Ábyrgðartrygging vegna bráðamengunar

Upplýsingaskjal þetta tilgreinir einungis helstu atriði tryggingarinnar, s.s. hvað er innifalið og hvað ekki. Ekki er um að ræða tæmandi upptalningu né persónulegt yfirlit yfir tryggingar sem viðskiptavinir velja. Upplýsingaskjalið hefur ekki lagalega þýðingu og gegnir eingöngu þeim tilgangi að upplýsa viðskiptavini um helstu þætti tryggingarinnar. Tryggingayfirlit og nákvæmar upplýsingar um samningsskilmála sem gilda eru aðgengilegar á vátryggingarskírteini tryggingarinnar sem hægt er að nálgast á Mínum síðum Varðar. Skilmálar tryggingarinnar hafa að geyma tæmandi upplýsingar um vátryggingarverndina og eru hluti af samningi aðila ásamt vátryggingarskírteini. 

Hvernig trygging er  Ábyrgðartrygging vegna bráðamengunar? 

Ábyrgðartryggingin tekur til skaðabótaábyrgðar sem fellur á vátryggðan vegna bráðamengunar samkvæmt 16. gr. laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og strandar. Tryggingin er viðauki við ábyrgðartryggingu atvinnurekstrar og nær eingöngu til atvika sem falla utan gildissviðs þeirrar vátryggingar.

Tryggingin bætir

Bráðamengunartjón sem tryggingartaki veldur jafnvel þótt tjónið verði ekki rakið til saknæmrar háttsemi hans eða starfsmanna hans.

Bráðamengunartjón af völdum flutnings á olíu, eiturefnum eða hættulegum efnum eða atvinnustarfsemi sem talin er upp í viðauka I við lög nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og strandar.

Kostnað vegna ráðstafana til að takmarka eða koma í veg fyrir tjón.

Tryggingin bætir ekki

Skaðabótaábyrgð vegna tjóns á munum sem vátryggður á einn eða með öðrum eða hefur að láni, til leigu, geymslu, sölu, flutnings eða eru af öðrum ástæðum í vörslu hans.

Skaðabótaábyrgð vegna tjóns á munum sem vátryggður tekur að sér að gera við, hreinsa, setja upp eða vinna við með einum öðrum hætti, ef tjónið verður af verkinu eða við verkið.

Almennt fjártjón

Tjón sem hlýst af eldsvoða.

Tjón af völdum hryðjuverka vegna hvers konar líffræðilegra eða efnafræðilegra áhrifa og/eða eitrunar, þ.m.t. sýkla og veira.

Tjón sem ekki er skilgreint sem bráðamengun, svo sem úrbætur og tjón er leiða af langvarandi mengunarástandi.

Eru einhverjar takmarkanir eða varúðarreglur?

Vátryggðum ber að fylgja varúðarreglum Varðar.

Vátryggðum er skylt að gæta þess, að við stjórn vinnuvéla og annarra tækja séu ekki aðrir starfsmenn en þeir, sem hafa lögskilin réttindi og hæfni til að stjórna slíkum tækjum

Vátryggðir skulu vera í líkamlegu ástandi til þess að geta rækt störf sín örugglega og ekki undir áhrifum áfengis, örvandi eða deyfandi lyfja.

Áður en hafinn er gröftur í jörðu, borvinna eða sögun í húsum eða utanhúss, skulu vátryggður og starfsmenn hans kynna sér legu á leiðslum, strengjum og öðrum lögnum, þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.

Tryggingin gildir ekki um tjón sem áttu sér stað áður en vátryggingartíminn hófst, enda þótt tjónið komi ekki í ljós fyrr en á vátryggingartímanum.

Hvar gildir tryggingin?

Vátryggingin gildir á Íslandi og í mengunarlögsögu Íslands.

Hverjar eru helstu skyldur þess tryggða?

Veita allar nauðsynlegar upplýsingar, hvort sem er við endurnýjun, breytingar á tryggingunni eða við tjónstilkynningu.

Tilkynna um tjón við fyrsta hentugleika og eigi síðar en innan árs frá tjónsatburði.

Ef fram kemur á skírteini tryggingarinnar að hún gildi einungis um tiltekna notkun eða starfsemi ber vátryggðum að tilkynna félaginu um breytingu á þeirri notkun eða starfsemi.

Hvenær og hvernig er greitt fyrir trygginguna?

Iðgjöld tryggingarinnar ber að greiða á gjalddaga. Við endurnýjun hækkar ársiðgjaldið í samræmi við breytingu á vísitölu frá grunnvísitölu samnings. Vörður sendir kröfur mánaðarlega í heimabanka eða árlega ef óskað er eftir því að greiða iðgjöld í einu lagi. Hægt er að breyta greiðslumáta á Mínum síðum Varðar. Þar er einnig hægt að velja að greiða iðgjöld með kreditkorti.

Hvenær hefst vátryggingarverndin og hvernig lýkur henni?

Vátryggingarsamningar gilda almennt í 12 mánuði frá samþykktu tilboði og útgáfu tryggingar og miðast iðgjöld við ársiðgjald. Sé tryggingu ekki sagt upp á því tímabili framlengist hún sjálfkrafa.

Hvernig er tryggingunni sagt upp?

Hægt er að segja tryggingunni upp hvenær sem er á vátryggingartímabilinu.