Ábyrgðartrygging vegna hests, hunds eða skotvopns

Upplýsingaskjal þetta tilgreinir einungis helstu atriði tryggingarinnar, s.s. hvað er innifalið og hvað ekki. Ekki er um að ræða tæmandi upptalningu né persónulegt yfirlit yfir tryggingar sem viðskiptavinir velja. Upplýsingaskjalið hefur ekki lagalega þýðingu og gegnir eingöngu þeim tilgangi að upplýsa viðskiptavini um helstu þætti tryggingarinnar. Tryggingayfirlit og nákvæmar upplýsingar um samningsskilmála sem gilda eru aðgengilegar á vátryggingarskírteini tryggingarinnar sem hægt er að nálgast á Mínum síðum Varðar. Skilmálar tryggingarinnar hafa að geyma tæmandi upplýsingar um vátryggingarverndina og eru hluti af samningi aðila ásamt vátryggingarskírteini. 

Hvernig trygging er Ábyrgðartrygging vegna hests, hunds eða skotvopns? 

Ábyrgðartryggingin tryggir vátryggingartaka fyrir skaðabótaábyrgð sem á hann kann að falla vegna tjóns af völdum hests, hunds eða skotvopns í hans eigu sem tilgreint er á skírteini tryggingarinnar. 

Tryggingin bætir

Skaðabótaábyrgð sem fellur á vátryggðan eða heimilisfólk hans sem eiganda hests, hunds eða skotvopns. Það er skilyrði að tilgreint sé á skírteini hvaða hund, hest eða skotvopn verið sé að tryggja.

Tryggingin bætir ekki

Tjón sem heimilisfólk vátryggðs veldur hvert öðru.

Tjón sem verður vegna atvinnu vátryggðs.

Skaðabótaábyrgð vegna skemmda á munum sem vátryggður á einn eða með öðrum.

Skaðabótaábyrgð vegna tjóns á munum sem vátryggður hefur að láni, á leigu, til geymslu, sölu, flutnings eða eru af öðrum ástæðum í vörslu hans.

Tjón sem hlýst af eldsvoða.

Frekari takmarkanir er að finna í skilmálum.

Eru einhverjar takmarkanir eða varúðarreglur?

Vátryggðum ber að fylgja varúðarreglum Varðar.

Hvar gildir tryggingin?

Vátryggingin gildir einungis á Íslandi.

Hverjar eru helstu skyldur þess tryggða?

Veita allar nauðsynlegar upplýsingar, hvort sem er við endurnýjun, breytingar á tryggingunni eða við tjónstilkynningu.

Tilkynna um tjón við fyrsta hentugleika og eigi síðar en innan árs frá tjónsatburði.

Hvenær og hvernig er greitt fyrir trygginguna?

Iðgjöld tryggingarinnar ber að greiða á gjalddaga. Við endurnýjun hækkar ársiðgjaldið í samræmi við breytingu á vísitölu frá grunnvísitölu samnings. Vörður sendir kröfur mánaðarlega í heimabanka eða árlega ef óskað er eftir því að greiða iðgjöld í einu lagi. Hægt er að breyta greiðslumáta á Mínum síðum Varðar. Þar er einnig hægt að velja að greiða iðgjöld með kreditkorti.

Hvenær hefst vátryggingarverndin og hvernig lýkur henni?

Vátryggingarsamningar gilda almennt í 12 mánuði frá samþykktu tilboði og útgáfu tryggingar og miðast iðgjöld við ársiðgjald. Sé tryggingu ekki sagt upp á því tímabili framlengist hún sjálfkrafa.

Hvernig er tryggingunni sagt upp?

Hægt er að segja tryggingunni upp hvenær sem er á vátryggingartímabilinu.