Vörður

fréttir -

12. mar 2020

Afkomutilkynning 2019

Á stjórnarfundi þann 26. febrúar 2020, samþykkti stjórn og forstjóri samstæðureikning Varðar fyrir árið 2019.

Guðmundur Jóhann Jónsson forstjóri Varðar:

„Árið 2019 var gott ár í rekstri Varðar. Vöxtur og viðgangur félagsins gekk vel eins og allar lykiltölur bera með sér, þó svo að ávallt séu áskoranir og viðfangsefni til að takast á við. Mikilvægast er að þær þrjár meginstoðir sem reksturinn byggir ár, skaðatryggingar, persónutryggingar og fjármálastarfsemi, skili að jafnaði jákvæðri afkomu. Afkoma af fjármálastarfsemi var einkar góð og reyndar vel umfram áætlanir sem gerðar voru fyrir árið. Það er jákvætt en engu að síður er mikilvægt að afkoma af tryggingastarfsemi, sjálfri kjarnastarfseminni, skili á hverjum tíma góðri niðurstöðu. Við erum á góðri vegferð og auðvitað stolt af árangrinum.“

Besta rekstrarár í sögu félagsins

Rekstur Varðar gekk vel árið 2019 líkt og undanfarin ár. Hagnaður ársins var 1.816 m.kr. sem er 46% aukning frá fyrra ári og hefur hann aldrei verið hærri í sögu félagsins. Góð afkoma skýrist helst af líf- og persónutryggingastarfseminni og góðum árangri í fjárfestingum. Afkoman í skaðatrygginga-rekstrinum batnaði milli ára en var í járnum líkt og áður. Að ná jafnvægi í afkomu ökutækjatrygginga er viðvarandi og krefjandi verkefni. Samfara hækkandi launum síðustu ár hefur uppgjörskostnaður vegna slysa hækkað mikið, sem leitt hefur af sér mikla útgjaldaaukningu. Þá er umtalsvert kostnaðarsamara að gera við bíla sem búnir eru nútíma tækni- og tölvubúnaði.

Iðgjöld ársins hækkuðu um 9% milli ára og námu 11.779 m.kr. Tjón námu 8.376 m.kr. og jukust um 7% milli ára. Fjáreignatekjur hækkuðu um 72% milli ára og námu 1.544 m.kr. Rekstrarkostnaður var 2.574 m.kr. og hækkaði um 16% milli ára. Kostnaðarhlutfall var 19,8% og hækkaði um 1,5% milli ára  en helsta ástæðan er umtalsverð uppbygging í stafrænum þjónustulausnum. Heildareignir í árslok námu 24.989 m.kr. sem er hækkun um rúmlega 15% á árinu. Fjáreignir námu 19.113 m.kr. og handbært fé 786 m.kr. Eigið fé hækkaði um 20% milli ára og var í árslok 8.119 m.kr. Eiginfjárhlutfall er sterkt og hækkaði í 32,5%. Gjaldþol félagsins samkvæmt Solvency II var 144,3% í árslok en var 148,2% í lok árs 2018. Arðsemi eiginfjár hækkaði milli ára og var 24,4%.

Stafræn en mannleg

Á liðnu ári var áfram unnið eftir skýrri stefnu Varðar sem mótuð var á vormánuðum 2018. Í stefnunni eru fimm meginstraumar skilgreindir sem áherslur til næstu ára: þróun stafrænna þjónustulausna, gagnadrifinn rekstur, stöðugar umbætur í mannauði og menningu og fullnýting tækifæra sem felast í eignarhaldi Arion banka á félaginu. Fimmti straumurinn lýtur að viðskiptavininum, að hann sé ávallt í öndvegi og unnið sé stöðugt að umbótum í þjónustunni.

Síðastliðið sumar var ráðist í viðamikið samstarfsverkefni með Arion banka á sviði stafrænna lausna. Þróuð var viðbót við Arion banka appið og notendum gert kleift að kaupa allar helstu tryggingar á einfaldan hátt. Jafnframt geta viðskiptavinir Varðar nálgast yfirlit yfir öll sín tryggingaviðskipti í appinu. Lausnin er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og hefur, ásamt endurbættum Mínum síðum Varðar, gert viðskiptavinum kleift að leysa hratt og milliliðalaust úr mörgum sinna erinda. Hvort tveggja verður þróað áfram á komandi mánuðum og misserum. Leiðarljós Varðar í þjónustu til viðskiptavina næstu ára er „stafræn en mannleg“ en félagið ætlar að vera í fremstu röð þegar kemur að stafrænum lausnum. Að sama skapi verður sterk sveit starfsfólks til staðar þegar viðskipavinir þurfa á stuðningi og ráðgjöf að halda.

Sköpum sameiginlegt virði fyrir samfélagið

Samhliða ársreikningnum gefur Vörður út sjálfbærniskýrslu þar sem gerð er grein fyrir ófjár-hagslegum þáttum í starfseminni. Í henni er m.a. fjallað um hagræðingu í rekstri, umhverfisverkefni, stafrænar lausnir, mannauðsmál, öryggismál og ýmis samfélagsverkefni. Skýrslan er unnin í samræmi við UFS-viðmið Nasdaq með tilvísun í Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Samfélagsábyrgð Varðar snýst um að starfa til hagsbóta fyrir viðskiptavini, starfsmenn, eigendur og samfélagið í heild sinni og skapa þannig sameiginlegt virði. Vörður er aðili að Festu og eitt af 104 fyrirtækjum sem undirrituðu loftlagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar árið 2016 þar sem fyrirtækin skuldbinda sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, minnka myndun úrgangs og mæla árangurinn. Á síðasta ári var bensín- og dísilbílum Varðar skipt út fyrir nýja rafmagnsbíla til að minnka losun og þá var reksturinn kolefnisjafnaður í samvinnu við Kolvið. Úrgangur hefur verið flokkaður hjá Verði í um áratug og markvisst er unnið að aukinni og betri flokkun.

Starfsfólkið dýrmætasta auðlindin

Að hlúa vel að starfsfólki er hluti af samfélagsábyrgð Varðar. Áhersla er lögð á velferð og vellíðan og starfsfólk hvatt til heilbrigðis lífernis og hreyfingar. Mánaðarlega greinir félagið þætti í vinnuumhverfinu sem geta haft áhrif á líðan, heilsu og öryggi starfsfólks og vinnur að úrbótum sé þess þörf. Innan félagsins starfar heilsunefnd og velferðarnefnd. Heilsunefndin skipuleggur ýmsa heilsutengda og uppbyggjandi viðburði fyrir líkama og sál og velferðarnefndin vinnur að þáttum sem snerta jafnrétti, vinnurétt, einelti og áreitni og annað sem snýr að velferð starfsmanna. Jafnréttismál eru í hávegum höfð hjá Verði en félagið hlaut jafnlaunavottun árið 2014, fyrst fjármálafyrirtækja á Íslandi og hefur starfað eftir því kerfi allar götur síðan. Ný mannauðsstefna leit dagsins ljós á síðasta ári en í henni er m.a. fjallað um jafnréttisstefnu Varðar sem ætlað er að tryggja jöfn tækifæri og kjör starfsfólks af báðum kynjum. Vörður hlaut á síðasta ári Jafnvægivog Félags kvenna í atvinnulífinu fyrir kynjahlutfall í framkvæmdastjórn og var valið Fyrirtæki ársins 2019 hjá VR. Vörður fékk þar hæstu einkunn fyrir jafnrétti meðal stórra fyrirtækja.

Framtíðin er björt

Vöxtur og viðgangur Varðar hefur verið góður undanfarin ár. Grunnurinn er traustur og félagið býr yfir ákaflega góðum og metnaðarfullum hópi starfsfólks. Vilji hans og eiganda er skýr, að sækja fram, þróa þjónustu og tryggingar þannig að þær mæti á hverjum tíma þörfum einstaklinga, fjölskyldna og fyrirtækja. Stöðugt er unnið að þróun þjónustulausna þannig að þær henti á hverjum tíma þörfum viðskiptavina. Auk þess að vinna stöðugt að umbótum á persónulegri þjónustu félagsins er umtalsverður kraftur í mótun nýrra stafrænna lausna. Vel heppnaðar stafrænar lausnir gera viðskiptavinum kleift að sinna sínum málum hvenær sem hentar sólarhringsins árið um kring.

Um Vörð

Vörður tryggingar hf. er alhliða vátryggingafélag í eigu Arion banka hf. sem býður tryggingar fyrir einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki. Félagið leggur áherslu á einföld og þægileg vátryggingaviðskipti á samkeppnishæfu verði. Meðaltalsfjöldi stöðugilda var á síðasta ári 92 og eru viðskiptavinir félagsins liðlega 60.000 talsins. Starfsfólk Varðar vinnur markvisst að því að efla þjónustu og fjölga valkostum í tryggingaþjónustu til viðskiptavina.

Aðalfundur Varðar trygginga hf. var haldinn 12. mars síðastliðinn. Stjórn félagsins skipa þau Benedikt Olgeirsson, Guðný Benediktsdóttir, Iða Brá Benediktsdóttir, Sigrún Ragna Ólafsdóttir og Ólafur Hrafn Höskuldsson.

Nánari upplýsingar veitir:  Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar í síma, 514 1020 og 824 1020.