Vörður

fréttir -

22. júl 2019

Vörður kynnir nýjung á tryggingamarkaði

Vörður kynnir nýjung á tryggingamarkað

Vörður býður fyrst allra tryggingafélaga á Íslandi nýja stafræna lausn þar sem neytendur geta líf- og sjúkdómatryggt sig á nokkrum mínútum. Þjónustan er alsjálfvirk og er hægt að ganga frá tryggingum hvar og hvenær sem á netinu, með tölvu eða snjalltæki, og verðar þær strax virkar við lok ferlisins.

Vörður hefur undanfarna mánuði unnið að því að sjálfvirknivæða áhættumat vegna líf- og sjúkdómatrygginga og er afrakstur þeirrar vinnu nú að líta dagsins ljós. Veflausnin er stafræn frá A til Ö á vef félagsins, www.vordur.is/radgjafi og gerir hún fólki kleift að fá niðurstöður úr heilsufarsspurningum um leið og þeim er svarað. Nýtt ráðgjafatól spyr spurninganna og stillir upp tryggingum sem henta fjárhagslegum skuldbindingum hvers og eins. Neytandinn fær verð í tryggingarnar beint í kjölfarið og getur svo gengi frá kaupunum með einföldum hætti, allt í sama ferlinu.

Tryggingar á örfáum mínútum

Hingað til hafa neytendur á Íslandi þurft að senda inn umsókn um líf- og sjúkdómatryggingar og bíða í framhaldinu eftir að fyrstu niðurstöður áhættumats liggi fyrir og er algengt að slík bið taki einhverja daga. Sá biðtími er nú úr sögunni hjá Verði því hann hefur verið styttur niður í nokkrar mínútur. Niðurstaða umsóknar liggur fyrir um leið og spurningum hefur verið svarað og þannig er hægt að tryggja sig með skjótum hætti. Þó geta komið upp dæmi þar sem umsókn þarf að skoða nánar en reynslan af sambærilegri lausn erlendis sýnir að meirihluti þeirra sem fara í gegnum ferlið fá niðurstöðuna strax.

Á vordur.is/radgjafi geta allir skráð sig í lausnina, svarað spurningum og séð niðurstöðurnar með einföldum hætti á svipuðum tíma og það tekur að drekka einn kaffibolla í rólegheitunum. Eina sem þarf til að auðkenna sig í umsóknarferlinu eru rafræn skilríki. Ekki er nauðsynlegt að vera viðskiptavinur Varðar því lausnin er opin öllum.

Steinunn Hlíf Sigurðardóttir er framkvæmdastjóri ráðgjafar og þjónustu hjá Verði:

„Vörður á og rekur stærsta líftryggingafélag landsins og leggur metnað sinn í að leiða þróun á þessum markaði. Markmið okkar er að fólk geti tryggt sig með sem minnstri fyrirhöfn. Þess vegna ákváðum við að nýta tæknina til að einfalda aðgengi að þessum mikilvægu tryggingum. Líf- og sjúkdómatryggingar eru mikilvægt öryggisnet ef til veikinda kemur eða sem öryggissjóður fyrir þá sem eftir standa ef við föllum frá. Hingað til hefur verið nokkur fyrirhöfn að ganga frá slíkum tryggingum en nú höfum við einfaldað það öllum til hagsbóta.“

Nánari upplýsingar veitir Steinunn Hlíf Sigurðardóttir framkvæmdastjóri í síma 894 0901.

Um Vörð Vörður tryggingar hf. er alhliða vátryggingafélag í eigu Arion banka hf. sem býður tryggingar fyrir einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki. Félagið leggur áherslu á einföld og þægileg vátryggingaviðskipti á samkeppnishæfu verði. Starfsfólk Varðar vinnur markvisst að því að efla þjónustu og fjölga valkostum í tryggingaþjónustu til viðskiptavina.