Jafnréttisstefna

Jafnréttisstefnu Varðar er ætlað að tryggja þau réttindi sem fram koma í 19.-22. grein laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Með jafnréttisstefnu vill félagið fara að lögum og sjá til þess að fyllsta jafnréttis sé gætt.

Starfsmenn verði metnir á eigin forsendum og konur og karlar eigi í reynd jafna möguleika til starfa, starfsþróunar og fái jöfn laun ef um er að ræða sömu eða jafn verðmæt störf. Þannig verði tryggt að mannauður félagsins nýtist sem best, starfsánægja og tryggð verði meiri en það skilar sér í betri þjónustu og ánægðari viðskiptavinum.

Markmið stefnunnar er að tryggja jöfn tækifæri starfsmanna og er hún jafnframt leiðarljós um starfshætti sem stuðla að jafnrétti. Þá er það einnig markmiðið að útrýma kynbundinni mismunun, sé hún til staðar. Virk jafnréttisstefna stuðlar að betri nýtingu á hæfileikum og þekkingu starfsfólks.

  1. Kjaramál Konur og karlar njóti sömu launakjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Launamunur skal einungis endurspegla mismunandi ábyrgð vinnuframlag, eðli starfa, menntun, frammistöðu og hæfni.

  2. Ráðningar og störf Við nýráðningar og tilfærslur í starfi skal unnið að jafnri kynjaskiptingu innan sviða og í hinum ýmsu störfum innan sviða.

  3. Starfsþjálfun og endurmenntun Konur og karlar njóti sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar og starfsþjálfunar.

  4. Þátttaka í nefndum Við skipun í nefndir og starfshópa ræður fagþekking mestu um val einstaklinga, en stefnt skal að jöfnum hlut kvenna og karla þar sem því verður við komið.

  5. Starfsandi og líðan starfsmanna Lögð er áhersla á að starfsmönnum líði vel, aðbúnaður sé góður, fyrirtækjamenningin sé jákvæð og hvetjandi og að það sé gott að koma til vinnu. Unnið sé markvisst að heilsuvernd og heilsueflingu starfsmanna. Þá er lögð rík áhersla á að starfsmenn taki þátt í hvers konar umbótum í starfsemi félagsins.

  6. Samræming vinnu og einkalífs Lögð er áhersla á að koma til móts við starfsmenn varðandi sveigjanlegan vinnutíma þar sem því verður við komið. Tekið er tillit til kvenna á meðgöngutíma, foreldra við umönnun ungbarna og erfiðra fjölskylduaðstæðna.

  7. Kynferðisleg áreitni og einelti Einelti, kynferðisleg áreitni eða ofbeldi verður ekki liðið innan fyrirtækisins. Viðbragðsáætlun og boðleiðir vegna slíkra mála verði öllum sýnilegar og aðgengilegar.

  8. Framkvæmd og eftirfylgni Hjá Verði er starfandi jafnréttisnefnd. Í henni eiga sæti mannauðsstjóri, einn fulltrúi starfsmanna skipaður af starfsmannafélaginu og annar skipaður af forstjóra og heyrir nefndin undir hann. Nefndin er skipuð til tveggja ára í senn.

Jafnréttisnefnd skal fylgjast með að farið sé eftir lögum um jafnréttismál hjá Verði, kanna réttmæti ábendinga um að frá þeim sé vikið og bregðast við með viðeigandi hætti. Nefndin skal gæta þess að upplýsingar um jafnréttismál fyrirtækisins og störf nefndarinnar séu aðgengilegar á innraneti Varðar. Jafnréttisnefnd skal einnig sjá til þess að allir nýráðnir starfsmenn Varðar fái kynningu á jafnréttisstefnu félagsins og störfum nefndarinnar. Jafnréttisnefndin skal einnig sjá til þessa að árleg kynning fari fram á jafnréttisstefnu félagsins.

Nefndin kemur saman tvisvar á ári og oftar ef þörf þykir. Nefndin skal árlega skrifa samantekt um störf sín.