Heilsusamleg hreyfing

Hreyfing hefur mikil og góð áhrif á líkamlega og andlega heilsu okkar. Flestöll finnum við hvað það gerir okkur gott að fara út og hreyfa okkur, og með hækkandi sól eykst löngunin til að hreyfa sig úti.

Sífellt fleiri kjósa að nota reiðhjól enda heilsusamlegur, umhverfisvænn og hagkvæmur samgöngumáti. Margir nota reiðhjól sér til skemmtunar og sumir til íþróttaiðkunar. Hjólreiðar henta líka öllum, stórum sem smáum og eru sérlega fjölskylduvænar. Það besta við hjólreiðar er að þær gera samfélagið okkar rólegra, fallegra og skemmtilegra.

Heilsusamleg hreyfing Reglubundin hreyfing er fjárfesting í heilsu og það er aldrei of seint að byrja. Á reiðhjóli er álag minna á fætur en þegar verið er að hlaupa eða skokka og eru hjólreiðar því ákjósanlegri kostur fyrir þá sem þjást af stoðkerfisverkjum. Hjólreiðar spyrna líka við hreyfingaleysi og ef þær eru stundaðar reglulega lækka þær tíðni vöðva- og liðamótasjúkdóma, krabbameins, kransæðasjúkdóma, sykursýki og þunglyndis, og lengir þannig lífið um mörg ár. Hjólreiðar draga því úr kostnaði heilbrigðiskerfisins.

Sparnaður fyrir samfélagið Reiðhjól sem samgöngutæki, til að komast á milli staða, getur sparað verulegar fjárhæðir í samanburði við aðra samgöngumáta eins og t.d. einkabílinn. Almenn reiðhjólanotkun er líka sparnaður fyrir samfélagið allt. Ef ökutækjum fækkar á götum borgarinnar minnkar þörfin fyrir stór umferðamannvirki og bílastæði. Færri ökutæki þýðir líka sparnað í rekstri og viðhaldi gatnakerfisins auk þess sem það myndi draga úr loftmengun, svifryki og öðru því sem hefur neikvæð áhrif á heilsu almennings.

Fjölbreyttar hjólaleiðir í boði Hjólreiðafólk getur valið sér fjölbreyttar leiðir til að hjóla. Gangstéttir og stígar henta víða vel, sérstaklega meðfram stofnbrautum og tengibrautum. Hjólreiðafólk getur auðveldlega hjólað á götum og það er oftast greiðasta og öruggasta leiðin. Ekki er þó mælt með því að hjólað sé á akbrautum með mikilli og hraðri umferð. Það er t.d. þægilegt að hjóla á götum með lágum umferðarhraða og henta þær öllum sem lært hafa umferðarreglurnar og kunna að haga sér í umferðinni.

Öryggi skiptir máli Hjólandi vegfarendur þurfa að vera vel sýnilegir og það borgar sig að vera sem mest í sjónsviði annarra vegfarenda. Mikilvægt er að vera með öflug og góð ljós, hvítt að framan og rautt að aftan. Skylt er að vera með ljós þegar skyggja tekur og gæta þarf þess að þau séu rétt stillt. Endurskin á að vera á hjólinu, bæði að framan og aftan, á fótstigum og í teinum. Einnig eiga reiðhjól að vera með bjöllu svo hægt sé að vara aðra við þegar hjólað er framhjá. Endurskinsvesti eða föt í áberandi litum auka sýnileika og því er mælt með þeim. Þá er góður hjálmur einn mikilvægasti öryggisbúnaður hjólreiðafólks.

Nokkrar hjólastaðreyndir:

  • Hjólreiðar eru heilsusamlegar og þær draga úr kostnaði samfélagsins.

  • Reiðhjólið er umhverfisvænt, það mengar ekki og veldur ekki hávaða.

  • Hjólreiðar eru fjölskylduvænar enda geta allir stundað þær.

  • Á reiðhjóli erum við laus við umferðaröngþveiti.

  • Á reiðhjóli njótum við útiveru og náttúrunnar.

  • Reiðhjólið er hagkvæmur samgöngumáti.

Vörður vill stuðla að hollri hreyfingu og heilbrigðu líferni enda er góð næring og dagleg hreyfing nauðsynleg undirstaða heilbrigðis lífs. Regluleg hreyfing hefur margþættan ávinning fyrir heilsuna, hún minnkar líkur á sjúkdómum, eykur lífsgæði og lengir líf okkar. Að hreyfa sig er samfélagsleg ábyrgð í verki og með þátttöku styðja viðskiptavinir og Vörður saman við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer þrjú um heilsu og vellíðan.

Tryggðu hjólið í fáeinum skrefum

Það tekur þig aðeins 2 mínútur að tryggja hjólið þitt. Þú skráir þig inn með rafrænum skilríkjum, slærð inn upplýsingar um hjólið og þann búnað sem þú villt tryggja og sérð þá hvað tryggingin kostar á mánuði.