Vörður

fréttir -

27. feb 2018

Afkomutilkynning 2017

Á stjórnarfundi þann 22. febrúar 2018, samþykkti stjórn og forstjóri samstæðureikning Varðar fyrir árið 2017.

Guðmundur Jóhann Jónsson forstjóri Varðar:

„Afkoma Varðar var góð á síðasta ári og skýrist hún helst af mjög góðum rekstri líftryggingafélagsins, ávöxtun fjárfestingaeigna og kostnaðarhagræði. Afkoman af vátryggingastarfseminni var almennt jákvæð fyrir utan ökutækjatryggingar sem reknar voru með umtalsverðu tapi. Samstæðan styrktist mikið með innkomu Okkar líftrygginga og skapar öflugri samstæða fjölmörg sóknartækifæri til framtíðar.

Árið 2017 var ár umbreytinga hjá Verði. Breytingar voru gerðar á stjórnkerfi og stjórnskipulagi félagsins og unnið var að ýmsum umbótaverkefnum. Ber þar einna hæst þróun á stafrænum lausnum en áhersla er lögð á nútímalegar lausnir og að þjónustuleiðir taki mið af væntingum og þörfum viðskiptavina hverju sinni. Allt miðar þetta að því að efla og styrkja félagið til framtíðar og til þess að viðskiptavinir fái bestu þjónustu sem völ er á.“

Traustur og vaxandi vátryggingarekstur

Starfsemi Varðar gekk vel á árinu 2017 líkt og undanfarin ár og er reksturinn traustur og vaxandi ár frá ári. Í upphafi ársins sameinuðust Okkar líftryggingar og Vörður líftryggingar undir merkjum síðarnefnda félagsins. Sameinað félag er nú í fyrsta sinn hluti af samstæðureikningi Varðar.

Hagnaður Varðar árið 2017 nam 1.151 m.kr. fyrir tekjuskatt en var 751 m.kr. árið 2016. Að teknu tilliti til skatta var hagnaður ársins 957 m.kr. samanborið við 637 m.kr. árið 2016. Hagnaðurinn er sá mesti í sögu félagsins en í því sambandi ber að hafa í huga að samstæðan breyttist mikið við innkomu Okkar líftrygginga.

Iðgjöld ársins hækkuðu um 18% milli ára og námu 9.726 m.kr. samanborið við 8.265 m.kr. árið 2016. Tjón ársins námu 7.171 m.kr. á síðasta ári og jukust um 24% milli ára. Vaxandi tjónaþungi er í ökutækjatjónum og hækkaði tjónshlutfall lögbundinna ökutækjatrygginga úr 94,1%, í 102,9%. Afkoma ökutækjatrygginga er óásættanleg og gildir þá einu hvort horft er til lögboðinna eða frjálsra trygginga. Launahækkanir síðustu ára koma nú fram af fullum þunga í uppgjörum líkamstjóna. Meðaltjón hafa hækkað því sem næst um 50% á undanförnum árum og nálgast kostnaður við uppgjör líkamstjóna í ökutækjatryggingum nú að vera 70% af heildartjónakostnaði í lögboðnum ökutækjatryggingum. Þessu til viðbótar hefur mikil endurnýjun og fjölgun ökutækja orðið á undanförnum árum. Samfara auknum fjölda fjölgar eknum kílómetrum en beint samhengi er á milli tjónafjölda og ekinna kílómetra. Ástand vegakerfis landsins hefur einnig áhrif á tjónakostnað en brýnt er að ráðast í umbætur á vegakerfinu því nútímalegt vegakerfi leiðir af sér fækkun slysa. Þá má nefna að viðgerðarkostnaður nýrra bíla er umtalsvert hærri en eldri bíla.

Fjárfestingatekjur námu 1.181 m.kr. árið 2017 og hækkuðu um 28% milli ára og skilaði eignasafnið um 7% nafnávöxtun. Hreinn rekstrarkostnaður var 2.253 m.kr. og lækkaði um 68 m.kr. milli ára eða um 3%. Kostnaðarhlutfall lækkaði og var 21,1% árið 2017 samanborið við 26,5% árið 2016.

Samsett hlutfall, sem er skilgreint sem tjónakostnaður, endurtryggingakostnaður og rekstrarkostnaður sem hlutfall af iðgjöldum, var 98,3% árið 2017 samanborið við 100,5% árið 2016.

Sterkur efnahagur

Heildareignir Varðar í árslok 2017 námu 19.997 m.kr. í samanburði við 17.044 m.kr. í árslok 2016 og nemur hækkunin liðlega 17%. Fjárfestingaeignir námu 14.033 m.kr. í árslok 2017 og handbært fé nam 1.461 m.kr.

Eigið fé í lok árs 2017 nam 6.207 m.kr. en í árslok 2016 nam það 5.350 m.kr. Eiginfjárhlutfall er sterkt eða 31% í lok árs sem er nærri sama hlutfall og í lok árs 2016. Gjaldþol félagsins samkvæmt Solvency II var 1,41 í árslok 2017 en var 1,76 í lok árs 2016. Arðsemi eiginfjár var 16,6%

Framsækið fyrirtæki í jafnréttismálum

Vörður hlaut fyrst fjármálafyrirtækja á Íslandi jafnlaunavottun árið 2014 og starfrækir félagið jafnlaunakerfi sem samræmist kröfum reglugerðar um vottun jafnlaunakerfa fyrirtækja og stofnana á grundvelli jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012. Vörður hlaut á árinu 2017 jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins, fyrst fjármálafyrirtækja hér á landi. Jafnlaunamerkið er viðurkenning um að Vörður hafi komið sér upp ferlum sem tryggja að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum feli ekki í sér kynbundna eða aðra mismunun. Vottunin styður einnig við þá stefnu og áætlun sem Vörður hefur sett sér í jafnréttismálum um að vera framsækið fyrirtæki og byggja á nútíma gildum. Þess má geta að kynjahlutfall í stjórn og framkvæmdastjórn Varðar er jafnt.

Um Vörð

Vörður tryggingar hf. er alhliða vátryggingafélag í eigu Arion banka hf. sem býður tryggingar fyrir einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki. Félagið leggur áherslu á einföld og þægileg vátryggingaviðskipti á samkeppnishæfu verði. Meðaltalsfjöldi starfsmanna var á síðasta ári 82 og eru viðskiptavinir félagsins nú yfir 60.000. Starfsfólk Varðar vinnur markvisst að því að efla þjónustu og fjölga valkostum í tryggingaþjónustu til viðskiptavina.

Aðalfundir Varðar trygginga hf. og Varðar líftrygginga hf. verða haldnir 8. mars næstkomandi.

Nánari upplýsingar veitir: Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar í síma, 514 1020 og 824 1020

Afkomutilkynning 2017