Hestatrygging

Upplýsingaskjal þetta tilgreinir einungis helstu atriði tryggingarinnar, s.s. hvað er innifalið og hvað ekki. Ekki er um að ræða tæmandi upptalningu né persónulegt yfirlit yfir tryggingar sem viðskiptavinir velja. Upplýsingaskjalið hefur ekki lagalega þýðingu og gegnir eingöngu þeim tilgangi að upplýsa viðskiptavini um helstu þætti tryggingarinnar. Tryggingayfirlit og nákvæmar upplýsingar um samningsskilmála sem gilda eru aðgengilegar á vátryggingarskírteini tryggingarinnar sem hægt er að nálgast á Mínum síðum Varðar. Skilmálar tryggingarinnar hafa að geyma tæmandi upplýsingar um vátryggingarverndina og eru hluti af samningi aðila ásamt vátryggingarskírteini. 

Hvernig trygging er Hestatrygging?

Hestatrygging er víðtæk trygging sem hentar hestaeigendum, hvort sem þeir eiga reiðhesta eða hesta til ræktunar og undaneldis. Tryggingin samanstendur af líf- og heilsutryggingu, sjúkrakostnaðartryggingu og frjálsri ábyrgðartryggingu.

Tryggingin bætir
Líf- og heilsutrygging

Dauða hests vegna slyss eða sjúkdóms, eða ef nauðsynlega þarf að aflífa hann.

Þjófnað eða tap á hesti sem finnst ekki innan 120 daga frá tilkynningu um hvarf.

Varanlegan heilsubrest hests og tjón sem rýrir hestinn alveg því notagildi sem tilgreint er í beiðni.

Sjúkrakostnaðartrygging

Réttmætan, sanngjarnan og ófyrirséðan dýralækniskostnað sem er bein afleiðing af slysum eða sjúkdómum hests.

Ábyrgðartrygging

Skaðabótaskyldu sem fellur á vátryggðan sem eiganda hests vegna líkamstjóns eða skemmda á munum.

Tryggingin bætir ekki
Líf- og heilsutrygging

Geðslagsvandamál og arfgenga eða meðfædda sjúkdóma eða kvilla.

Atvik sem koma upp eða voru greind áður en vátrygging tók gildi eða sjúkdóma sem upp koma innan 30 daga frá gildistöku tryggingar.

Tjón vegna tilskipana yfirvalda eða annarra sambærilegra ráðstafana.

Tjón vegna verðfalls hests, þótt um sé að ræða afleiðingar af slysi eða sjúkdómum.

Ófrjósemi, nema að kynbótahross til undaneldis sé vátryggt.

Aldurstengda sjúkdóma.

Spatt.

Tjón vegna keppni, nema að keppnishestur sé vátryggður.

Sjúkrakostnaðartrygging

Atvik sem komið hafa upp áður en vátrygging tók gildi eða sjúkdóma sem upp koma innan 14 daga frá gildistöku tryggingar.

Kostnað vegna geðlagsvandamála eða arfgengra og/eða meðfæddra kvilla.

Kostnað vegna rannsókna eða meðferða í forvarnarskyni, eða afbrigðilegs vaxtar og afleiddra sjúkdóma.

Kostnað vegna geldingar, ófrjósemisaðgerðar eða fæðingar afkvæma.

Kostnað vegna járningar og umhirðu hófa, tannhirðu eða ormahreinsunar.

Kostnað vegna fóðurs, fæðubótaefna eða hreinlætisvara.

Kostnað vegna hjálpartækja eða heilsuvara.

Kostnað vegna vottorða og lyfseðla nema félagið óski þeirra.

Aukaálag á lækniskostnað vegna vitjunar utan vinnutíma nema að brýna nauðsyn hafi borið til.

Ábyrgðartrygging

Tjón sem fjölskylda eða skyldmenni á heimili vátryggingartaka verður fyrir.

Tjón sem fjölskylda þess sem hefur hestinn í hvers kyns vörslum verður fyrir.

Tjón á munum sem framangreindir aðilar hafa að láni, til leigu, til geymslu eða í vörslu sinni.

Tjón sem rekja má til þess að ekki er fylgt lögum og reglum um lausagöngu dýra eða merkinga þeirra.

Eru einhverjar takmarkanir eða varúðarreglur?

Vátryggðum ber að fylgja varúðarreglum Varðar.

Umhirða hestsins, vistarverur og fóðrun skal vera í samræmi við ákvæði dýraverndunarlaga á hverjum tíma auk reglugerða og stjórnvaldsfyrirmæla sem við eiga.

Hesturinn skal bólusettur fyrir sjúkdómum og sýkingum sem dýralæknar ráðleggja. Lyf skulu notuð reglulega til að eyða lús. Ormahreinsun skal fara fram a.m.k. tvisvar á ári eða oftar eftir ráðleggingum dýralækna.

Vanda skal umhirðu tanna og hófa og viðhafa reglulega fyrirbyggjandi aðgerðir svo sem röspun tanngadda, tálgun og hreinsun hófa auk eðlilegra járninga reiðhesta.

Fylgja skal reglum sveitarfélaga um lausagöngu. Kappkosta skal að halda hestinum innan fyrirhugaðra og löglegra svæða með reglulegu eftirliti og viðhaldi girðinga.

Hvar gildir tryggingin?

Vátryggingin gildir einungis á Íslandi.

Hverjar eru helstu skyldur þess tryggða?

Veita allar nauðsynlegar upplýsingar, hvort sem er við endurnýjun, breytingar á tryggingunni eða við tjónstilkynningu.

Sé tiltekin ákveðin notkun á hinu vátryggða og notkun breytist, ber að tilkynna félaginu það strax.

Tilkynna um tjón við fyrsta hentugleika og eigi síðar en innan árs frá tjónsatburði.

Hvenær og hvernig er greitt fyrir trygginguna?

Iðgjöld tryggingarinnar ber að greiða á gjalddaga. Við endurnýjun hækkar ársiðgjaldið í samræmi við breytingu á vísitölu frá grunnvísitölu samnings. Vörður sendir kröfur mánaðarlega í heimabanka eða árlega ef óskað er eftir því að greiða iðgjöld í einu lagi. Hægt er að breyta greiðslumáta á Mínum síðum Varðar. Þar er einnig hægt að velja að greiða iðgjöld með kreditkorti.

Hvenær hefst tryggingarverndin og hvernig lýkur henni?

Tryggingarsamningar gilda almennt í 12 mánuði frá samþykkt tilboðs og útgáfu tryggingar og miðast iðgjöld við ársiðgjald. Sé tryggingu ekki sagt upp á því tímabili framlengist hún sjálfkrafa.

Hvernig er tryggingunni sagt upp?

Hægt er að segja tryggingunni upp hvenær sem er á tryggingartímabilinu.