Golfvernd

Upplýsingaskjal þetta tilgreinir einungis helstu atriði tryggingarinnar, s.s. hvað er innifalið og hvað ekki. Ekki er um að ræða tæmandi upptalningu né persónulegt yfirlit yfir tryggingar sem viðskiptavinir velja. Upplýsingaskjalið hefur ekki lagalega þýðingu og gegnir eingöngu þeim tilgangi að upplýsa viðskiptavini um helstu þætti tryggingarinnar. Tryggingayfirlit og nákvæmar upplýsingar um samningsskilmála sem gilda eru aðgengilegar á vátryggingarskírteini tryggingarinnar sem hægt er að nálgast á Mínum síðum Varðar. Skilmálar tryggingarinnar hafa að geyma tæmandi upplýsingar um vátryggingarverndina og eru hluti af samningi aðila ásamt vátryggingarskírteini. 

Hvernig trygging er Golfvernd?

Golfvernd er sértrygging fyrir kylfinga. Hún veitir alhliða vernd gegn óvæntum atvikum innan sem utan golfvallar og bætir tjón vegna þjófnaðar á golfbúnaði. Tryggingin skiptist í golfbúnaðartryggingu, óhappatryggingu, golfslysatryggingu, árgjaldatryggingu og tryggingu fyrir leigu á búnaði erlendis, lendi vátryggður í farangurstöfum. Einnig er innifalið í tryggingunni möguleiki vátryggðs, fari hann holu í höggi, að gera vel við meðspilara sína. Að auki er ábyrgðartrygging innifalin í Golfverndinni. Viðskiptavinir velja sjálfir eigin áhættu (sjálfsábyrgð), þar sem það á við og komi til tjóns bera viðskiptavinir sjálfir þá áhættu.

Tryggingin bætir
Golfslysatrygging

Slys sem vátryggður verður fyrir við golfiðkun á golfvelli eða á æfingasvæði við golfvöll án tillits til skaðabótaskyldu.

Sjúkrahúskostnað, bæði innanlands og utan.

Varanlega örorku valdi slys við golfiðkun því að vátryggður hlýtur varanlega örorku, innan þriggja ára frá slysadegi.

Ef vátryggur verður fyrir slysi á golfvelli sem veldur andláti innan árs frá slysadegi, án þess að aðrar skýringar séu að finna á orsökum andláts.

Tannbrot sem hlýst við golfiðkun og eru greiddar bætur fyrir viðgerðir á heilbrigðum tönnum sem laskast eða brotna við slys.

Golfbúnaðartrygging

Skyndilegan og ófyrirsjáanlegan utanaðkomandi atburð sem veldur tjóni á golfbúnaði á vátryggingartímabilinu. Til golfbúnaðar teljast m.a. kylfur, poki, kerra, fatnaður, skór, auk búnaðar sem almennt má finna í golfpokum og er ætlaður til golfiðkunar.

Þjófnað á golfbúnaði, hafi hann verið vegna innbrots í læsta íbúð, bifreið, einkabát, einkaloftfar, sumarhús, hjólhýsi og veiðihús þegar búið er í þeim.

Þjófnað á golfbúnaði utan golfskála, hafi hann verið geymdur í sérmerktu svæði.

Rán, þ.e. töku golfbúnaðar með líkamlegu ofbeldi eða hótunum um að beita því.

Skemmdarverk sem unnin eru á golfbúnaði sem valdið er af ásetningi, þó ekki ef vátryggður sjálfur veldur skemmdunum.

Ábyrgðartrygging

Skaðabótaskyldu sem getur fallið á vátryggðan við golfiðkun samkvæmt íslenskum lögum eða réttarvenjum, sjá nánar skilmála tryggingarinnar.

Tjón að því leyti sem tjónþoli (þriðji aðili) á ekki að bera tjónið sjálfur vegna meðsakar eða meðábyrgðar.

Tjón sem barn yngra en 10 ára veldur án tillits til skaðabótaskyldu.

Kostnað við málsvörn sem vátryggður þarf að fara í vegna tryggingarinnar og Vörður samþykkir.

Árgjaldatrygging

Tjón sem verður ef vátryggðum er ófært að stunda golf á golftímabilinu vegna veikinda eða slyss og hefur þegar greitt árgjald í golfklúbb.

Skilyrði: Árgjald í einn klúbb. Tímabil ófærni miðast við að minnsta kosti 2 mánuði af golftímabili. Golftímabilið sé að lágmarki 5 mánuðir, maí til og með september og árgjaldinu dreift jafnt á þetta tímabili.

Hola í höggi

Ef vátryggður slær holu í höggi greiðist fjárhæðin sem getið er um á vátryggingarskírteininu. Henni er ætlað að endurgreiða kostnað sem hlýst af því að bjóða meðspilurum upp á veitingar að hring loknum.

Skilyrði: Spilaðar að minnsta kosti 9 holur með minnst einum meðspilara. Höggið verður að hafa verið það fyrsta sem slegið var af teig í átt að holu.

Skilyrði: Völlurinn verður að hafa fengið viðurkenningu frá GSÍ eða sambærilegum erlendum aðila. Skorkort verður að vera rétt útfyllt. Tilkynna skal höggið til klúbbstjórnar eða starfsmanns vallarins.

Húftrygging bifreiða

Tjón af völdum golfbolta sem sleginn er í bifreið vátryggðs af þar til gerðu svæði og markmiðið með högginu er ekki að valda skemmdum.

Leiga á búnaði erlendis vegna farangurstafa

Tjón sem verður vegna tafa á afhendingu golfbúnaðar (kylfum og golfpoka) í áætlunar- eða leiguflugi sem varir í allt að 92 samfellda daga frá upphafi ferðar frá Íslandi.

Tjón sem verður vegna þess að leigja þarf golfbúnað vegna tafa á afhendingu, fyrir hvern vátryggðan 16 ára og eldri, ef innritaður golfbúnaður er ekki afhentur innan 8 klukkustunda eftir að á áfangastað er komið.

Tjón sem verður ef börn vátryggðs, yngri en 16 ára, ferðast án forráðamanns.

Óhappatrygging

Tjón sem vátryggður veldur mönnum eða á munum við golfiðkun á golfvelli eða á æfingasvæði við golfvöll.

Tryggingin bætir ekki
Golfslysatrygging

Slys sem verða vegna matareitrunar, drykkjareitrunar, neyslu áfengis, fíkniefna eða annarra nautnalyfja.

Slys sem vátryggður verður fyrir í handalögmáli, eða við þátttöku í refsiverðum verknaði.

Dánartryggingu ef sjúklegt ástand, veikindi eða sjúkdómur hafa samverkandi áhrif á dauða vátryggðs.

Tannbrot sem fást greidd af öðrum aðila t.d. Sjúkratryggingum Íslands eða vátryggjanda bifreiðar.

Slys þar sem eftirfarandi sjúkdómar eru til staðar fyrir: Brjósklos, þursabit, liðagigt, slitgigt, eða hvers konar aðrir gigtarsjúkdómar.

Golfbúnaðartrygging

Tjón sem stafar af eðlilegu sliti, galla, rangri samsetningu, ónógu viðhaldi.

Tjón sem verður ef vátryggður geymir hlut.

Tjón sem seljandi, viðgerðaraðili eða flutningsaðili ber ábyrgð á samkvæmt samningi eða lögum.

Tjón á munum sem stolið er úr ólæstum híbýlum, bílum, bátum eða tjöldum.

Ábyrgðartrygging

Tjón sem vátryggðir valda hvor öðrum.

Tjón á munum sem hinir vátryggðu hafa til afnota, til geymslu eða eru af öðrum orsökum í þeirra vörslu. Né bætir hún tjón á munum sem vátryggðir hafa tekið ófrjálsri hendi.

Tjón vegna skaðabótakröfu sem fellur á vátryggða sem eigendur eða notendur húseigna, loftfara, lystibáta eða hvers kyns skráningarskyldra vélknúinna farartækja.

Árgjaldatrygging

Tjón vegna hvers kyns veikinda eða sjúkdóma sem voru til staðar áður en vátryggingin var tekin.

Tjón sem verður á 9. mánuði meðgöngu.

Slys sem átti sér stað áður en tryggingin var tekin.

Leiga á búnaði erlendis vegna farangurstafa

Tjón sem verður vegna tafa á afhendingu golfbúnaðar þegar vátryggður er á heimleið.

Eru einhverjar takmarkanir eða varúðarreglur?

Vátryggðum ber að fylgja varúðarreglum Varðar.

Læsa þarf tryggilega íbúðarhúsnæði eða öðrum stöðum þar sem golfbúnaður er geymdur. Ennfremur skal loka gluggum og krækja aftur og ganga að öðru leyti þannig frá að óviðkomandi eigi ekki greiðan aðgang að hinu vátryggða.

Lögregluskýrslur eru alltaf skilyrði vegna þjófnaðar eða skemmda á golfbúnaði.

Þegar um tryggingu er að ræða vegna leigu á búnaði erlendis skal vátryggður gæta þess að tímamörk fyrir tengiflug séu ekki þrengri en lágmörk viðkomandi flugfélags/flugvallar kveða á um. Einnig er skilyrði að leggja fram kvittun vegna leigu á búnaði.

Þegar um húftryggingu er að ræða skal gæta þess að leggja bifreið þannig að ekki sé hætta á því að hún verði fyrir eðlilega slegnum golfbolta. Áréttað er að eigin áhætta er tilgreind á vátryggingarskírteini.

Hvar gildir tryggingin?

Tryggingin gildir hvar sem er í heiminum, þó að hámarki 92 daga frá brottför frá Íslandi á ferðalagi erlendis.

Hverjar eru helstu skyldur þess tryggða?

Veita allar nauðsynlegar upplýsingar, hvort sem er við endurnýjun eða breytingar á tryggingunni.

Vegna slysatryggingar ber slasaða að leita strax til læknis og gangast undir nauðsynlegar aðgerðir og fara að öllum fyrirmælum lækna.

Tilkynna skal um slys þegar í stað eða eins fljótt og verða má og skila læknisvottorðum sem Vörður óskar eftir s.s. áverkavottorðum, vottorði um óvinnufærni, sem og öðrum nauðsynlegum vottorðum sem varpað geta ljósi á bótaskyldu.

Skila lögregluskýrslum sé þeirra krafist og öðrum gögnum til þess að flýta fyrir afgreiðslu tjóns.

Fylgja öllum varúðarreglum Varðar og fyrirmælum komi til tjóns.

Tilkynna um tjón við fyrsta hentugleika og eigi síðar en innan árs frá tjónsatburði.

Hvenær og hvernig er greitt fyrir trygginguna?

Iðgjöld tryggingarinnar ber að greiða á gjalddaga. Við endurnýjun hækkar ársiðgjaldið í samræmi við breytingu á vísitölu frá grunnvísitölu samnings. Vörður sendir kröfur mánaðarlega í heimabanka eða árlega ef óskað er eftir því að greiða iðgjöld í einu lagi. Hægt er að breyta greiðslumáta á Mínum síðum Varðar. Þar er einnig hægt að velja að greiða iðgjöld með kreditkorti.

Hvenær hefst vátryggingarverndin og hvernig lýkur henni?

Vátryggingarsamningar gilda almennt í 12 mánuði frá samþykktu tilboði og útgáfu tryggingar og miðast iðgjöld við ársiðgjald. Sé tryggingu ekki sagt upp á því tímabili framlengist hún sjálfkrafa.

Hvernig er tryggingunni sagt upp?

Hægt er að segja tryggingunni upp hvenær sem er á vátryggingartímabilinu.