10. apríl 2020
Þar sem verulega hefur hægst á efnahagslífinu og samfélaginu öllu vegna kórónuveirufaraldursins hefur Vörður ráðist í aðgerðir sem er ætlað að styðja við viðskiptavini í viðbrögðum við faraldrinum.
Ein birtingarmynd ástandsins í samfélaginu eru færri tjón í helstu flokkum vátrygginga sem stafar m.a. af samkomubanni. Þess vegna hefur skapast svigrúm til aðgerða og viljum við létta undir með viðskiptavinum okkar. Einnig er mikilvægt á tímum sem þessum að fólk hugi vel að persónutryggingum sínum og því viljum við styðja við bakið á þeim viðskiptavinum með sama hætti.
Viðskiptavinir Varðar, einstaklingar og fjölskyldur, fá því þriðjungs lækkun af iðgjöldum trygginga í maí. Við teljum mikilvægt að lækkunin nái til allra trygginga, ekki eingöngu ökutrygginga, og nær hún því yfir allar tryggingar heimilisins, s.s. ökutækja-, fasteigna-, innbús- og persónutryggingar. Lækkunin er í formi endurgreiðslu ef við á, en nánar er hægt að lesa um hana í spurt og svarað hér að neðan.
Endurgreiðslan nær ekki til atvinnurekstrar enda býður Vörður nú þegar önnur tímabundin og sérsniðin úrræði fyrir fyrirtæki.
Vörður aðstoðar einnig viðskiptavini sem standa frammi fyrir erfiðleikum vegna faraldursins með því að bjóða einstaklingum og fyrirtækjum í greiðsluvanda tímabundið svigrúm til að standa við skuldbindingar sínar og aðra aðstoð sem aðstæður kalla á. Við hvetjum viðskiptavini sem óska eftir slíku úrræði að hafa samband við okkur á netspjalli, tölvupósti eða með símtali.
Sjá nánar um aðgerðirnar hér.
Vörður tryggingar
10. apríl 2020