Er reykskynjarinn í lagi?

Reykskynjarar eru ódýr öryggistæki. Skerandi vælið í þeim getur bjargað mannslífum. Við höfum tekið saman helstu atriði sem gott er að hafa í huga þegar kemur að reykskynjurum.

Alþjóðlegur dagur reykskynjarans er 1. desember ár hvert. Af því tilefni hvetjum við fólk til að huga að eldvörnum á heimilum sínum. Tveir eða fleiri reykskynjarar eiga að vera á hverju heimili og best er að hafa þá í öllum rýmum. Reykskynjarar eiga að minnsta kosti að vera framan við eða í hverri svefnálmu og á hverri hæð á heimilinu. Ganga þarf úr skugga um að reyk­skynj­ar­ar heim­il­is­ins séu í lagi og skipta um raf­hlöður í þeim.

Mismunandi tegundir reykskynjara

Tvær gerðir reykskynjara henta vel á heimilum; Jónískir og optískir. Jónískir reykskynjarar bregðast skjótt við reyk og eru góðir alhliða reykskynjarar í flest rými. Þeir eru hins vegar einnig næmir fyrir raka, hita og brælu frá matargerð og henta því ekki í þvottahús og eldhús. Optískir reykskynjarar bregðast líka skjótt við reyk en eru ekki eins næmir fyrir öðrum breytingum. Þeir henta því vel til dæmis í eða við eldhús og þvottahús. Optískir skynjarar eru góðir alhliða reykskynjarar og er almennt hægt að mæla með notkun þeirra. Unnt er að tengja marga reykskynjara saman. Það er æskilegt í stórum húsum því þá gera allir skynjarar viðvart um leið og einn fer í gang. Samtengdir skynjarar eru ýmist þráðlausir eða tengdir saman með vír. Einnig er hægt að vera með vaktað brunaviðvörunarkerfi.

Jónískur skynjari Þetta er hin hefðbundni reykskynjari en hann nemur allar stærðir og gerðir reykagna sem mynda reykinn. Þessir nema auðveldlega brælu og hita og henta því mjög vel í eldhúsið og þvottahúsið.

Optískur skynjari Skynjari sem hentar virkilega vel við reyk en er ekki alveg eins næmur á hita og hinn hefðbundni jóníski reykskynjari. Optískir reykskynjarar skiptast í hitaskynjara og gasskynjara.

Hitaskynjari Skynjari sem nemur eingöngu hita en ekki reyk. Þeir henta ágætlega í bílskúr og eldhús.

Gasskynjari Skynjari sem nemur eingöngu gas og er því nauðsynlegur þar sem er hætta á gasleka. Þeir sem nota gas til dæmis til eldunar ættu að setja gasskynjara á sökkul innréttingarinnar. Gasskynjara þarf að endurnýja á fimm ára fresti.

Kolsýringsskynjari Skynjari sem greinir þegar óvenjulegur kolsýringur myndast. Ef til dæmis gas brennur þar sem er engin loftræsting þá brennur súrefnið smám saman upp og um leið eykst kolsýringur í andrúmsloftinu. Mælt er með að þessi skynjarar séu settir í herbergi eða nálægt herbergjum þar sem eru tæki sem brenna gasi til dæmis til eldunar.

Staðsetning reykskynjara

Setjið reykskynjara sem næst miðju lofts og aldrei nær vegg eða ljósi en sem nemur 30 sentímetrum. Best er að hafa reykskynjara í öllum rýmum. Þá á að minnsta kosti að setja upp framan við eða í hverri svefnálmu og á hverri hæð á heimilinu. Í langan gang skal setja skynjara við báða enda. Algengt er að sjónvörp og tölvur séu í barna- og unglingaherbergjum og skal þá setja reykskynjara í þau. Sömu reglur um notkun og staðsetningu reykskynjara gilda fyrir orlofshús. Sérstaklega ber að huga að því að þeir sem sofa á svefnlofti fái viðvörun svo að þeir geti yfirgefið húsið ef eldur kemur upp. Skynjari á að vera í bílskúr. Sé hann sambyggður íbúðarhúsi er best að tengja skynjarann þar við reykskynjara í íbúðinni. Sé bíll geymdur í bílskúr er hætt við að útblástursreykur geti sett reykskynjara af stað. Í slíkum tilvikum er rétt að nota hitaskynjara. Þeir eru settir í loft eins og reykskynjarar.

Eldhús Það á alltaf að vera reykskynjari í eldhúsinu. Þó þarf að passa að staðsetja hann ekki of nálægt eldavélinni því þá gæti hann farið að væla þegar matur er eldaður.

Svefnherbergi Reykskynjari á að vera í öllum svefnherbergjum. Ef það eru einhver raftæki í herberginu skal velja optíska reykskynjara.

Stofan Það sama á við um stofuna og svefnherbergin, það á ávallt að vera reykskynjari í stofunni. Ef sjónvarp eða önnur raftæki eru þá skal velja optíska.

Þvottahúsið Í þvottahúsið setjum við optískan reykskynjara því jónískur getur gefið frá sér falsboð vegna gufu sem myndast við þvott.

Bílskúrinn Ef mikið er unnið í bílskúrnum við til dæmis smíðar, rafsuðu og þess háttar er best að velja hitaskynjara. Sé bílskúrinn sambyggður íbúðarhúsi er best að tengja skynjarann þar við reykskynjara í íbúðinni. Sé bíll geymdur í bílskúr er hætt við að útblástursreykur geti sett reykskynjara af stað. Í slíkum tilvikum er rétt að nota hitaskynjara. Þeir eru settir í loft eins og reykskynjarar.

Opin rými Í öllum rýmum heimilisins skal vera reykskynjari. Á gangi og við stigaop eru jónískir reykskynjarar æskilegir.

Viðhald og endurnýjun

Reykskynjara þarf að prófa að minnsta kosti fjórum sinnum á ári. Góð regla er til dæmis að prófa þá 1. desember, um páska, þegar komið er úr sumarleyfi og þegar skólar hefjast á haustin.

Styðjið fingri á prófunarhnappinn þar til viðvörunarmerki heyrist. Gott er að leyfa heimilisfólkinu að heyra hljóðið í skynjaranum. Prófið reykskynjara alltaf þegar komið er í sumarhús, einkum ef það hefur ekki verið notað lengi. Ef stutt hljóðmerki heyrist frá skynjaranum á um það bil mínútu fresti þarf að endurnýja rafhlöðuna. Hana þarf að endurnýja árlega og er gott að gera það alltaf á sama tíma ársins. Nauðsynlegt er að prófa reykskynjarann þegar skipt hefur verið um rafhlöðu.

Líftími reykskynjara er áætlaður um það bil tíu ár. Gott er að skrá á bakhlið skynjarans hvaða ár hann var settur upp. Skynjarinn endist betur ef hann er ryksugaður að innan í hvert sinn sem skipt er um rafhlöðu. Til eru reykskynjarar með rafhlöðu sem endist í allt að tíu ár og er reykskynjaranum þá skipt út að þeim tíma liðnum.

Fræðsla og forvarnir

Með forvörnum lágmörkum við líkur á óhöppum og slysum. Við viljum vinna markvisst að auknu öryggi á vinnustöðum, heimilum og í umferðinni. Þannig stöndum við vörð um heilsu og öryggi.