Vörður

fréttir -

13. feb 2020

Óveður framundan

Rauðar og appelsínugular veðurviðvaranir hafa verið gefnar út í öllum landshlutum fyrir föstudaginn 14. febrúar. Sér­lega djúp lægð geng­ur yfir landið og mun hún fyrst hafa áhrif á sunn­an­verðu land­inu aðfaranótt föstu­dags, en síðan um allt land er líða fer á morg­un­inn og fram eft­ir degi. Bú­ast má við víðtæk­um sam­göngu­trufl­un­um á land­inu og ekk­ert ferðaveður er á meðan viðvör­un­in er í gildi. Ef þú lendir í tjóni er gott að hafa eftirfarandi í huga.

VIÐBRÖGÐ VIÐ TJÓNI

 • Mundu, ef þetta er neyðartilvik, að hafa strax samband við 112.

 • Ef ekki skaltu gera ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru, til að draga úr tjóni sé þess nokkur kostur en farðu jafnframt að öllu með gát.

 • Þegar þú hefur brugðist við er næsta skref að tilkynna tjónið til okkar.

 • Að senda myndir með tjónstilkynningu getur flýtt fyrir afgreiðslu.

 • Mat á umfangi tjóns eða viðgerðar hefst ekki fyrr en veðrinu slotar. Það þarf að vera óhætt fyrir almenning að vera á ferðinni svo að tjónaskoðunarmenn komist á staðinn.

 • Eftir að tjón hefur verið tilkynnt hefur starfsfólk Varðar samband við fyrsta tækifæri til að hefja úrvinnslu málsins.

 • Sé brýn neyð á aðstoð vegna tjóns bendum við á neyðarsímann 514 1099 sem opin er allan sólarhringinn.

GOTT AÐ HAFA Í HUGA FYRIR OFSAVEÐUR

Húsnæði og aðrar eignir   

 • Gakktu úr skugga um að þakplötur séu tryggilega festar, einnig þakrennur, grindverk og þess háttar.

 • Heftu fok lausra muna utandyra. Trampólín, útihúsgögn og grill fara gjarnan af stað í ofsaroki.

 • Fullvissaðu þig um að öllum gluggum og hurðum sé tryggilega lokað.

 • Fylgstu með veðri og tilkynningum.

Ferðalög og mannamót

 • Aflýstu ferðalögum og mannamótum og sendu ekki börn í skóla nema í samráði við skóla.

 • Legðu mat á hvort ferðir út á land séu nauðsynlegar og hvort fresta eigi för vegna slæmrar veðurspár.

 • Hlustaðu á tilkynningar og/eða viðvaranir sem kunna að vera gefnar í sjónvarpi eða útvarpi.

Upplýsingar um veður finnur þú á vef Veðurstofunnar og um færð á vegum á vef Vegagerðarinnar.