Líftrygging

Upplýsingaskjal þetta tilgreinir einungis helstu atriði tryggingarinnar, s.s. hvað er innifalið og hvað ekki. Ekki er um að ræða tæmandi upptalningu né persónulegt yfirlit yfir tryggingar sem viðskiptavinir velja. Upplýsingaskjalið hefur ekki lagalega þýðingu og gegnir eingöngu þeim tilgangi að upplýsa viðskiptavini um helstu þætti tryggingarinnar. Tryggingayfirlit og nákvæmar upplýsingar um samningsskilmála sem gilda eru aðgengilegar á vátryggingarskírteini tryggingarinnar sem hægt er að nálgast á Mínum síðum Varðar. Skilmálar tryggingarinnar hafa að geyma tæmandi upplýsingar um vátryggingarverndina og eru hluti af samningi aðila ásamt vátryggingarskírteini.

Hvernig trygging er Líftrygging?

Fráfall ástvina er mikið áfall og getur líftrygging aldrei bætt þann skaða sem fjölskyldan verður fyrir, en hún getur dregið úr þeim fjárhagslegu áhrifum sem fráfallið veldur. Líftryggingu er ætlað að styðja við fjölskyldur komi til andláts og þannig viðhalda lífsgæðum og fjárhagslegu öryggi þeirra sem eftir standa. Sé bótaskylda til staðar eru greiddar bætur með eingreiðslu til rétthafa og eru þær skattfrjálsar og greiddar utan hefðbundinna dánarbússkipta. Viðskiptavinir velja rétthafa í upphafi en hægt er að velja t.d. maka, ákveðin annan einstakling eða lögerfingja. Sé ekkert valið fer um útgreiðslu bóta eftir lögum um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 og er meginreglan sú að greitt er til eftirlifandi maka.

Tryggingin bætir

Dánarbætur til rétthafa sem viðskiptavinur velur í upphafi.

Dánarbætur barna ef lifandi fætt barn vátryggðs andast á vátryggingartímanum. Að hámarki 750.000 kr. eru greiddar til vátryggðs.

Sjúkdóm á lokastigi ef sjúkdómur er greindur fyrir 65 ára aldur og læknar hafa staðfest lífslíkur 6 mánuði eða minna.

Tryggingin bætir ekki

Sjálfsvíg innan árs frá gildistöku tryggingarinnar.

Eru einhverjar takmarkanir eða varúðarreglur?

Svipti vátryggður sig lífi innan árs frá því að vátryggingin tók gildi er félagið laust úr ábyrgð.

Komi í ljós að rangar upplýsingar hafi verið veittar við upphaf tryggingatöku geta slíkar rangar upplýsingar haft áhrif á bótarétt.

Tryggingin fellur niður við andlát vátryggðs.

Vátryggðum ber að fylgja varúðarreglum Varðar.

Vátryggðum ber að kynna sér skilmála tryggingarinnar.

Tilkynna skal um sjúkdóm þess tryggða og rétthafa bóta innan árs frá greiningu.

Hvar gildir tryggingin?

Tryggingin gildir hvar sem er í heiminum. Nánari upplýsingar um gildissvið má finna í skilmála tryggingarinnar.

Hverjar eru helstu skyldur þess tryggða?

Svara öllum spurningum Varðar vegna áhættumats rétt og af heiðarleika.

Veita allar nauðsynlegar upplýsingar, hvort sem er við endurnýjun, breytingar á tryggingunni eða við tjónstilkynningu.

Tilkynna um tjón við fyrsta hentugleika og eigi síðar en innan árs frá tjónsatburði.

Hvenær og hvernig er greitt fyrir trygginguna?

Iðgjöld tryggingarinnar ber að greiða á gjalddaga. Við endurnýjun hækkar ársiðgjaldið í samræmi við breytingu á vísitölu frá grunnvísitölu samnings. Vörður sendir kröfur mánaðarlega í heimabanka eða árlega ef óskað er eftir því að greiða iðgjöld í einu lagi. Hægt er að breyta greiðslumáta á Mínum síðum Varðar. Þar er einnig hægt að velja að greiða iðgjöld með kreditkorti.

Hvenær hefst tryggingarverndin og hvernig lýkur henni?

Tryggingarsamningar gilda almennt í 12 mánuði frá samþykkt tilboðs og útgáfu tryggingar og miðast iðgjöld við ársiðgjald. Sé tryggingu ekki sagt upp á því tímabili framlengist hún sjálfkrafa.

Hvernig er tryggingunni sagt upp?

Viðskiptavinir geta sagt tryggingunni skriflega upp hvenær sem er á vátryggingartímabilinu. Iðgjald skal greitt fyrir það tímabil sem félagið er í ábyrgð samkvæmt vátryggingunni.