Mottumars: Karlar og krabbamein

Vörður hefur tekið virkan þátt í Mottumars, árlegu átaksverkefni Krabbameinsfélagsins sem tileinkað er baráttunni gegn krabbameinum í körlum. Meginmarkmið átaksins er að vekja athygli á baráttunni gegn krabbameinum hjá karlmönnum og hvetja alla menn og fjölskyldur þeirra að vera meðvitaðir um einkenni krabbameina og sinna forvörnum. Með átakinu er einnig aflað fjár sem gerir Krabbameinsfélaginu kleift að sinna fræðslu, forvörnum, rannsóknum, ráðgjöf og veita karlmönnum stuðning.

 

Litríkir sokkar og fræðsla

Vörður hefur í marsmánuði vakið athygli á átakinu á samfélagsmiðlum sínum og lagt því lið með kaupum á litríkum sokkum fyrir allt starfsfólk félagsins. Höfum við hvatt fylgjendur okkar á samfélagsmiðlum að gera slíkt hið sama, kaupa sokka og styrkja um leið átakið. Þá buðum við öllu starfsfólki okkar, körlum og konum, á fyrirlesturinn Karlar og krabbamein. Þar fjölluðu sérfræðingar í fræðslu og forvörnum hjá Krabbameinsfélaginu um algengustu krabbamein karla á Íslandi fyrr og nú og hvernig lífsstíll hefur haft áhrif á þróunina. Einnig var fjallað um forvarnir, helstu einkenni krabbameina og hvers vegna skimun er ekki í boði fyrir karla.

Þekktu einkenni krabbameina

Samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsskrá greinast um 780 íslenskir karlar með krabbamein á hverju ári og greinist þriðji hver karlmaður með krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni. Hver og einn getur gert ýmislegt til að draga úr líkum á að fá krabbamein, til dæmis með því að reykja ekki, hreyfa sig reglulega, borða hollan og fjölbreyttan mat, takmarka neyslu áfengis og varast óhófleg sólböð.

Því fyrr sem krabbamein greinist því líklegra er að meðferð beri árangur. Eftirfarandi einkenni geta vakið grun um krabbamein en geta einnig átt sér aðrar skýringar:

 • Óvenjuleg blæðing, t.d. frá endaþarmi, kynfærum, geirvörtu, í hráka eða þvagi
 • Þykkildi eða hnútar, t.d. í pung, brjósti, nára, á hálsi, vörum, tungu eða handakrika
 • Óútskýrt þyngdartap
 • Þrálátur hósti eða hæsi
 • Langvarandi kyngingarerfiðleikar
 • Sár sem ekki grær, t.d. í munni eða á kynfærum
 • Breytingar á hægðum eða þvaglátum, t.d. langvarandi niðurgangur eða hægðartregða, blóð í hægðum, erfiðleikar við að pissa
 • Nýir fæðingarblettir eða breytingar á blettum, t.d. stærð, lögun eða litur
 • Langvarandi óþægindi frá meltingarvegi, t.d. magaverkir eða uppþemba
 • Óvenjuleg þreyta sem minnkar ekki við hvíld
 • Viðvarandi verkir án þess að orsök sé ljós

 

Ef þú ert með eitthvert þessara einkenna ættir þú að panta tíma hjá lækni til frekari skoðunar. Sjá nánar á www.krabb.is/einkenni