Ökutækjatrygging

Upplýsingaskjal þetta tilgreinir einungis helstu atriði tryggingarinnar, s.s. hvað er innifalið og hvað ekki. Ekki er um að ræða tæmandi upptalningu né persónulegt yfirlit yfir tryggingar sem viðskiptavinir velja. Upplýsingaskjalið hefur ekki lagalega þýðingu og gegnir eingöngu þeim tilgangi að upplýsa viðskiptavini um helstu þætti tryggingarinnar. Tryggingayfirlit og nákvæmar upplýsingar um samningsskilmála sem gilda eru aðgengilegar á vátryggingarskírteini tryggingarinnar sem hægt er að nálgast á Mínum síðum Varðar. Skilmálar tryggingarinnar hafa að geyma tæmandi upplýsingar um vátryggingarverndina og eru hluti af samningi aðila ásamt vátryggingarskírteini.

Hvernig trygging er Ökutækjatrygging?

Ökutækjatrygging felur í öllum tilvikum í sér lögboðna ábyrgðartryggingu ökutækis sem er skyldutrygging og tekur til greiðslu á bótakröfu vegna tjóns sem hlýst af notkun ökutækis. Slysatrygging ökumanns og eiganda er einnig lögboðin og bætir líkamstjón ökumanns og eiganda vegna annarra ökutækja en torfærutækja. Slysatrygging ökumanns og eiganda er valkvæð þegar um torfærutæki er að ræða.

Tryggingin bætir
Ábyrgðartrygging

Tjón sem stafar af notkun ökutækis, hvort sem keyrt er á bíl eða mannvirki.

Ökutæki er tryggt þó annar en eigandi keyri. Ökumaður þarf þó að hafa gilt ökuskírteini og notkunin að vera með leyfi eiganda.

Slys á fólki af völdum ökutækis.

Ef ökumaður keyrir á annað ökutæki í sinni eigu eða í eigu eiganda ökutækis.

Nær til aksturs erlendis, innan EES, Bretlandi og Sviss. Nauðsynlegt að eigandi sæki græna kortið (alþjóðlegt vátryggingakort) til Varðar áður en haldið er af stað.

Slysatrygging ökumanns og eiganda

Líkamstjón vegna umferðarslyss sem ökumaður verður fyrir við stjórn ökutækis.

Líkamstjón vegna umferðarslyss sem eigandi verður fyrir sem farþegi í eigin bíl.

Tryggingin er valkvæð fyrir torfærutæki, en ekki er bætt fyrir líkamstjón á þau tæki nema varanlegur miski nái að lágmarki 15 stigum. Hámarksbætur eru 40 m.kr. á tryggingartímabili þegar trygging er valkvæð.

Rúðutrygging

Brot á bílrúðu ásamt ísetningarkostnaði.

Í hverju tjóni ef skipt er um rúðu.

Eigin áhætta í rúðutryggingu er 25%

Tryggingin bætir ekki

Tjón á tryggðu ökutæki eiganda, munum eða húsnæði í hans eigu.

Eigin verðmæti ökumanns í bílnum.

Tjón sem verður við kappakstur eða aksturskeppni, né við æfingar við slíkan akstur.

Tjón sem valdið er af stórkostlegu gáleysi eða ásetningi.

Ef ökumaður er óhæfur til aksturs vegna ölvunar eða deyfilyfja, getur Vörður átt endurkröfurétt á eiganda.

Líkamstjón ökumanns eða eiganda á tryggðu torfærutæki ef varanlegur miski nær ekki 15 stigum.

Eru einhverjar takmarkanir eða varúðarrreglur?

Slysatrygging er valkvæð þegar um torfærutæki er að ræða.

Lögveð hvílir á ökutæki verði vanskil á iðgjaldi og gengur framar öðrum skuldbindingum sem hvíla ökutækinu í allt að 2 ár frá gjalddaga.

Bílrúðutrygging er valkvæð trygging.

Tilkynna skal um eigendaskipti eða ef ökutæki er afskráð eða selt.

Vátryggðum ber að fylgja varúðarreglum Varðar.

Ökumaður skal vera í líkamlegu ástandi til að geta stjórnað ökutækinu.

Eigandi og ökumaður þess skulu sjá til þess að ökutækið sé í lögmæltu ástandi.

Ökumaður skal hafa hæfni til að stjórna ökutækinu og hafa til þess tilskilin réttindi.

Hvar gildir tryggingin?

Tryggingin gildir á Íslandi og í öðrum aðildarríkjum EES. Einnig gildir tryggingin í Bretlandi og Sviss. Skilyrði er að sækja alþjóðlegt vátryggingakort fyrir ökutæki „græna kortið“.

Hverjar eru helstu skyldur þess tryggða?

Veita allar nauðsynlegar upplýsingar, hvort sem er við endurnýjun eða breytingar á tryggingunni, um sjálfan sig eða hið vátryggða ökutæki sem og um tjón sem sá tryggði eða heimilismenn hans verða fyrir.

Upplýsa um breytingar sem hafa áhrif á tryggingarverndina, svo sem ef ökutækið er selt eða afskráð.

Tilkynna tjón við fyrsta hentugleika og eigi síðar en innan árs frá tjónsatburði.

Hvenær og hvernig er greitt fyrir trygginguna?

Iðgjöld tryggingarinnar ber að greiða á gjalddaga. Við endurnýjun hækkar ársiðgjaldið í samræmi við breytingu á vísitölu frá grunnvísitölu samnings. Vörður sendir kröfur mánaðarlega í heimabanka eða árlega ef óskað er eftir því að greiða iðgjöld í einu lagi. Hægt er að breyta greiðslumáta á Mínum síðum Varðar. Þar er einnig hægt að velja að greiða iðgjöld með kreditkorti.

Hvenær hefst vátryggingarverndin og hvernig lýkur henni?

Tryggingarsamningar gilda almennt í 12 mánuði frá samþykkt tilboðs og útgáfu tryggingar og miðast iðgjöld við ársiðgjald. Sé tryggingu ekki sagt upp á því tímabili framlengist hún sjálfkrafa.

Hvernig er tryggingunni sagt upp?

Hægt er að segja tryggingunni upp hvenær sem er á tryggingatímabilinu. Segja verður tryggingunni upp með skriflegri tilkynningu til Varðar eða öðrum sannanlegum hætti. Með uppsögn skal senda staðfestingu þess efnis að stofnað hafi verið til nýrrar tryggingar hjá öðru tryggingafélagi þar sem lögboðin ábyrgðartrygging ökutækis og slystrygging ökumanns og eiganda (aðeins valkvæð á torfærutæki) eru lögboðnar tryggingar.