. Einnig er hægt að vera með vaktað brunaviðvörunarkerfi.
Æskilegt er að setja reykskynjara í öll svefnherbergi.
Sé húsið fleiri en ein hæð, setjið reykskynjara á allar hæðir.
Reykskynjara ber að staðsetja í lofti, ekki nær vegg en 50 sentímetra.
Setjið reykskynjara sem næst miðju lofts og aldrei nær vegg eða ljósi en sem nemur 30 sentímetrum.
Best er að hafa reykskynjara í öllum rýmum.
Í langan gang skal setja skynjara við báða enda.
Skynjari á að vera í bílskúr. Sé hann sambyggður íbúðarhúsi er best að tengja skynjarann þar við reykskynjara í íbúðinni.
Til að prófa reykskynjara, styðjið fingri á prófunarhnappinn þar til viðvörunarmerki heyrist. Gott er að leyfa heimilisfólkinu að heyra hljóðið í skynjaranum.
Prófið reykskynjarann fjórum sinnum á ári (t.d. 1. desember, um páska, fyrir sumarleyfi og við skólabyrjun).
Skiptið um rafhlöðu árlega.
Líftími skynjara er um 10 ár – Gott er að skrá á bakhlið skynjarans hvaða ár hann var settur upp.
Ryksugið skynjara að innan þegar skipt er um rafhlöðu.
Prófið reykskynjara alltaf þegar komið er í sumarhús, einkum ef það hefur ekki verið notað lengi.
Ef stutt hljóðmerki heyrist frá skynjaranum á um það bil mínútu fresti þarf að endurnýja rafhlöðuna.
Nauðsynlegt er að prófa reykskynjarann þegar skipt hefur verið um rafhlöðu.

Með traustum eldvörnum má koma í veg fyrir tjón á lífi, heilsu og eignum. Viðskiptavinir Varðar fá afslátt af eldvarnarbúnaði hjá Ólafi Gíslasyni og Co. og Öryggismiðstöðinni.