Öryggisbúnaður við hjólreiðar

Þegar lagt er upp í hjólaferð er markmiðið ávallt að koma heil heim úr hverri ferð og þess vegna er mikilvægt að huga vel að öryggisbúnaði reiðhjóla.

Hjólreiðum fylgja margir góðir kostir og eru þær bæði heilsubætandi og hagkvæmar. Hjólreiðar eru líka einn skemmtilegasti, vistvænasti og öruggasti ferðamáti sem hugsast getur. Þegar lagt er upp í hjólaferð er markmiðið ávallt að koma heil heim úr hverri ferð og þess vegna er mikilvægt að huga vel að öryggisbúnaði reiðhjóla.

Skyldubúnaður reiðhjóla þegar hjólað er í umferð:

  • Bremsur í lagi á fram- og afturhjóli.

  • Bjalla - ekki má nota annan hljóðmerkjabúnað.

  • Ljós að framan - hvítt eða gult (ef hjólað er í myrkri eða skertu skyggni).

  • Rautt ljós að aftan (ef hjólað er í myrkri eða skertu skyggni).

  • Þrístrend glitaugu - rauð að aftan og hvít að framan.

  • Keðjuhlíf - til varnar því að fatnaður festist í keðjunni.

  • Teinaglit í teinum.

  • Glitaugu á fótstigum.

Sýnileiki

Sýnileiki skiptir öllu máli í umferðinni, að hjólandi vegfarandi sé sem mest í sjónsviði annarra vegfarenda. Endurskin þarf að vera á reiðhjólum, bæði að framan og aftan, á fótstigum og í teinum. Mikilvægt er að vera með öflug og góð ljós, hvítt að framan og rautt að aftan. Hér á landi er skylt að vera með ljós á hjólinu þegar skyggja tekur og gæta þarf þess að þau séu rétt stillt. Þá er mælt með því að reiðhjólafólk sé í endurskinsvesti eða í fötum í áberandi litum til að auka sýnileika sinn, og ekki má gleyma bjöllunni svo hægt sé að vara aðra vegfarendur við.

Bremsur og annar búnaður

Bremsur á reiðhjólum eru einn mikilvægasti öryggisbúnaður þeirra og því skiptir miklu máli að ástand þeirra sé skoðað reglulega og sé í lagi. Ef hjól hefur V-bremsur sem klemmast utan um gjörðina þarf að skoða bremsupúðanna. Ef lítið er eftir af þeim er best að skipta um þá eins fljótt og kostur er. Ef hjól er með diskabremsur þarf að skoða bremsuklossanna og skipta þeim út strax ef lítið er eftir af þeim. Annað sem gagnlegt er að skoða er slit í keðju og legum, stilling gíra, loft í dekkjum og dekkin sjálf sem þurfa að vera í lagi. Þá er gagnlegt að nota keðjuhlíf til varnar því að fatnaður festist í keðjunni og lás til að hjólinu verði ekki stolið.

Hjálmar

Samkvæmt lögum er börnum yngri en 16 ára skylt að nota hlífðarhjálm við hjólreiðar en mælst er til þess að allt reiðhjólafólk noti hjálm enda mikilvægur öryggisbúnaður. Hjálmurinn verður að sitja rétt á höfðinu og það þétt að hann hvorki detti af né skekkist þegar á reynir. Böndin á hjálminum þurfa að vera rétt stillt þannig að eyrað lendi í miðju V-forminu sem böndin mynd. Hvorki má líma merki á hjálminn eða mála hann því þá getur höggþolið minnkað og hann á ekki að nota í leiktækjum. Ef þrífa þarf hjálminn má gera það með vatni og sápu en alls ekki með uppleysandi efnum eins og þynni eða bensíni. Þá skal hjálmurinn vera CE-merktur. Framleiðendum reiðhjólahjálma ber að tilgreina endingu hjálms í notendaleiðbeiningum og kemur framleiðsludagur fram á límmiða innan í hjálminum. Oft er miðað við fimm ár frá framleiðsludegi en þrjú ár frá söludegi.

Áfengi og símanotkun

Áfengi og hjólreiðar eiga alls enga samleið enda bannað með lögum. Sömu sögu er að segja með símanotkun á hjóli, hún er líka bönnuð samkvæmt lögum og því ber að stöðva hjólið áður en síminn er notaður.

Tryggðu hjólið í fáeinum skrefum

Það tekur þig aðeins 2 mínútur að tryggja hjólið þitt. Þú skráir þig inn með rafrænum skilríkjum, slærð inn upplýsingar um hjólið og þann búnað sem þú villt tryggja og sérð þá hvað tryggingin kostar á mánuði.