Brunavarnir

Huga ber vel að brunavörnum heimilisins. Hér getur þú lesið helstu atriði varðandi aukið öryggi í brunavörnum.

Á hverju ári kemur upp bruni á heimilum sem veldur tjóni á íbúðum og innanstokksmunum og í sumum tilvikum heilsutjóni. Við leggjum mikla áherslu á að eldvarnir heimila séu í lagi enda er ávinningur góðra eldvarna margfaldur samanborið við þann skaða sem getur hlotist af eldi og reyk. Við höfum tekið saman nokkur góð ráð sem er mikilvægt að hafa í huga:

 • Á hverju heimili skal vera a.m.k. 1 slökkvitæki og 1 reykskynjari. Við mælum með að reykskynjarar séu í sem flestum rýmum húsnæðis. Þá er góð regla að vera með slökkvitæki í bílskúrnum líka. Fáið ráðgjöf hjá sérfræðingum um hvaða skynjarar henta ykkar heimili.

 • Setjið ykkur aldrei í hættu við að slökkva eld. Ef eldurinn er orðinn mikill skal leggja áherslu á að koma fólki út og loka rýminu ef hægt er til að hægja á útbreiðslu hans. Hringið strax á 112.

 • Líftími reykskynjara eru um 10 ár og ef hann er að pípa þá er líklega kominn tími á að skipta um rafhlöðu.

 • Hafið eldvarnateppi í eldhúsi og gasskynjara ef þið eruð með gaseldavél. Aldrei skal skvetta vatni á eld sem á upptök í feiti eða olíu. Það veldur sprengingu.

 • Æskilegast er að geyma gas í vel loftræstum rýmum, helst úti í sér skáp.

 • Fáið leiðsögn fagmanns við uppsetningu á hleðslustöð fyrir rafmagnsbíl.

 • Í fjölbýli á að vera reykskynjari á hverri hæð í stigagangi. Notið ekki lyftur ef eldur kemur upp.

 • Slökkvum á öllum raftækjum. Göngum vel frá sléttujárni, straujárni, eldavél og öðrum raftækjum.

 • Gerið viðbragðsáætlun ef eld ber að garði. Hvernig skal bregðast við og hverjar eru flóttaleiðirnar.

Reykskynjarar

Reykskynjarar eru ódýr öryggistæki. Skerandi vælið í þeim getur bjargað mannslífum. Hafið eftirfarandi í huga um reykskynjara:

 • Ekki staðsetja reykskynjara í eða of nálægt eldhúsi.

 • Æskilegt er að setja reykskynjara í öll svefnherbergi.

 • Best er að samtengja alla reykskynjara í húsinu.

 • Sé húsið fleiri en ein hæð, setjið reykskynjara á allar hæðir.

 • Reykskynjara ber að staðsetja í lofti, ekki nær vegg en 50 sentímetra.

 • Skiptið um rafhlöðu í reykskynjaranum árlega t.d. 1. desember.

Prófið reykskynjarann mánaðarlega með því að ýta á prófunarhnappinn.

Eldvarnir eru dauðans alvara

Eldvarnabandalagið hefur gefið út handbók um eldvarnir heimilisins. Í henni er mælt með því að hafa reykskynjara í öllum rýmum, slökkvitæki við helstu flóttaleið og eldvarnateppi á sýnilegum stað í eldhúsi. Þá er brýnt að allir hafi að minnsta kosti tvær flóttaleiðir úr íbúðinni. Eldvarnabandalagið var stofnað sumarið 2010 sem samstarfsvettvangur um auknar eldvarnir og er Vörður aðili að bandalaginu.

Allt um reykskynjara

Reykskynjarinn er ódýrt og öflugt öryggistæki sem getur komið í veg fyrir eldsvoða ef hann er notaður rétt. Hér finnur þú allt það sem þú þarft að vita um reykskynjar.

Skoða nánar