Kaskótrygging

Upplýsingaskjal þetta tilgreinir einungis helstu atriði tryggingarinnar, s.s. hvað er innifalið og hvað ekki. Ekki er um að ræða tæmandi upptalningu né persónulegt yfirlit yfir tryggingar sem viðskiptavinir velja. Upplýsingaskjalið hefur ekki lagalega þýðingu og gegnir eingöngu þeim tilgangi að upplýsa viðskiptavini um helstu þætti tryggingarinnar. Tryggingayfirlit og nákvæmar upplýsingar um samningsskilmála sem gilda eru aðgengilegar á tryggingarskírteini tryggingarinnar sem hægt er að nálgast á Mínum síðum Varðar. Skilmálar tryggingarinnar hafa að geyma tæmandi upplýsingar um tryggingarverndina og eru hluti af samningi aðila ásamt skírteini.  

Hvernig trygging er Kaskótrygging?

Kaskótrygging er valfrjáls ökutækjatrygging sem bætir skemmdir á eigin bifreið komi til tjóns sem ökumaður/eigandi sjálfur ber ábyrgð á. Tryggingin tekur einnig til þess ef ökutækið verður fyrir utanaðkomandi tjóni sem veldur skemmdum á ökutækinu sjálfu. Viðskiptavinir velja sjálfir eigin áhættu og komi til tjóns bera viðskiptavinir sjálfir þá ábyrgð.

Tryggingin bætir

Tjón á tryggðu ökutæki vegna skyndilegra og óvæntra utanaðkomandi atvika sem ekki eru sérstaklega undanskilin eða takmörkuð í skilmála.

Tjón vegna eldsvoða eða sprengingar sem stafar af eldsvoða. Það telst ekki eldsvoði ef eldur verður ekki laus.

Tjón vegna þjófnaðar eða tilraunar til þjófnaðar og skemmdarverka.

Tjón vegna óveðurs, ef ökutæki fýkur eða ef vélarhlíf, skottlok eða hurðir fjúka upp.

Tjón af völdum aur- eða vatnsflóða, skriðufalla, snjóflóða, verkfallsaðgerða eða uppþota.

Tryggingin bætir ekki

Tjón sem kemur til við kappakstur, aksturskeppni eða æfingar fyrir slíkan akstur.

Tjón sem verður rakið til hvers konar gæludýra.

Tjón sem kemur til ef sandur, möl, aska, vikur eða önnur laus jarðefni fjúka á ökutæki.

Tjón sem kemur til vegna steinkasts af vegi eða frá öðru ökutæki. Með steinkasti er átt við þann atburð þegar steinn eða steinar skjótast í bifreið og valda skemmdum á yfirborði ökutækis.

Tjón vegna efnisgalla, hönnunargalla, smíðisgalla, viðgerðargalla eða bilunar ökutækis.

Tjón vegna notkunar rangs eða óviðurkennds hleðslubúnaðar, eldsneytis, smurefnis, olíu eða annarra vökva.

Ákomur á undirvagni, vél- og rafbúnaði, dekkjum eða felgum ökutækis sem rýra ekki notagildi.

Tjón eða þjófnað á aukaútbúnaði ökutækis.

Tjón, slit og rýrnun ökutækis eða einstakra hluta þess vegna notkunar eða umgengni.

Tjón á eftirvögnum eða öðrum tækjum eða búnaði sem tengdur er við ökutæki eða skeytt við það.

Tjón á undirvagni á fjallvegum.

Tjón sem kemur til vegna flutnings á farmi nema tjónið verði rakið til umferðaróhapps.

Eru einhverjar takmarkanir eða varúðareglur?

Eigandi ökutækis ber eigin áhættu sem valin er í upphafi.

Ökutæki skal vera tryggilega læst. Lyklar geymdir á öruggum stað þar sem óviðkomandi hefur ekki aðgang.

Ökumaður skal vera í líkamlegu ástandi til að geta stjórnað ökutæki.

Tryggja skal að ökutæki sé í lögmæltu ástandi.

Ökumaður skal hafa hæfni til að stjórna ökutækinu og hafa til þess tilskilin réttindi.

Ekki skal nota ökutæki þar sem búið er að vara við akstri ökutækja eða vindstyrkur mælst sannanlega yfir 24 m/s auk þess sem ökutækið skal geymt þannig að ekki sé hætta á að það fjúki.

Hvar gildir tryggingin?

Tryggingin gildir á Íslandi. Enn fremur gildir tryggingin í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, Bretlandi og Sviss í allt að 90 daga frá brottfarardegi ökutækis frá Íslandi. Tryggingin gildir jafnframt fyrir ökutækið í flutningi milli landa með fyrsta flokks flutningaskipi, enda sé um árstryggingu að ræða.

Hverjar eru helstu skyldur þess tryggða?

Ef notkun breytist eða er ranglega skráð á skírteini ber að tilkynna félaginu það jafnskjótt og þeim er kunnugt um breytinguna. Misbrestur á því getur valdir takmörkun á ábyrgð félagsins.

Tryggðum ber í kjölfar bótaskylds atburðar að grípa til viðeigandi ráðstafanna til að takmarka tjónið, svo sem með því að færa það til skoðunar fagfólks, grípa til ráðstafana vegna aðvörunarljósa, drepa á vél eða færa á öruggan stað.

Hvenær og hvernig er greitt fyrir trygginguna?

Iðgjöld tryggingarinnar ber að greiða á gjalddaga. Við endurnýjun hækkar ársiðgjaldið í samræmi við breytingu á vísitölu frá grunnvísitölu samnings. Vörður sendir kröfur mánaðarlega í heimabanka eða árlega ef óskað er eftir því að greiða iðgjöld í einu lagi. Hægt er að breyta greiðslumáta á Mínum síðum Varðar. Þar er einnig hægt að velja að greiða iðgjöld með kreditkorti.

Hvenær hefst vátryggingarverndin og hvernig lýkur henni?

Tryggingarsamningar gilda almennt í 12 mánuði frá samþykkt tilboðs og útgáfu tryggingar og miðast iðgjöld við ársiðgjald. Sé tryggingu ekki sagt upp á því tímabili framlengist hún sjálfkrafa.

Hvernig er tryggingunni sagt upp?

Hægt er að segja tryggingunni upp hvenær sem er á vátryggingartímabilinu.