tilkynning

Fyrirtæki ársins 2020

14. maí 2020

Vörður er Fyrirtæki ársins 2020

Samkvæmt árlegri vinnumarkaðskönnun VR sem kynnt var 14. maí er Vörður Fyrirtæki ársins 2020. Vörður fær viðurkenninguna ásamt fjórum öðrum fyrirtækjum í flokki stórra fyrirtækja.

Fyrirtækin voru valin samkvæmt niðurstöðum viðamikillar könnunar á meðal þúsunda starfsfólks hjá fjölbreyttum hópi fyrirtækja á almennum vinnumarkaði. VR hefur staðið fyrir könnuninni í tvo áratugi en markmið hennar er að gefa starfsfólki tækifæri til að koma viðhorfum sínum varðandi vinnustaðinn á framfæri. Könnunin er einnig vettvangur starfsfólks til að koma því á framfæri hvað vel er gert og hvað betur mætti fara innan vinnustaða. Horft er til níu lykilþátta í starfsumhverfi fyrirtækja, m.a. til starfsanda, jafnréttis, vinnuaðstöðu og sveigjanleika í vinnu svo eitthvað sé nefnt.

Harpa Víðisdóttir, mannauðsstjóri Varðar, er að vonum ánægð með niðurstöðuna. Hún segir að markvisst hafi verið unnið að því að gera starfsumhverfi Varðar nútímalegt og skapa umgjörð fyrir framsækna hugsun, sveigjanleika, árangur og starfsánægju. Vörður sé með metnaðarfulla mannauðsstefnu sem stöðugt sé verið að styrkja og bæta.

Við erum mjög þakklát fyrir þessa viðurkenningu en hún er bæði staðfesting á því að við erum á réttri leið og hvatning til að halda áfram og gera enn betur, segir Harpa

Vinnumarkaðskönnun VR hefur ávallt verið kynnt við hátíðlega athöfn að viðstöddum forsvarsmönnum fyrirtækja en að þessu sinni var það ekki gert í ljósi aðstæðna í samfélaginu. „Hér innandyra fögnum við þessum sigri innilega og gleðjumst yfir áfanganum með okkar fólki,“ segir Harpa að lokum.

Nánari upplýsingar um heildareinkunn og einkunnir lykilþátta má sjá hér.

author

Guðjón Ólafsson

14. maí 2020

Deila Frétt