Nótatrygging

Upplýsingaskjal þetta tilgreinir einungis helstu atriði tryggingarinnar, s.s. hvað er innifalið og hvað ekki. Ekki er um að ræða tæmandi upptalningu né persónulegt yfirlit yfir tryggingar sem viðskiptavinir velja. Upplýsingaskjalið hefur ekki lagalega þýðingu og gegnir eingöngu þeim tilgangi að upplýsa viðskiptavini um helstu þætti tryggingarinnar. Tryggingayfirlit og nákvæmar upplýsingar um samningsskilmála sem gilda eru aðgengilegar á vátryggingarskírteini tryggingarinnar sem hægt er að nálgast á Mínum síðum Varðar. Skilmálar tryggingarinnar hafa að geyma tæmandi upplýsingar um vátryggingarverndina og eru hluti af samningi aðila ásamt vátryggingarskírteini. 

Hvernig trygging er Nótatrygging?

Nótatrygging tekur til tjóns sem verður á nót um borð í skipi eða við flutning til og frá borði. 

Tryggingin bætir

Algert tjón ef nót ferst með skipinu.

Algert tjón og partstjón á nót ef skipið strandar, sekkur, því hvolfir eða lendir í árekstri.

Brunatjón á nót um borð í skipinu og einnig meðan nótin er flutt um borð eða frá borði.

Þátttöku í samtjóni, samtjónskostnaði og björgun.

Tryggingin bætir ekki

Ef skip hefur samtímis tvær eða fleiri nótir um borð, fellur aðeins ein nót undir trygginguna.

Tjón vegna ófullnægjandi viðhalds, fúa, þreytu, tæringar, slits eða sambærilegra orsaka. Sama gildir um tjón sem rakið verður til hönnunargalla skipsins.

Tjón er stafar af því að skipið var óhaffært er það lét síðast úr höfn, var útbúið eða mannað á ófullnægjandi hátt, hafði ekki nauðsynleg skipsskjöl eða var ekki tryggilega hlaðið.

Tjón sem rakið er til stríðs, óeirða, uppþots, verkfallsaðgerða eða annarra sambærilegra atburða.

Tjón af völdum kjarnorku, jónandi geislunar og geislavirkra efna.

Eru einhverjar takmarkanir eða varúðarreglur?

Vátryggðum ber að fylgja varúðarreglum Varðar.

Sé tiltekin eða ákveðin notkun eða starfsemi á hinu vátryggða skráð á skírteini, og notkun eða starfsemi breytist, ber vátryggðum eða þeim sem njóta réttar samkvæmt vátryggingunni að tilkynna félaginu um það án tafar.

Hvar gildir tryggingin?

Vörður er laus úr ábyrgð ef skipið fer suður fyrir 40° norðlægrar breiddar eða norður fyrir 70° norðlægrar breiddar á tímabilinu frá 16. nóvember til 15. maí.

Hverjar eru helstu skyldur þess tryggða?

Helstu skyldur þess vátryggða eru að veita allar upplýsingar, hvort sem er við endurnýjun eða breytingar á tryggingunni.

Hvenær og hvernig er greitt fyrir trygginguna?

Iðgjöld tryggingarinnar ber að greiða á gjalddaga. Við endurnýjun hækkar ársiðgjaldið í samræmi við breytingu á vísitölu frá grunnvísitölu samnings. Vörður sendir kröfur mánaðarlega í heimabanka eða árlega ef óskað er eftir því að greiða iðgjöld í einu lagi. Hægt er að breyta greiðslumáta á Mínum síðum Varðar. Þar er einnig hægt að velja að greiða iðgjöld með kreditkorti.

Hvenær hefst tryggingarverndin og hvernig lýkur henni?

Tryggingarsamningar gilda almennt í 12 mánuði frá samþykkt tilboðs og útgáfu tryggingar og miðast iðgjöld við ársiðgjald. Sé tryggingu ekki sagt upp á því tímabili framlengist hún sjálfkrafa.

Hvernig er tryggingunni sagt upp?

Hægt er að segja tryggingunni upp hvenær sem er á tryggingartímabilinu.