Ábyrgðartrygging farsala og flutningsaðila

Upplýsingaskjal þetta tilgreinir einungis helstu atriði tryggingarinnar, s.s. hvað er innifalið og hvað ekki. Ekki er um að ræða tæmandi upptalningu né persónulegt yfirlit yfir tryggingar sem viðskiptavinir velja. Upplýsingaskjalið hefur ekki lagalega þýðingu og gegnir eingöngu þeim tilgangi að upplýsa viðskiptavini um helstu þætti tryggingarinnar. Tryggingayfirlit og nákvæmar upplýsingar um samningsskilmála sem gilda eru aðgengilegar á vátryggingarskírteini tryggingarinnar sem hægt er að nálgast á Mínum síðum Varðar. Skilmálar tryggingarinnar hafa að geyma tæmandi upplýsingar um vátryggingarverndina og eru hluti af samningi aðila ásamt vátryggingarskírteini. 

Hvernig trygging er Ábyrgðartrygging farsala og flutningsaðila? 

Ábyrgðartryggingunni er ætlað að tryggja fyrirtæki sem sinna farþegaflutningum með skipum fyrir skaðabótaábyrgð sem á þau kunna að falla í samræmi við ákvæði siglingalaga. 

Tryggingin bætir

Skaðabótaábyrgð sem fellur á vátryggðan vegna þess að farþegi slasast eða lætur lífið á meðan á ferð stendur.

Skaðabótaábyrgð sem fellur á vátryggðan vegna þess að farangur týnist eða skemmist á meðan á ferð stendur.

Skaðabótaábyrgð sem fellur á vátryggðan vegna tjóns sem stafar af vanrækslu í starfi hjá skipstjóra eða öðrum sem starfa í þágu skips.

Skaðabótaábyrgð sem fellur á vátryggðan sem stafar af seinkun í sambandi við flutning á farþega eða farangri.

Tryggingin bætir ekki

Tjón sem farsali eða flutningsaðili tekur á sig ef ábyrgðin er víðtækari en almenn bótaábyrgð hans sem farsala eða flutningsaðila. Sektir eða önnur viðurlög.

Tjón sem verður áður en farþegi stígur á skipsfjöl og eftir að hann stígur frá borði.

Tjón sem annar aðili en vátryggður, er annast hluta flutnings samkvæmt farsamningi, ber ábyrgð á.

Tjón á lifandi dýrum sem flutt eru sem farangur.

Eru einhverjar takmarkanir eða varúðarreglur?

Vátryggðum ber að fylgja varúðarreglum Varðar.

Vátryggðum er skylt að gæta þess að við stjórn skipa/báta og annarra tækja séu ekki aðrir starfsmenn en þeir sem hafa lögskilin réttindi og hæfni til að stjórna slíkum tækjum.

Stjórn skips og starfræksla þess að öðru leyti skal vera í samræmi við siglingareglur og aðrar skráðar eða óskráðar reglur varðandi aðbúnað og öryggi farþega.

Vátryggðir skulu vera í líkamlegu ástandi til þess að geta rækt störf sín örugglega og ekki undir áhrifum áfengis, örvandi eða deyfandi lyfja.

Hvar gildir tryggingin?

Tryggingin gildir eingöngu innan íslenskrar lögsögu.

Hverjar eru helstu skyldur þess tryggða?

Veita allar nauðsynlegar upplýsingar, hvort sem er við endurnýjun, breytingar á tryggingunni eða við tjónstilkynningu.

Tilkynna um tjón og/eða skaðabótakröfu við fyrsta hentugleika og eigi síðar en innan árs frá tjónsatburði.

Veita Verði upplýsingar og gögn sem hann hefur undir höndum eða getur útvegað sem nauðsynlegar eru til að meta ábyrgð Varðar og greiða bætur.

Hvenær og hvernig er greitt fyrir trygginguna?

Iðgjöld tryggingarinnar ber að greiða á gjalddaga. Við endurnýjun hækkar ársiðgjaldið í samræmi við breytingu á vísitölu frá grunnvísitölu samnings. Vörður sendir kröfur mánaðarlega í heimabanka eða árlega ef óskað er eftir því að greiða iðgjöld í einu lagi. Hægt er að breyta greiðslumáta á Mínum síðum Varðar. Þar er einnig hægt að velja að greiða iðgjöld með kreditkorti.

Hvenær hefst tryggingarverndin og hvernig lýkur henni?

Tryggingarsamningar gilda almennt í 12 mánuði frá samþykkt tilboðs og útgáfu tryggingar og miðast iðgjöld við ársiðgjald. Sé tryggingu ekki sagt upp á því tímabili framlengist hún sjálfkrafa.

Hvernig er tryggingunni sagt upp?

Hægt er að segja tryggingunni upp hvenær sem er á tryggingartímabilinu.