Áhættumat persónutrygginga

Hér eru upplýsingar um áhættumat persónutrygginga.

Við umsókn á líf- og heilsutryggingum þarf umsækjandi að fylla út beiðni þar sem hann svarar spurningum er varða heilsufar hans fyrr og nú, fjölskyldusögu, atvinnu og séráhættu.

Beiðnin fer að því loknu í áhættumat hjá félaginu. Mikilvægt er að umsækjandi greini rétt frá við útfyllingu vátryggingarbeiðninnar, þar sem rangar eða ófullnægjandi upplýsingar geta haft áhrif á bótarétt komi til tjóns. Við áhættumat gilda ákveðnar verklagsreglur og byggja þær á ítarlegu áhættumatskerfi sem endurtryggjendur félagsins setja fram. Matskerfi þetta tekur sífelldum breytingum eftir því sem rannsóknum á heilbrigðissviði og þekkingu á séráhættu fleygir fram.

Heilsufar umsækjanda, séráhætta og fjölskyldusaga geta haft áhrif á mat félagsins, leitt til hækkunar á iðgjaldi, sérskilmála á tryggingu eða jafnvel synjunar á vátryggingarbeiðni.

Hér að neðan má sjá til viðmiðunar þær reglur sem áhættumat er unnið eftir. Athygli er vakin á því að listinn er ekki tæmandi.

Reykingar: Grunniðgjald líf- og sjúkdómatrygginga tekur mið af því hvort umsækjandi reykir eða ekki. Reykingar hækka iðgjaldið. Hafi umsækjandi sögu um reykingar en verið reyklaus í fulla 12 mánuði miðast grunniðgjald við reykleysi.

Þyngd: Ef þyngd umsækjanda er utan viðmiðunarmarka BMI-líkamsþyngdarstuðuls getur það leitt til hækkunar á iðgjaldi eða synjunar á tryggingu.

Hækkaður blóðþrýstingur: Getur leitt til hækkunar á iðgjaldi eða höfnunar.

Hækkun á kólesteróli: Getur leitt til hækkunar á iðgjaldi eða höfnunar.

Sykursýki: Leiðir almennt til synjunar á tryggingarbeiðni.

Geðsjúkdómar t.d. kvíði, þunglyndi, ADHD: Geta leitt til hækkunar á iðgjaldi, synjunar á tryggingu eða frestunar á tryggingartöku.

Ógreindir sjúkdómar, einkenni: Leiðir til frestunar fram yfir greiningu.

Áfengis- og vímuefnavandi: Getur leitt til hækkunar á iðgjaldi eða synjunar á tryggingu. Séu innan við 4 ár frá því umsækjandi fór í meðferð vegna áfengisvandamáls eða 8 ár vímuefnavandamáls er umsókn frestað fram yfir þann tíma.

Fyrirhuguð aðgerð/rannsókn: Leiðir til frestunar fram yfir aðgerð/rannsókn.

Fjölskyldusaga: Getur leitt til hækkunar á iðgjaldi, sérskilmála á tryggingu eða jafnvel synjunar á tryggingu. Dæmi um slíka sjúkdóma eru t.d. hjarta- og æðasjúkdómar, krabbamein, taugasjúkdómar, sykursýki, nýrnasjúkdómar, heilaáfall.

Séráhætta: Öll séráhætta getur haft í för með sér hækkun á iðgjaldi eða sérskilmála á tryggingu. Til séráhættu teljast t.d. klifur, akstursíþróttir, köfun, svifflug, fallhlífarstökk, kajaksiglingar og fleira.

Fyrirvari

Þær almennu viðmiðunarreglur sem nefndar eru hér að ofan eru til upplýsingar og þ.a.l. ekki tæmandi. Reglur endurtryggjenda á hverjum tíma eru ekki aðgengilegar umsækjendum.

Iðgjaldafrelsi

Ef umsækjandi hefur sögu um sjúkdóma/vandamál, sem geta orðið til þess að til óvinnufærni kemur, á hann ekki kost á að sækja um iðgjaldafrelsi hjá félaginu. Nánari upplýsingar um iðgjaldafrelsi eru í skilmálum félagsins.