Vinnuvélatrygging

Upplýsingaskjal þetta tilgreinir einungis helstu atriði tryggingarinnar, s.s. hvað er innifalið og hvað ekki. Ekki er um að ræða tæmandi upptalningu né persónulegt yfirlit yfir tryggingar sem viðskiptavinir velja. Upplýsingaskjalið hefur ekki lagalega þýðingu og gegnir eingöngu þeim tilgangi að upplýsa viðskiptavini um helstu þætti tryggingarinnar. Tryggingayfirlit og nákvæmar upplýsingar um samningsskilmála sem gilda eru aðgengilegar á vátryggingarskírteini tryggingarinnar sem hægt er að nálgast á Mínum síðum Varðar. Skilmálar tryggingarinnar hafa að geyma tæmandi upplýsingar um vátryggingarverndina og eru hluti af samningi aðila ásamt vátryggingarskírteini. 

Hvernig trygging er Vinnuvélatrygging?

Vinnuvélatrygging samanstendur af húftryggingu, ábyrgðartryggingu og brunatryggingu. Hún bætir tjón vegna skemmda á vinnuvél og eðlilegum aukahlutum hennar, svo sem grjótgrindum og venjulegum útvörðum. Hún tryggir einnig vátryggingartaka fyrir skaðabótaábyrgð sem á hann kann að falla vegna notkunar vinnuvélarinnar. 

Tryggingin bætir
Ábyrgðartrygging

Tekur til skaðabótaábyrgðar sem fellur á vátryggðan vegna slysa á mönnum eða skemmda á munum vegna notkunar hinnar vátryggðu vinnuvélar.

Húftrygging

Tjón vegna eldingar, eldsvoða og sprengingar.

Tjón vegna árekstrar, áaksturs, veltu eða hrapi vinnuvélar, grjóthruns, snjóflóðs og skriðufalls.

Skemmdir sem verða á tæki sé því stolið eða tilraun gerð til að stela því. Sama gildir um tjón vegna skemmdarverka.

Tjón vegna stórviðris, þegar vindhraði nær yfir 30 m/sek

Tjón við flutning á vél með öðru flutningstæki á landi.

Brot á rúðum vinnuvélar.

Brunatrygging

Skemmdir vegna eldsvoða, eldingar eða sprengingar sem stafar af eldsvoða.

Tryggingin bætir ekki
Ábyrgðartrygging

Ábyrgð vegna skemmda eða glötunar muna sem vátryggður á með einum eða með öðrum, hefur að láni, til geymslu, sölu, flutnings eða eru af öðrum ástæðum í vörslu hans eða sem vátryggður hefur tekið í heimildarleysi.

Tjón sem starfsábyrgðartrygging tekur til.

Tjón vegna eldsvoða, kjarnorku eða geislavirkra efna

Tjón vegna loftfars eða er afleiðing notkunar þess.

Skaðabótakröfu sem fellur á vátryggðan sem eiganda eða notanda skráningarskylds ökutækis, skips eða annarra farartækja

Skaðabótakröfu vegna tjóns sem hlýst við byggingarframkvæmdir á fasteign, sem vátryggður á eða notar.

Skaðabótakröfu vegna tjóns sem hlýst af þunga vinnuvélar, t.d. á brúm, vegum eða lögnum í jörðu.

Húftrygging

Tjón þegar sandur, möl, aska, vikur eða önnur jarðefni fjúka á vinnuvélina.

Tjón þegar rúður brotna við úrtöku eða ísetningu, eða þegar flísast úr rúðu, hún rispast eða skrámast.

Tjón sem valdið af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi vátryggðs.

Skemmdir vegna efnisgalla, hönnunargalla, smíðagalla eða viðgerðargalla.

Skemmdir sem verða af sliti eða ófullnægjandi viðhaldi, fúa, tæringu, málmþreytu eða sambærilegum orsökum

Tjón eða skemmdir sem eru á ábyrgð framleiðanda eða seljanda samkvæmt lögum eða samningum.

Tjón þegar vinnuvél gegnblotnar að hluta til eða algerlega vegna sjávarfalla.

Tjón sem aðeins verður á hjólum, hjólbörðum, reimum, skriðbeltum, keðjum, lyftu- eða færiböndum, fjöðrum, rafgeymi, gleri, viðtækjum og öðrum hljómtækjum svo og tjón vegna þjófnaðar á einstaka hlutum vinnuvélarinnar og skemmda sem af því stafa.

Tjón á rafbúnaði vinnuvélarinnar sem hljótast af skammhlaupi, sem ekki veldur eldsvoða.

Tjón á strokkum, kæli eða öðrum hlutum vinnuvélarinnar sem stafa af því að kælivatnið frýs eða af örðum áhrifum veðráttu.

Tjón á málningu eða rispur á húsi og hlífum vinnuvélar.

Brunatrygging

Sviðnun eða bráðnun ef eldur verður laus.

Eru einhverjar takmarkanir eða varúðarreglur?

Vátryggðum ber að fylgja varúðarreglum Varðar.

Sé vinnuvélin með lokuðu læsanlegu húsi skal henni tryggilega læst þegar farið er frá henni og rúðum eða sóllúgu lokað. Lyklar að vinnuvélinni skulu geymdir á öruggum stað þar sem óviðkomandi eiga ekki greiðan aðgang.

Vátryggður skal vera í líkamlegu ástandi til þess að geta stjórnað vinnuvélinni örugglega og ekki undir áhrifum áfengis, örvandi eða deyfandi lyfja.

Vátryggður skal hafa hæfni til þess að stjórna vinnuvélinni örugglega og hafa til þess tilskilin réttindi.

Vátryggður og sá sem hefur vinnuvélina undir höndum skal sjá til þess hún sé í lögmæltu ástandi og að notkun eða meðferð vinnuvélarinnar sé í samræmi við leiðbeiningar og þjónustuhandbók framleiðanda. Sérstaklega ber að sjá um að öryggistæki séu í lagi

Vátryggðum er skylt að gæta þess, að við stjórn vinnuvéla og annarra tækja séu ekki aðrir starfsmenn en þeir, sem hafa lögskilin réttindi og hæfni til að stjórna slíkum tækjum.

Stjórnendur tækis eða vélar skulu vera í líkamlegu ástandi til þess að geta rækt störf sín örugglega og ekki undir áhrifum áfengis, örvandi eða deyfandi lyfja.

Áður en hafinn er gröftur í jörðu, borvinna eða sögun í húsum eða utanhúss, skulu vátryggður og starfsmenn hans kynna sér legu á leiðslum, strengjum og öðrum lögnum, þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.

Hvar gildir tryggingin?

Vátryggingin gildir aðeins á Íslandi, nema sérstaklega sé samið um annað.

Hverjar eru helstu skyldur þess tryggða?

Veita allar nauðsynlegar upplýsingar, hvort sem er við endurnýjun eða breytingar á tryggingunni.

Tilkynna um tjón við fyrsta hentugleika og eigi síðar en innan árs frá tjónsatburði. Ef um innbrot er að ræða skal tilkynna til lögreglu, skilyrði fyrir greiðsluskyldu að lögregluskýrslu sé skilað sem sönnun fyrir tjóni.

Hvenær og hvernig er greitt fyrir trygginguna?

Iðgjöld tryggingarinnar ber að greiða á gjalddaga. Við endurnýjun hækkar ársiðgjaldið í samræmi við breytingu á vísitölu frá grunnvísitölu samnings. Vörður sendir kröfur mánaðarlega í heimabanka eða árlega ef óskað er eftir því að greiða iðgjöld í einu lagi. Hægt er að breyta greiðslumáta á Mínum síðum Varðar. Þar er einnig hægt að velja að greiða iðgjöld með kreditkorti.

Hvenær hefst vátryggingarverndin og hvernig lýkur henni?

Vátryggingarsamningar gilda almennt í 12 mánuði frá samþykktu tilboði og útgáfu tryggingar og miðast iðgjöld við ársiðgjald. Sé tryggingu ekki sagt upp á því tímabili framlengist hún sjálfkrafa.

Hvernig er tryggingunni sagt upp?

Hægt er að segja tryggingunni upp hvenær sem er á vátryggingartímabilinu.