Vel þrifið reiðhjól lítur ekki aðeins betur út heldur lengir það líka líftíma þess því hrein hjól ryðga síður. Stellið
Þrífðu reiðhjólið þitt reglulega
Það borgar sig að hugsa vel um reiðhjólið sitt, þrífa það reglulega, hreinsa og smyrja keðjuna og yfirfara gíra- og bremsubúnað. Óhjákvæmilega safnast óhreinindi á hjólið þegar það er í notkun, ryk, sandur, tjara, salt og drulla. Vel þrifið reiðhjól lítur ekki aðeins betur út heldur lengir það líka líftíma þess því hrein hjól ryðga síður.
Stellið
Best er að nota vatn, sápu, bursta og svamp til að þrífa reiðhjólið. Vatnið má vera volgt og passa þarf að svampurinn sé ekki grófur svo hann rispi ekki lakkið. Fyrst skal skola hjólið vel með vatni til að hreinsa sand og annað gróft ryk á lakkinu áður en svampurinn er notaður til að nudda það. Fullkomna má svo þrifin með því að bóna stellið svo það verði gljáandi glæsilegt.
Keðjan
Gott er að nota keðjuhreinsi til að hreinsa keðjuna á hjólinu en hann losar gömlu olíuna og önnur óhreinindi fljótt og vel af. Þegar efninu hefur verið úðað á keðjuna og því leyft að standa í sirka tíu mínútur er petölunum snúið og um leið er haldið utanum keðjuna með rökum svampi. Ef óhreinindin eru mikil er þetta ferli endurtekið og stundum getur verið gagnlegt að setja nokkra dropa af uppþvottalegi á kveðjuna og nota uppþvottabursta til að skrúbba af erfiðustu óhreinindin.
Þegar keðjan er orðin hrein og þurr er næsta skrefið að smyrja hana og er best að nota þar til gerða olíu. Dropar af olíunni eru settir á keðjuna og pedölunum snúið þangað til olían hefur náð að dreifast um alla keðjuna og tannhjólin að framan og aftan. Sumir kjósa að hjóla stutta vegalengd og skipta upp og niður um gír til að dreifa olíunni á rétta staði. Ef keðjan er orðin slitin og léleg skal skipta um hana strax.
Dekkin
Auðvelt er að þrífa dekkin á reiðhjólinu með volgu vatni, sápu og uppþvottabursta. Einnig er hægt að kaupa sérstakan dekkjahreinsi fyrir meiri þrif sem veitir jafnframt betri vörn gegn sliti. Gott er að þrífa gjörðina vel með vatni, sápu og svampi og þá um leið bremsurnar. Gæta þarf þess að hreinsiefni sitji ekki eftir á bremsubúnaðinum.
Annað viðhald
Þegar reiðhjólið er þrifið er reglulega er gott að yfirfara allan búnað þess í leiðinni eins og til dæmis bremsubúnaðinn. Ef hjólið hefur V-bremsur sem klemmast utan um gjörðina þarf að skoða bremsupúðanna. Ef lítið er eftir af þeim er best að skipta um þá eins fljótt og kostur er. Ef hjólið er með diskabremsur þarf að skoða bremsuklossanna og skipta þeim út strax ef lítið er eftir af þeim. Annað sem gagnlegt er að skoða er stilling gíranna, loft í dekkjum, hæðin á hnakkinum og stýrinu og endurskinsmerki og ljós. Síðast en ekki síst þarf reiðhjólahjálmurinn að vera í topp standi.