Vörður

fréttir -

12. mar 2020

Ferðabann Bandaríkjanna vegna COVID-19

Tilkynnt hefur verið um ferðabann vegna COVID-19 faraldursins milli landa Schengen-svæðisins og Bandaríkjanna. Bannið tekur gildi laugardaginn 14. mars og varir í 30 daga.

Ferðabannið mun hafa veruleg áhrif á fyrirhugaðar ferðir Íslendinga sem þurfa að gera ráðstafanir. Við gerum því ráð fyrir miklu álagi á starfsfólk okkar og ljóst að afgreiðsla tjóna mun taka lengri tíma en venjulega. Við biðjumst velvirðingar á því og vonum að viðskiptavinir sýni því skilning. Jafnframt biðjum við þá sem ekki eiga bókað flug á allra næstu dögum að hafa frekar samband síðar til að minnka álag á þjónustuna okkar.

Hér fyrir neðan má finna upplýsingar varðandi ferðatryggingar Varðar og kreditkort Arion banka og Landsbankans og ferðabanns Bandaríkjanna vegna COVID-19. Ef þú finnur ekki svarið sem þú leitar að bendum við þér á að hafa samband við okkur í síma 514-1000, í gegnum netfangið vordur@vordur.is eða í netspjalli á vef Varðar: www.vordur.is Áður en tjón vegna ferðabannsins er tilkynnt til okkar er nauðsynlegt að leita til ferðaþjónustuaðila og krefjast endurgreiðslu í ljósi aðstæðna. Gögn sem staðfesta það þurfa að fylgja með.

  • Ég á bókaða ferð til Bandaríkjanna frá Íslandi og kemst ekki í ferðina vegna ferðabannsins 14.03.-13.04.2020. Get ég fengið ferðina endurgreidda? Fyrst þarftu að kanna rétt þinn hjá flugfélaginu/ferðasala og afbóka ferð þar. Við bendum þér á að fylgjast með tilkynningum frá þínu flugfélagi/ferðasala varðandi næstu skref. Í langflestum tilfellum átt þú rétt á að fá flugið endurgreitt frá viðkomandi flugfélagi, ferðaskrifstofu eða bókunarsíðu. Einnig getur þú skoðað að fá fluginu þínu breytt án kostnaðar. Ef eitthvað stendur útaf getur þú haft samband við okkur og tilkynnt í forfallatryggingu í Heimilisvernd og/eða kreditkortatryggingu Arion banka og Landsbankans. Skila þarf inn tjónstilkynningu ásamt öllum gögnum frá flugfélagi/ferðasala er varðar bókun, afbókun og endurgreiðslu svo hægt sé að taka tjónið til afgreiðslu.

  • Ég á bókaða ferð til Bandaríkjanna fyrir utan tímabil núverandi ferðabanns. Get ég fengið ferðina endurgreidda?  Ekki er hægt að sækja í forfallatryggingu Varðar eða kreditkortatryggingu Arion banka og Landsbankans ferðir utan þeirra dagsetninga sem ferðabannið er í gildi. Bendum við á að upplýsingar varðandi opinber höft og ferðabönn geta breyst með stuttum fyrirvara.

  • Fæ ég kostnað vegna hótels og/eða bílaleigubíls endurgreiddan vegna ferðabanns? Byrja þarf á því að afbóka þá þjónustu sem þú hefur keypt og fylgja því eftir að þjónustuaðili endurgreiði kostnað samkvæmt samningi sem var í gildi þegar að þjónustan var keypt. Ef kostnaðurinn fæst ekki endurgreiddur eða aðeins hluti hans er hægt að tilkynna tjón í forfallatryggingu Varðar eða kreditkortatryggingu Arion banka og Landsbankans. Skila þarf inn tjónstilkynningu ásamt gögnum er varðar flug, bókun á þjónustu, afbókun og hlutfall endurgreiðslu svo hægt sé að taka tjónið til afgreiðslu.

Nánari upplýsingar um réttindi flugfarþega er á vef samgöngustofu.

Við minnum einnig á frétt okkar helstu upplýsingar um ferðatryggingar og COVID-19.