Hálf-kaskótrygging

Upplýsingaskjal þetta tilgreinir einungis helstu atriði tryggingarinnar, s.s. hvað er innifalið og hvað ekki. Ekki er um að ræða tæmandi upptalningu né persónulegt yfirlit yfir tryggingar sem viðskiptavinir velja. Upplýsingaskjalið hefur ekki lagalega þýðingu og gegnir eingöngu þeim tilgangi að upplýsa viðskiptavini um helstu þætti tryggingarinnar. Tryggingayfirlit og nákvæmar upplýsingar um samningsskilmála sem gilda eru aðgengilegar á vátryggingarskírteini tryggingarinnar sem hægt er að nálgast á Mínum síðum Varðar. Skilmálar tryggingarinnar hafa að geyma tæmandi upplýsingar um vátryggingarverndina og eru hluti af samningi aðila ásamt vátryggingarskírteini. 

Hvernig trygging er Hálf-kaskótrygging?

Hálf-kaskótrygging er með þrengra bótasvið en kaskótrygging ökutækja. Tryggingin hentar eigendum bifreiða og dráttarvéla sem aka lítið í þéttbýli og eru í minni áhættu á að lenda í árekstrum, þó svo að áhættur á borð við bruna- og veltutjón séu enn til staðar. 

Tryggingin bætir

Tjón vegna bruna, eldinga og eldsvoða eða sprenginga sem af honum stafa.

Tjón vegna stuldar og skemmda vegna þjófnaðar.

Tjón ef ökutækið veltur og/eða hrapar.

Brot á rúðum.

Tryggingin bætir ekki

Skemmdir á rafbúnaði vegna skammhlaups.

Skemmdir vegna eldsvoða ef hann er af völdum áreksturs.

Skemmdir vegna veltu og/eða hraps, sé það afleiðing áreksturs eða vegna kappaksturs eða reynsluaksturs.

Skemmdir á hvers konar sérútbúnaði, t.d. krönum vörubifreiða.

Skemmdir sem ekki teljast til eldsvoða, t.d. tjón á áklæði vegna sviðnunar.

Tjón þegar ökumaður, vegna undanfarandi neyslu áfengis, æsandi eða deyfandi lyfja, telst ekki geta stjórnað ökutækinu örugglega.

Skemmdir, sem verða, þegar ökutækinu er ekið af þeim, sem ekki hefur öðlast gilt ökuskírteini fyrir ökutækið.

Skemmdir á hjólum og hjólbörðum vegna veltu eða hraps, svo og stuld einstakra hluta ökutækis og skemmdir vegna hans.

Tjón á rúðu sem ekki telst rúðubrot, t.d. ef flísast úr rúðu eða hún rispast.

Eru einhverjar takmarkanir eða varúðarreglur?

Vátryggðum ber að fylgja varúðarreglum Varðar.

Ökutækinu skal tryggilega læst þegar farið er frá því og rúðum eða sóllúgu lokað. Lyklar að ökutækinu skulu geymdir á ábyggilegum stað þar sem óviðkomandi eiga ekki greiðan aðgang.

Vátryggður skal vera í líkamlegu ástandi til að stjórna ökutækinu örugglega og ekki undir áhrifum áfengis, örvandi eða deyfandi lyfja

Vátryggður skal hafa hæfni til að stjórna ökutækinu örugglega og hafa til þess tilskilin réttindi.

Vátryggður og sá sem hefur ökutækið undir höndum skal sjá til þess að það sé í lögmæltu ástandi, að ökutækið sé fært til lögbundinnar skoðunar og viðhald þess sé í samræmi við leiðbeiningar og þjónustuhandbók framleiðanda

Sérstaklega ber að sjá um að öryggistæki séu í lagi.

Hvar gildir tryggingin?

Tryggingin gildir aðeins fyrir það ökutæki sem tilgreint er á vátryggingaskírteini. Tryggingin nær ekki til aksturs utan Íslands, nema sérstaklega sé um það samið við Vörð.

Hverjar eru helstu skyldur þess tryggða?

Ef notkun breytist eða er ranglega skráð á skírteini ber að tilkynna félaginu það jafnskjótt og þeim er kunnugt um breytinguna. Misbrestur á því getur valdir takmörkun á ábyrgð félagsins.

Tryggðum ber í kjölfar bótaskylds atburðar að grípa til viðeigandi ráðstafanna til að takmarka tjónið, svo sem með því að færa það til skoðunar fagfólks, grípa til ráðstafana vegna aðvörunarljósa, drepa á vél eða færa á öruggan stað.

Hvenær og hvernig er greitt fyrir trygginguna?

Iðgjöld tryggingarinnar ber að greiða á gjalddaga. Við endurnýjun hækkar ársiðgjaldið í samræmi við breytingu á vísitölu frá grunnvísitölu samnings. Vörður sendir kröfur mánaðarlega í heimabanka eða árlega ef óskað er eftir því að greiða iðgjöld í einu lagi. Hægt er að breyta greiðslumáta á Mínum síðum Varðar. Þar er einnig hægt að velja að greiða iðgjöld með kreditkorti.

Hvenær hefst vátryggingarverndin og hvernig lýkur henni?

Vátryggingarsamningar gilda almennt í 12 mánuði frá samþykktu tilboði og útgáfu tryggingar og miðast iðgjöld við ársiðgjald. Sé tryggingu ekki sagt upp á því tímabili framlengist hún sjálfkrafa.

Hvernig er tryggingunni sagt upp?

Hægt er að segja tryggingunni upp hvenær sem er á vátryggingartímabilinu.