Vörður

fréttir -

21. feb 2019

Afkomutilkynning 2018

Á stjórnarfundi þann 20. febrúar 2019, samþykkti stjórn og forstjóri samstæðureikning Varðar fyrir árið 2018.

Guðmundur Jóhann Jónsson forstjóri Varðar:

„Rekstur Varðar gekk vel á síðasta ári og er afkoman sú besta í sögu félagsins sem er sérlega ánægjulegt. Samsett hlutfall er að lækka, eiginfjárhlutfallið að styrkjast og gjaldþolið að hækka. Allt skilar sér þetta í góðri arðsemi eigin fjár og sterkara félagi. Árið einkenndist af framþróun á öllum sviðum en á sama tíma af meiri umbreytingum í starfseminni en oftast áður. Við erum á góðri vegferð og auðvitað stolt af árangrinum. Starfsfólk félagsins fær stórt hrós fyrir framúrskarandi gott starf.“

Mesti hagnaður í sögu félagsins

Árið 2018 var fyrsta heila rekstrarár Varðar eftir kaupin á Okkar líftryggingum og sameiningu þess við eigið líftryggingafélag, sem heppnaðist ákaflega vel. Umtalsverð samlegðaráhrif náðust fram og stendur Vörður sterkari fótum en áður, með fjölbreyttara þjónustuframboð og öflugan hóp starfsfólks. Starfsemi Varðar gekk vel á árinu líkt og undanfarin ár og er reksturinn traustur. Hagnaður nam 1.558 m.kr. fyrir tekjuskatt en var 1.151 m.kr. árið 2017. Að teknu tilliti til skatta var hagnaður ársins 1.246 m.kr. samanborið við 957 m.kr. árið 2017. Hagnaðurinn er sá mesti í sögu félagsins en hafa ber í huga að samstæðan tók miklum breytingum við áðurnefnd kaup á Okkar líftryggingum. Góð afkoma skýrist helst af mjög góðum rekstri líftryggingafélagsins og kostnaðarhagræði en afkoma af skaðatryggingarekstri batnaði einnig nokkuð. Afkoma af vátryggingastarfseminni var jákvæð að undanskildum sjótryggingum, þar sem stórt tjón féll á félagið. Lögboðnar ökutækjatryggingar voru reknar með tapi eins og undanfarin ár en afkoma greinarinnar batnaði þó umtalsvert milli ára. Iðgjöld ársins hækkuðu um 11% milli ára og námu 10.844 m.kr. samanborið við 9.726 m.kr. árið 2017. Tjón ársins námu 7.831 m.kr. og jukust um 9% milli ára. Fjáreignatekjur námu 896 m.kr. á árinu og lækkuðu um 24% milli ára og skilaði eignasafnið ásættanlegri ávöxtun í ljósi markaðsaðstæðna. Rekstrarkostnaður var 2.159 m.kr. og lækkaði um 4% frá árinu áður. Kostnaðarhlutfall lækkaði og var 18,3% samanborið við 21,1% árið 2017. Samsett hlutfall, sem er skilgreint sem tjónakostnaður, endurtryggingakostnaður og rekstrarkostnaður sem hlutfall af iðgjöldum, var 92,3% samanborið við 98,3% árið 2017.

Sterkur efnahagur

Heildareignir Varðar í árslok 2018 námu 21.660 m.kr. í samanburði við 19.997 m.kr. í árslok 2017 og nemur hækkunin liðlega 8%. Fjáreignir námu 15.773 m.kr. og handbært fé nam 1.340 m.kr. Eigið fé í lok árs nam 6.753 m.kr. en í árslok 2017 nam það 6.207 m.kr. Eiginfjárhlutfall er sterkt eða 31% í lok árs sem er nærri sama hlutfall og í lok árs 2017. Gjaldþol félagsins samkvæmt Solvency II var 148,2% í árslok en var 141,3% í lok árs 2017. Arðsemi eiginfjár var 19,2%.

Framsækin stefna

Vörður vinnur nú eftir nýrri stefnu sem mörkuð var á síðasta ár eftir umfangsmikla undirbúningsvinnu sem stjórnarmenn og stór hluti starfsfólks tók þátt í auk innlendra og erlendra sérfræðinga. Félagið hefur á undanförnum árum styrkt stöðu sína mjög á markaðnum en metnaður eigenda og starfsfólks er mikill og undirbýr félagið áframhaldandi sókn í umhverfi mikilla breytinga. Ný stefna grundvallast á kjarna fyrri stefnu um að viðskiptavinurinn sé ávallt í öndvegi og hagsmunir hans hafðir að leiðarljósi. Lögð er höfuðáhersla á framúrskarandi góða þjónustu, aukið þjónustuframboð og fjölgun samskiptaog sjálfsafgreiðsluleiða, allt með það að markmiði að gera þjónustuna þægilegri fyrir viðskiptavini. Markmið til lengri tíma er að viðskiptavinum standi til boða mismunandi leiðir til samskipta við félagið, hvenær sem er sólarhringsins, allan ársins hring. Í stefnunni er áhersla lögð á stóraukna nýtingu gagna í starfseminni sem mun án efa styrkja þjónustuna þegar fram í sækir. Samstarf við Arion banka verður áfram þróað með það að markmiði að viðskiptavinir samstæðunnar njóti góðs af og sem fyrr er lögð mikil rækt við þróun og þjálfun starfsfólks. Þá ætlar Vörður í auknu mæli að sækja fram í forvarnarstarfi til hagsbóta fyrir viðskiptavini. Félagið stendur með sínum viðskiptavinum þegar eitthvað bjátar á en í anda samfélagslegrar ábyrgðar verður unnið með viðskiptavinum í því skyni að forðast slys og önnur óhöpp.

Áherslur 2019

Áherslur Varðar á þessu ári snúa að þróun stafrænna lausna og þjónustu til samræmis við óskir viðskiptavina. Markmiðið er ekki að gera Vörð að alstafrænu félagi heldur að finna réttu blönduna af stafrænum leiðum og persónulegri þjónustu. Þegar kemur að hefðbundnum rekstri og afkomu félagsins verður áhersla lögð á að ná betri árangri í rekstri skaðatrygginga og vegur þar þyngst að ná bættri afkomu í flokki ökutækjatrygginga. Vörður hefur notið mikillar velgengni á undanförnum árum og verður áfram byggt á þeim góða grunni. Framtíð félagsins er því björt og spennandi. 

Um Vörð

Vörður tryggingar hf. er alhliða vátryggingafélag í eigu Arion banka hf. sem býður tryggingar fyrir einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki. Félagið leggur áherslu á einföld og þægileg vátryggingaviðskipti á samkeppnishæfu verði. Meðaltalsfjöldi stöðugilda var á síðasta ári 86,5 og eru viðskiptavinir félagsins nú yfir 65.000. Starfsfólk Varðar vinnur markvisst að því að efla þjónustu og fjölga valkostum í tryggingaþjónustu til viðskiptavina.  Aðalfundir Varðar trygginga hf. og Varðar líftrygginga hf. verða haldnir 7. mars næstkomandi.  Nánari upplýsingar veitir: Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar í síma, 514 1020 og 824 1020.