Áhættumat persónutrygginga

Hér eru upplýsingar um áhættumat persónutrygginga.

Við umsókn á líf- og heilsutryggingum þarf umsækjandi að fylla út beiðni þar sem hann svarar spurningum er varða heilsufar hans fyrr og nú, fjölskyldusögu, atvinnu og séráhættu.

Beiðnin fer að því loknu í áhættumat hjá félaginu. Mikilvægt er að umsækjandi greini rétt frá við útfyllingu vátryggingarbeiðninnar, þar sem rangar eða ófullnægjandi upplýsingar geta haft áhrif á bótarétt komi til tjóns. Við áhættumat gilda ákveðnar verklagsreglur og byggja þær á ítarlegu áhættumatskerfi sem endurtryggjendur félagsins setja fram. Matskerfi þetta tekur sífelldum breytingum eftir því sem rannsóknum á heilbrigðissviði og þekkingu á séráhættu fleygir fram.

Heilsufar umsækjanda, séráhætta og fjölskyldusaga geta haft áhrif á mat félagsins, leitt til hækkunar á iðgjaldi, sérskilmála á tryggingu eða jafnvel synjunar á vátryggingarbeiðni.

Hér að neðan má sjá til viðmiðunar þær reglur sem áhættumat er unnið eftir. Athygli er vakin á því að listinn er ekki tæmandi.

Reykingar: Grunniðgjald líf- og sjúkdómatrygginga tekur mið af því hvort umsækjandi reykir eða ekki. Reykingar hækka iðgjaldið. Hafi umsækjandi sögu um reykingar en verið reyklaus í fulla 12 mánuði miðast grunniðgjald við reykleysi.

Þyngd: Ef þyngd umsækjanda er utan viðmiðunarmarka BMI-líkamsþyngdarstuðuls getur það leitt til hækkunar á iðgjaldi eða synjunar á tryggingu.

Hækkaður blóðþrýstingur: Getur leitt til hækkunar á iðgjaldi eða höfnunar.

Hækkun á kólesteróli: Getur leitt til hækkunar á iðgjaldi eða höfnunar.

Sykursýki: Leiðir almennt til synjunar á tryggingarbeiðni.

Geðsjúkdómar t.d. kvíði, þunglyndi, ADHD: Geta leitt til hækkunar á iðgjaldi, synjunar á tryggingu eða frestunar á tryggingartöku.

Ógreindir sjúkdómar, einkenni: Leiðir til frestunar fram yfir greiningu.

Áfengis- og vímuefnavandi: Getur leitt til hækkunar á iðgjaldi eða synjunar á tryggingu. Séu innan við 4 ár frá því umsækjandi fór í meðferð vegna áfengisvandamáls eða 8 ár vímuefnavandamáls er umsókn frestað fram yfir þann tíma.

Fyrirhuguð aðgerð/rannsókn: Leiðir til frestunar fram yfir aðgerð/rannsókn.

Fjölskyldusaga: Getur leitt til hækkunar á iðgjaldi, sérskilmála á tryggingu eða jafnvel synjunar á tryggingu. Dæmi um slíka sjúkdóma eru t.d. hjarta- og æðasjúkdómar, krabbamein, taugasjúkdómar, sykursýki, nýrnasjúkdómar, heilaáfall.

Séráhætta: Öll séráhætta getur haft í för með sér hækkun á iðgjaldi eða sérskilmála á tryggingu. Til séráhættu teljast t.d. klifur, akstursíþróttir, köfun, svifflug, fallhlífarstökk, kajaksiglingar og fleira.

Trúnaðarlæknir: Trúnaðarlæknir félagsins er Hjalti Guðmundsson, hjartasérfræðingur

Fyrirvari

Þær almennu viðmiðunarreglur sem nefndar eru hér að ofan eru til upplýsingar og þ.a.l. ekki tæmandi. Reglur endurtryggjenda á hverjum tíma eru ekki aðgengilegar umsækjendum.

Iðgjaldafrelsi

Ef umsækjandi hefur sögu um sjúkdóma/vandamál, sem geta orðið til þess að til óvinnufærni kemur, á hann ekki kost á að sækja um iðgjaldafrelsi hjá félaginu. Nánari upplýsingar um iðgjaldafrelsi eru í skilmálum félagsins.