Lausafjártrygging

E-3 (E-11 og E-12)

Upplýsingaskjal þetta tilgreinir einungis helstu atriði tryggingarinnar, s.s. hvað er innifalið og hvað ekki. Ekki er um að ræða tæmandi upptalningu né persónulegt yfirlit yfir tryggingar sem viðskiptavinir velja. Upplýsingaskjalið hefur ekki lagalega þýðingu og gegnir eingöngu þeim tilgangi að upplýsa viðskiptavini um helstu þætti tryggingarinnar. Tryggingayfirlit og nákvæmar upplýsingar um samningsskilmála sem gilda eru aðgengilegar á vátryggingarskírteini tryggingarinnar sem hægt er að nálgast á Mínum síðum Varðar. Skilmálar tryggingarinnar hafa að geyma tæmandi upplýsingar um vátryggingarverndina og eru hluti af samningi aðila ásamt vátryggingarskírteini. 

Hvernig trygging er Lausafjártrygging?

Lausafjártrygging bætir tjón sem verður á því lausafé sem tiltekið er í vátryggingarskírteini. Hægt er að velja um brunatryggingu, innbrotstryggingu og vatnstjónstryggingu, allt eftir þörf vátryggingartaka.

Tryggingin bætir
Brunatrygging lausafjár

Tjón vegna eldsvoða.

Tjón vegna eldingar.

Tjón vegna gassprengingar svo sem gassprenginga við eldunartæki.

Tjón vegna sótfalls.

Kostnað tengdan björgunar- og slökkvistarfi.

Innbrotstrygging

Þjófnað á vátryggðum munum við innbrot.

Tjón á húsnæði sem hlýst af innbroti.

Vatnstjónstrygging

Tjón af völdum vatns, gufu eða olíu sem óvænt og skyndilega streymir fram og á upptök sín innan útveggja fasteignar og sökkuls hennar.

Tjón af völdum vatns sem vegna óvenjumikils skýfalls eða asahláku nær ekki að streyma í niðurföll og flæðir inn í húsnæði vátryggðs.

Tjón vegna óveðurs sem veldur því að hús eða hluti húss rofnar, þar sem vindhraði fer yfir 30 m/sek.

Tryggingin bætir ekki
Brunatrygging lausafjár

Óbeint tjón, svo sem rekstrartap, töf á framleiðslu eða afhendingu á vörum.

Tjón á hvers kyns vélknúnum farartækjum nema sérstaklega sé samið um annað.

Innbrotstrygging

Tjón á rúðum.

Tjón sem stafar af eldsvoða.

Tjón sem verður vegna innbrota eða tilrauna til þeirra af hendi heimilisfólks eða starfsfólki vátryggingartaka.

Óbeint tjón, svo sem tjón vegna stöðvunar á rekstri.

Vatnstjónstrygging

Tjón sem orsakast af úrkomu, hvers kyns flóðum, snjóbráð eða regnvatni frá þakrennum, niðurfallsrennum eða svölum.

Tjón sem orsakast af langvarandi raka eða vökvasmitun.

Tjón sem orsakast af niðurhellingu vökva úr handílátum.

Eru einhverjar takmarkanir eða varúðarreglur?

Vátryggðum ber að fylgja varúðarreglum Varðar.

Vátryggðum ber að sjá um að umbúnaður á vátryggingarstað sé í fyllsta samræmi við reglur í gildandi lögum og reglugerðum á hverjum tíma, eftir því sem við á.

Dyr og aðrir inngangar skulu vera tryggilega læstir og gluggar lokaðir og kræktir aftur þegar geymslustaður er mannlaus.

Vátryggðum ber að fara eftir fyrirmælum eða athugasemdum frá opinberum eftirlitsstofnunum svo sem Mannvirkjastofnun og Neytendastofu.

Í óupphituðu húsnæði skal lokað fyrir vatnsaðstreymi, vatnslagnir ásamt viðfestum tækjum skulu tæmd af vatni þegar hætta er á frosti.

Vörubirgðir í kjöllurum skulu geymdar á vörugrind eða palli og ennfremur verður að vera niðurfall í geymslurýminu.

Hvar gildir tryggingin?

Tryggingin gildir aðeins á þeim stað sem tilgreindur er á vátryggingarskírteini eða endurnýjunarkvittun.

Hverjar eru helstu skyldur þess tryggða?

Veita allar nauðsynlegar upplýsingar, hvort sem er við endurnýjun eða breytingar á tryggingunni.

Tilkynna um tjón við fyrsta hentugleika og eigi síðar en innan árs frá tjónsatburði. Ef um innbrot er að ræða skal tilkynna til lögreglu, skilyrði fyrir greiðsluskyldu að lögregluskýrslu sé skilað sem sönnun fyrir tjóni.

Hvenær og hvernig er greitt fyrir trygginguna?

Iðgjöld tryggingarinnar ber að greiða á gjalddaga. Við endurnýjun hækkar ársiðgjaldið í samræmi við breytingu á vísitölu frá grunnvísitölu samnings. Vörður sendir kröfur mánaðarlega í heimabanka eða árlega ef óskað er eftir því að greiða iðgjöld í einu lagi. Hægt er að breyta greiðslumáta á Mínum síðum Varðar. Þar er einnig hægt að velja að greiða iðgjöld með kreditkorti.

Hvenær hefst vátryggingarverndin og hvernig lýkur henni?

Vátryggingarsamningar gilda almennt í 12 mánuði frá samþykktu tilboði og útgáfu tryggingar og miðast iðgjöld við ársiðgjald. Sé tryggingu ekki sagt upp á því tímabili framlengist hún sjálfkrafa.

Hvernig er tryggingunni sagt upp?

Hægt er að segja tryggingunni upp hvenær sem er á vátryggingartímabilinu.