Guðmundur Jóhann Jónsson

Forstjóri

fréttir -

25. feb 2016

Afkomutilkynning 2015

Á stjórnarfundi þann 19. febrúar 2016, samþykkti stjórn og forstjóri samstæðureikning Varðar fyrir árið 2015.

__Helstu niðurstöður 2015:__

Heildarhagnaður ársins eftir skatta var 658 m.kr. (2014: 385 m.kr., +71%) Hagnaður fyrir skatta var 728 m.kr. (2014: 467 m.kr., +56%) Iðgjöld ársins námu 5.765 m.kr. (2014: 5.314 m.kr., +8,5%) Tjón ársins voru 4.581 m.kr. (2014: 3.903 m.kr.,+17,4%) Kostnaðarhlutfall var 22,1% (2014: 22,1%) Fjárfestingatekjur voru 1.164 m.kr. (2014: 446 m.kr., +161%) Samsett hlutfall samstæðunnar var 105,8% (2014: 98,3%) Heildareignir í lok árs námu 11.330 m.kr. (2014: 10.264 m.kr., +10,4%) Eigið fé félagsins nam 3.475 m.kr. (2014: 3.116 m.kr., +11,5%) Arðsemi eigin fjár var 22,8% (2014: 13,7%) Eiginfjárhlutfall var 30,7% (2014: 30,4%) Gjaldþolshlutfall var 3,32 í lok ársins (2014: 3,29)

__Guðmundur Jóhann Jónsson forstjóri Varðar:__ „Rekstur Varðar gekk vel á síðasta ári líkt og undanfarin ár og er afkoman sú mesta í sögu félagsins sem er ánægjulegt. Ræður þar mestu góð afkoma af fjárfestingarstarfsemi en hún var mun betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Á móti var afkoma vátryggingarstarfseminnar undir væntingum sem skýrist helst af aukinni tíðni ökutækjatjóna og hækkun viðgerðarkostnaðar. Það er verulegt áhyggjuefni hvað tjónum hefur fjölgað síðustu tvö ár.

Félagið heldur áfram að styrkjast bæði í eignum og iðgjöldum og ánægðum viðskiptavinum fjölgar. Þannig hefur hlutdeild Varðar á tryggingamarkaðnum aukist bæði á meðal fyrirtækja og einstaklinga.

Vörður hefur markað þá stefnu að gæði þjónustunnar er lykillinn að framtíðarvelgengni félagsins. Unnið hefur verið að því að innleiða gæðastaðla og gæðakerfi í því sambandi. Félagið er að leggja upp í vegferð að þróa nýja samskiptamáta við viðskiptavina sína og hyggst nýta sér alla þá möguleika sem nútíma tækni býður upp á.“

Mesti hagnaður í sögu félagsins Hagnaður Varðar árið 2015 nam 728 m.kr. fyrir tekjuskatt en var 467 m.kr. árið 2014. Að teknu tilliti til skatta var hagnaður ársins 658 m.kr. samanborið við 385 m.kr. árið 2014. Um er að ræða mesta hagnað í sögu félagsins.

Iðgjöld ársins hækkuðu um 8,5% milli ára og námu 5.765 m.kr. samanborið við 5.314 m.kr. árið 2014. Tjón ársins námu 4.581 m.kr. á síðasta ári og jukust um 17,4% milli ára. Fjárfestingatekjur námu 1.164 m.kr. í fyrra og jukust um 161,0% milli ára. Helsta skýringin er góð ávöxtun á skuldabréfum og hlutabréfum en nafnávöxtun heildarsafnsins var 14% og raunávöxtun 11,7%. Rekstrarkostnaður var 1.379 m.kr. árið 2015 og hækkaði um 136 m.kr. milli ára eða um 11,0%. Kostnaðarhlutfall var 22,1% árið 2015 og er það sama hlutfall og var árið 2014.

Samsett hlutfall, sem er skilgreint sem tjónakostnaður og rekstrarkostnaður sem hlutfall af iðgjöldum, var 105,8% árið 2015 samanborið við 98,3% árið 2014. Hækkunin skýrist helst af auknum tjónakostnaði í ökutækjatryggingum. Nokkur aukning var þó einnig í öðrum eignatryggingum.

Með bættu efnahagsástandi og auknum akstri landsmanna hefur tíðni ökutækjatjóna aukist jafnt og þétt síðustu misseri. Þá hafa varahlutir í bifreiðar og aðföng til endurbóta á húsnæði og lausafé hækkað mikið í verði og veigamiklar breytingar hafa orðið á uppgjörsumhverfi líkamstjóna en allt þetta hefur leitt til aukins kostnaðar.

Sterkur efnahagur

Heildareignir Varðar í árslok 2015 námu 11.330 m.kr. í samanburði við 10.264 m.kr. í árslok 2014 og nemur hækkunin 10,4%. Verðbréfaeign félagsins nam 7.329 m.kr. í árslok 2015 og handbært fé nam 2.052 m.kr.

Eigið fé í lok árs 2015 nam 3.475 m.kr. en í árslok 2014 nam það 3.116 m.kr. Eiginfjárhlutfall er sterkt en það var 30,7% í lok árs samanborið við 30,4% árið 2014. Gjaldþol félagsins var 3,32 í árslok 2015 en var 3,29 í lok árs 2014. Arðsemi eiginfjár var góð eða 22,8%.

Það helsta úr starfsemi félagsins

Aukin gæði í þjónustu Varðar hafa skilað sér í aukinni ánægju viðskiptavina. Samkvæmt nýlegri mælingu Íslensku ánægjuvogarinnar eru ánægðustu viðskiptavinirnir á íslenskum tryggingamarkaði í viðskiptum hjá Verði. Það er sérlega gleðilegt fyrir starfsmenn félagsins að uppskera með þessum hætti.

Jafnlaunavottun VR var staðfest á síðasta ári að undangenginni úttekt en Vörður var fyrst allra fjármálafyrirtækja til að fá slíka vottun vorið 2014. Hún staðfestir að félagið vinnur eftir þeim leiðum sem vottunin gerir kröfur um og þau gildi sem höfð eru í heiðri í rekstri Varðar, að fólki sé ekki mismunað í launum á grundvelli kynferðis. Vottunin styður einnig við þá stefnu og áætlun sem félagið hefur sett sér í jafnréttismálum um að vera framsækið fyrirtæki og byggja á nútíma gildum. Til að mynda er kynjahlutfall í framkvæmdastjórn félagsins jafnt.

Vörður hefur undanfarin ár undirbúið sig undir nýtt regluverk á vátryggingamarkaði sem áætlað er að taki gildi á árinu 2016 og kallast Solvency II. Samkvæmt nýju reglunum eru gerðar auknar kröfur til gjaldþols og áhættustýringar vátryggingafélaga með það að markmiðið að auka vernd vátryggingartaka. Gjaldþol félagsins í árslok 2015 samkvæmt staðlaða Solvency II líkaninu er í samræmi við stefnu félagsins um að vera með SII gjaldþol 1,40 eða hærra.

Vörður tryggingar og Vörður líftryggingar eru á lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki ársins 2015. Til að eiga kost á þessari viðurkenningu þurfa fyrirtæki að uppfylla ströng skilyrði um styrk og stöðugleika í rekstri síðastliðinna ára. Á síðasta ári uppfylltu aðeins 1,9% fyrirtækja á Íslandi þessi skilyrði.

Vörður líftryggingar

Vörður á og rekur Vörð líftryggingar hf. en félagið var stofnað í desember 2007. Rekstur Varðar líf hefur gengið vel frá stofnun en félagið býður viðskiptavinum upp á lausnir í líf- og sjúkdómatryggingum. Slíkar tryggingar eru nauðsynlegar fólki sem ber fjárhagslega ábyrgð á sér og fjölskyldu sinni. Vörður líf styrkti starfsemi sína á árinu með aukinni áherslu á vöruþróun og fjölgaði viðskiptavinum umtalsvert.

Iðgjöld Varðar líf árið 2015 námu 238 m.kr. og jukust um 19% frá fyrra ári sem er til marks um aukinn áhuga viðskiptavina á vörum og þjónustu félagsins. Samsett hlutfall var 101,7% en var 77,2% árið 2014. Heildareignir Varðar líf í lok árs 2015 voru 1.066 m.kr. og nam eiginfjárhlutfallið 78,1%. Gjaldþolshlutfall félagsins er 1,46.

Um Vörð

Vörður tryggingar hf. er alhliða vátryggingafélag sem býður tryggingalausnir fyrir einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki. Félagið leggur áherslu á einföld og þægileg vátryggingaviðskipti á samkeppnishæfu verði. Fjöldi starfsmanna er 67 og eru viðskiptavinir félagsins um 33.000. Starfsfólk Varðar vinnur markvisst að því að efla þjónustu og vöruframboð en Vörður hefur á undanförnum árum skipað efstu sætin í Ánægjuvog Capacent sem sýnir mikið traust viðskiptavina til félagsins og þann árangur sem náðst hefur í uppbyggingu þess. Vörður leggur mikla áherslu á góðan starfsanda og hefur félagið mælst með hæstu starfsánægju íslenskra tryggingafélaga.

Vörður tryggingar hf. er dótturfélag færeyska bankans BankNordik (áður Føroya Bank) sem er skráð félag í Kauphöll Íslands (BNORDIK). BankNordik væntir þess að selja Vörð tryggingar hf. á fyrri hluta ársins 2016 til Arion banka hf. Vinna BankNordik og Arion banki nú að fyrirkomulagi viðskiptanna svo þau uppfylli kröfur íslenskra eftirlitsaðila.

Aðalfundur Varðar trygginga hf. og Varðar líftrygginga hf. verður haldinn 18. mars næstkomandi.

Nánari upplýsingar veitir: Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar í síma, 514 1020 og 824 1020.

Ársreikningur 2015