Vörður

fréttir -

11. apr 2019

Vörður fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum

Vörður hefur fengið viðurkenningu frá Rannsóknarmiðstöð um stjórnhætti sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins, Nasdaq OMX Iceland og Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands standa að baki viðurkenningunni. Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar, og Hrefna Kristín Jónsdóttir , yfirlögfræðingur Varðar, tóku á móti viðurkenningunni fyrir hönd félagsins á ráðstefnu um góða stjórnarhætti sem haldin var í hátíðarsal Háskóla Íslands 11. apríl síðastliðinn. Viðurkenningin byggir á úttekt á stjórnarháttum Varðar sem tekur mið af leiðbeiningum um góða stjórnarhætti, gefnum út af Viðskiptaráði Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Nasdaq Iceland. Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands er umsjónaraðili viðurkenningarferlisins. Viðurkenningin er fyrst og fremst veitt til þess að ýta undir umræður og aðgerðir sem efla góða stjórnarhætti. Markvisst unnið að úrbótum Í ávarpi Guðmundar Jóhanns á ráðstefnunni kom fram að Vörður vinni stöðugt og markvisst að bættum stjórnarháttum. „Aukin vitund góðra stjórnarhátta eykur fagleg vinnubrögð stjórnar, stuðlar að skýrari verkaskiptingu og betri ákvarðanatöku. Þekking á góðum stjórnarháttum skilar okkur betri og faglegri stjórnarmönnum og stuðlar að því að félagið sé rekið á faglegum forsendum. Að Vörður sé fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum eykur traust og tiltrú almennings á félaginu,“ sagði Guðmundur Jóhann Jónsson forstjóri Varðar. Ráðstefna Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti er haldin árlega í samvinnu við hagsmunaaðila. Tilgangur hennar er að vekja athygli á mikilvægi góðra stjórnarhátta, alþjóðlegum straumum og stefnum í stjórnarháttum og vinnu íslenskra stjórnarmanna við að efla stjórnarhætti. Þema ráðstefnunnar að þessi sinni var Hæfni og hæfi stjórnarmanna.