112 dagurinn

112-dagurinn fjallar að þessu sinni um öryggismál heimilisins. Stór hluti símtala í neyðarnúmerið 112 á rætur að rekja til slysa og annarra áfalla á heimilum fólks. Fólk verður alvarlega veikt heima eða slasast, börn komast í lyf og önnur hættuleg efni, eldur kemur upp á heimilinu, þjófar láta greipar sópa, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Slys í heimahúsum eru algeng hér á landi hjá fólki á öllum aldri. Við erum mikið innan veggja heimilisins af veðurfarsástæðum og því ríkari ástæða til þess að huga vel að öryggi allra sem þar eru. Reykskynjara, slökkvitæki, eldvarnarteppi og sjúkrakassar eru dæmi um nauðsynlegan öryggisbúnað sem ætti að vera á hverju heimili.

Eldur og reykur er ein mesta ógn sem getur steðjað að okkur heima. Eldvarnir eru mikilvæg ráðstöfun til að tryggja líf, heilsu, eignir og öryggi fólks. Mikilvægast er að sjálfsögðu að tryggja að fjölskyldan vakni og nái að forða sér ef eldur kemur upp. Margir eiga reykskynjurum líf sitt að launa og hafa þessi ódýru öryggistæki ítrekað sannað gildi sitt.

Sjúkrakassi með nauðsynlegustu sjúkragögnum þarf að vera til á hverju heimili, svo bregðast megi við algengustu slysum í heimahúsum. Hann þarf að innihalda það allra nauðsynlegasta sem grípa þarf til ef slys bera að höndum. Stundum þarf innihald kassans að taka mið af sérþörfum fjölskyldumeðlima, ef t.d. um ofnæmi er að ræða. Sjúkrakassa skal geymdur á vísum stað þar sem allir geta haft aðgang að honum. Þá þarf að muna að bæta í sjúkrakassann um leið og tekið er úr honum.

Skyndihjálp ættu allir að kunna. Gjarnan eru það leikmenn, þ.e. ekki sérmenntaðir heilbrigðisstarfsmenn, sem veita fyrstu hjálp og hlúa að sjúkling þar til sjúkraliðar eða önnur sérþjálfuð hjálp berst. Smávægileg veikindi og slys þarfnast stundum eingöngu þeirrar meðferðar sem felst í skyndihjálp, til dæmis smávægilegur skurður eða lítið brunasár. Slík hjálp felst að jafnaði í einföldum aðferðum. Í sumum tilfellum getur hún skipt sköpum og jafnvel bjargað mannslífum.

Í 112-blaðinu er bent á fjölmargt sem unnt er að gera til að auka öryggi heimilisins, til dæmis með því að læra skyndihjálp, efla fallvarnir og auka eldvarnir og varnir gegn innbrotum. Þá er gott að kynna sér Viðlagahandbókina, það sem viðkemur öryggi heimilisins og Eldvarnir – handbók heimilisins.

Eru tryggingarnar í lagi?

Fjölskyldan er það mikilvægasta sem við eigum. Þess vegna viljum við búa henni öruggt umhverfi, þar sem við eigum okkur skjól saman. Þar komum við hjá Verði til aðstoðar. Við hjálpum þér að tryggja fjölskylduna og heimilið fyrir öllum þessum „hvað ef“ uppákomum sem lífið getur rétt okkur þegar við eigum þess síst von. Starfsfólk Varðar er þér innan handar og leiðbeinir þér um hversu mikla tryggingavernd þú þarft. Hafðu samband núna.