Sjúkra- og slysatrygging

Upplýsingaskjal þetta tilgreinir einungis helstu atriði tryggingarinnar, s.s. hvað er innifalið og hvað ekki. Ekki er um að ræða tæmandi upptalningu né persónulegt yfirlit yfir tryggingar sem viðskiptavinir velja. Upplýsingaskjalið hefur ekki lagalega þýðingu og gegnir eingöngu þeim tilgangi að upplýsa viðskiptavini um helstu þætti tryggingarinnar. Tryggingayfirlit og nákvæmar upplýsingar um samningsskilmála sem gilda eru aðgengilegar á vátryggingarskírteini tryggingarinnar sem hægt er að nálgast á Mínum síðum Varðar. Skilmálar tryggingarinnar hafa að geyma tæmandi upplýsingar um vátryggingarverndina og eru hluti af samningi aðila ásamt vátryggingarskírteini. 

Hvernig trygging er Sjúkra- og slysatrygging?

Sjúkra- og slysatrygging er fjárhagsleg vernd fyrir vátryggðan ef hann býr við varanlegra örorku í kjölfar slyss eða sjúkdóms. Einnig er hægt að kaupa vernd fyrir tímabundinni örorku vegna slysa eða sjúkdóma og dánarbætur vegna slyss. Ef vátryggður stundar séráhættu eins og köfun eða fallhlífastökk er hægt að kaupa sérstaka vernd sem tekur til þessara þátta. 

Tryggingin bætir
Sjúkratrygging

Tímabundinn missi starfsorku vegna sjúkdóms ef starfsorkumissir er 50% eða meiri.

Varanlega læknisfræðilega örorku vegna sjúkdóms, ef örorka er 25% eða hærri.

Slysatrygging

Tímabundinn missi starfsorku vegna slyss, ef starfsorkumissir er 50% eða meiri.

Varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss.

Dánarbætur vegna slyss.

Tannbrot sem rekja má til slyss.

Tryggingin bætir ekki
Sjúkratrygging

Starfsorkumissi sem kona verður fyrir á meðgöngutíma, við fæðingu eða fósturlát, nema því aðeins að missir starfsorkunnar sé af völdum fylgikvilla. Í slíkum tilfellum er biðtími eigi skemmri en einn mánuður.

Sjúkdóm sem fyrst hafði sýnt einkenni, áður en vátryggingin gekk í gildi, nema að félagið hafi vitað um sjúkdóminn við gildistökuna og veitt vátrygginguna þrátt fyrir það.

Slysatrygging

Tannbrot sem verður þegar vátryggður matast.

Slys sem verða við keppni eða við æfingar til undirbúnings fyrir keppni.

Slys er verða við að klífa fjall, í bjargsigi, hnefaleikum, hvers konar glímu- og bardagaíþróttum, akstursíþróttum, drekaflugi, fallhlífarstökki, froskköfun og teygjustökki.

Slys sem verða í hvers kyns flugi, nema vátryggður sé farþegi í áætlunar- eða leiguflugi á vegum aðila sem hefur tilskilin leyfi hlutaðeigandi flugmálayfirvalda.

Tjón sem stafa af brjósklosi, þursabiti (lumago ischias), slitgigt eða hvers kyns öðrum gigtarsjúkdómum.

Slys sem beint eða óbeint orsakast af blindu, mikilli nær- eða fjarsýni, sjóndepru, heyrnardeyfð, lömun, bæklun, flogaveiki, slagi, sykursýki eða öðrum alvarlegum sjúkdómum og/eða sjúkdómseinkennum.

Eru einhverjar takmarkanir eða varúðarreglur?

Ef tjón verður rakið til ásetnings vátryggðs fellur bótaábyrgð Varðar niður. Tjón af völdum stórkostlegs gáleysis getur leitt til takmörkunar eða brottfalls bótaábyrgðar félagsins.

Vátryggðum ber að fylgja varúðarreglum Varðar.

Vátryggðum ber að kynna sér skilmála tryggingarinnar.

Hvar gildir tryggingin?

Vátryggingin gildir á Íslandi. Annars staðar í heiminum gildir hún í allt að sex mánuði frá brottfarardegi frá Íslandi, nema um annað sé samið og slíkt áritað á skírteini.

Hverjar eru helstu skyldur þess tryggða?

Svara öllum spurningum Varðar vegna áhættumats rétt og af heiðarleika.

Veita allar nauðsynlegar upplýsingar, hvort sem er við endurnýjun, breytingar á tryggingunni eða við tjónstilkynningu.

Tilkynna um tjón við fyrsta hentugleika og eigi síðar en innan árs frá tjónsatburði.

Reyna að afstýra tjóni eða lágmarka það. Vátryggðum ber að hlíta fyrirmælum félagins sem beinast að því að takmarka tjónið.

Breyting á starfi vátryggingataka/vátryggðs skal tilkynna félaginu án tafar.

Hvenær og hvernig er greitt fyrir trygginguna?

Iðgjöld tryggingarinnar ber að greiða á gjalddaga. Við endurnýjun hækkar ársiðgjaldið í samræmi við breytingu á vísitölu frá grunnvísitölu samnings. Vörður sendir kröfur mánaðarlega í heimabanka eða árlega ef óskað er eftir því að greiða iðgjöld í einu lagi. Hægt er að breyta greiðslumáta á Mínum síðum Varðar. Þar er einnig hægt að velja að greiða iðgjöld með kreditkorti.

Hvenær hefst tryggingarverndin og hvernig lýkur henni?

Tryggingarsamningar gilda almennt í 12 mánuði frá samþykkt tilboðs og útgáfu tryggingar og miðast iðgjöld við ársiðgjald. Sé tryggingu ekki sagt upp á því tímabili framlengist hún sjálfkrafa.

Hvernig er tryggingunni sagt upp?

Viðskiptavinir geta sagt tryggingunni skriflega upp hvenær sem er á vátryggingartímabilinu. Iðgjald skal greitt fyrir það tímabil sem félagið er í ábyrgð samkvæmt vátryggingunni.