Landbúnaðartrygging

Upplýsingaskjal þetta tilgreinir einungis helstu atriði tryggingarinnar, s.s. hvað er innifalið og hvað ekki. Ekki er um að ræða tæmandi upptalningu né persónulegt yfirlit yfir tryggingar sem viðskiptavinir velja. Upplýsingaskjalið hefur ekki lagalega þýðingu og gegnir eingöngu þeim tilgangi að upplýsa viðskiptavini um helstu þætti tryggingarinnar. Tryggingayfirlit og nákvæmar upplýsingar um samningsskilmála sem gilda eru aðgengilegar á vátryggingarskírteini tryggingarinnar sem hægt er að nálgast á Mínum síðum Varðar. Skilmálar tryggingarinnar hafa að geyma tæmandi upplýsingar um vátryggingarverndina og eru hluti af samningi aðila ásamt vátryggingarskírteini. 

Hvernig trygging er Landbúnaðartrygging?

Landbúnaðartrygging er ætluð bændum sem leggja stund á hefðbundnar búgreinar svo sem sauðfjár- og nautgripabúskap. Sérhæfðan búrekstur verður að vátryggja sérstaklega, s.s. loðdýra-, yl-, alifugla-, garð- og svínarækt. Lausafjártrygging tryggir lausafé svo sem búfé, hey, fóður, áhöld og tæki á bóndabýli fyrir bruna og gripi fyrir umferðaróhöppum og raflosti. Ábyrgðartrygging tryggir bónda hins vegar fyrir skaðabótaábyrgð sem á hann kann að falla í tengslum við við búreksturinn.

Tryggingin bætir
Lausafjártrygging

Tjón af völdum eldsvoða og ef fóður ofhitnar og/eða brennur þótt eldur verði ekki laus.

Tjón vegna óveðurs þegar vindhraði fer yfir 30 m/s, verði tjónið með þeim hætti að vindur rjúfi eða felli hús sem hið vátryggða er geymt í.

Tjón á vátryggðu búfé verði það fyrir raflosti og drepst.

Tjón á vátryggðu búfé farist það af völdum umferðaróhapps, enda fáist tjónið ekki bætt af tjónvaldi eða úr ábyrgðartryggingu viðkomandi ökutækis.

Ábyrgðartrygging bænda

Skaðabótaábyrgð sem fellur á vátryggðan sem er bein afleiðing af tjóni á mönnum eða munum.

Bætur gegn skaðabótaskyldu, er starfsmenn vátryggðs baka honum gagnvart þriðja manni.

Rekstrarstöðvun bænda

a. Framlegðartap sem vátryggður verður fyrir við stöðvun rekstrar á vátryggingartímabilinu og leiðir til samdráttar í kjötframleiðslu af völdum bruna sem er bótaskyldur úr lausafjárttryggingu

Aukakostnað sem vátryggður verður fyrir sem reka má til þess að fjárhús eða kálfaeldishús vátryggðs verður ekki notað af völdum bruna sem er bótaskyldur úr lausafjártryggingu

Tryggingin bætir ekki
Lausafjártrygging

Tjón af eldi sem ekki verður talinn eldsvoði s.s. tjón á munum sem verða fyrir eldi eða hita við upphitun, suðu, þurrkun, straujun, reykingu og þess háttar og brenna af þeirra ástæðu

Tjón á tækjum eða leiðslum sem orsakast af skammhlaupi eða öðru rafmagnsfyrirbrigði, spani frá rafmögnuðu óveðri.

Óveðurstjón á munum sem staðsettir eru utanhúss.

Ábyrgðartrygging bænda

Tjón sem fjölskylda vátryggðs verður fyrir.

Tjón á munum, sem vátryggður, fjölskylda eða starfsmenn hans hafa að láni, að veði, til leigu, geymslu, flutnings, sölu, vinnslu, viðgerðar, hreinsunar, uppsetningar eða eru af öðrum ástæðum í vörslu hans.

Tjón á munum, er vátryggður, fjölskylda eða starfsmenn hans hafa tekið ófrjálsri hendi. Ekki er tjón heldur bætt á munum, sem vátryggði hefur selt en ekki afhent.

Tjón sem skyldutryggð flugvél eða skyldutryggt ökutæki veldur.

Tjón á mönnum eða munum, sem vátryggður á rétt á að fá bætt af annarri vátryggingu.

Tjón á eignum sem stafar af eldsvoða, reyk, sóti eða sprengingu.

Tjón á munum sem vátryggður hefur afhent eða afhentir eru fyrir hans reikning, að því leyti sem um er að ræða galla á hinum afhentu munum, vantanir, drátt á afhendingu eða annað þess háttar.

Eignatjón sem stafar af sprengingum, uppgreftri, aur- eða skriðuhlaupum, jarðsigi eða af því að stífla eða flóðgarður brestur.

Tjón er verða vegna byggingarframkvæmda á fasteign, sem vátryggður er eigandi að.

Rekstrarstöðvun bænda

Framlegðartap sem hlýst af rekstrartöfum vegna endurbóta, stækkunar, fjármagnsskorts fyrirmæla hins opinbera eða sambærilegra atvika

Aukið rekstartap sem hlýst af verkbanni og/eða verkfalli

Eru einhverjar takmarkanir eða varúðarreglur?

Vátryggðum ber að fylgja varúðarreglum Varðar.

Sé tiltekin eða ákveðin notkun eða starfsemi á hinu vátryggða skráð á skírteini, og notkun eða starfsemi breytist, ber vátryggðum eða þeim sem njóta réttar samkvæmt vátryggingunni að tilkynna félaginu um það án tafar.

Vátryggðum ber að sjá um að umbúnaður á vátryggingarstað sé í fyllsta samræmi við reglur í gildandi lögum og reglugerðum á hverjum tíma, eftir því sem við á.

Vátryggingartaka ber að fara eftir fyrirmælum eða athugasemdum frá opinberum eftirlitsstofnunum svo sem Brunamálastofnun og Löggildingarstofu.

Hvar gildir tryggingin?

Tryggingin gildir aðeins á þeim stað sem tilgreindur er á vátryggingarskírteini eða endurnýjunarkvittun. Ábyrgðartryggingin gildir á Íslandi.

Hverjar eru helstu skyldur þess tryggða?

Veita allar nauðsynlegar upplýsingar, hvort sem er við endurnýjun eða breytingar á tryggingunni.

Tilkynna tjón við fyrsta hentugleika og eigi síðar en innan árs frá tjónsatburði.

Hvenær og hvernig er greitt fyrir trygginguna?

Iðgjöld tryggingarinnar ber að greiða á gjalddaga. Við endurnýjun hækkar ársiðgjaldið í samræmi við breytingu á vísitölu frá grunnvísitölu samnings. Vörður sendir kröfur mánaðarlega í heimabanka eða árlega ef óskað er eftir því að greiða iðgjöld í einu lagi. Hægt er að breyta greiðslumáta á Mínum síðum Varðar. Þar er einnig hægt að velja að greiða iðgjöld með kreditkorti.

Hvenær hefst tryggingarverndin og hvernig lýkur henni?

Tryggingarsamningar gilda almennt í 12 mánuði frá samþykkt tilboðs og útgáfu tryggingar og miðast iðgjöld við ársiðgjald. Sé tryggingu ekki sagt upp á því tímabili framlengist hún sjálfkrafa.

Hvernig er tryggingunni sagt upp?

Hægt er að segja tryggingunni upp hvenær sem er á tryggingartímabilinu.