Viðbrögð við jarðskjálfta og eldgosi

Viðbrögð við jarðskjálfta og eldgosi

Náttúruhamfarir geta átt sér stað með stuttum fyrirvara og í einhverjum tilfellum án viðvörunar. Til þess að draga úr líkum á tjóni og slysum þurfum við að vera viðbúinn því óvænta og bregðast rétt við.

Jarðskjálftar

Hvað á að gera þegar verður jarðskjálfti?

For­varn­ir á heim­il­um eru mik­il­væg­ar þegar kemur að jarðskjálftum, sem gera sjaldan boð á undan sér, til að minnka lík­ur á slys­um og tjón­um. Hér eru nokkur góð ráð:

Hvernig hugað skal að húsnæði:

  • Festið skápa, hillur og þunga muni í gólf eða veggi. Hafið hjól sem eru á húsgögnum alltaf í læstri stöðu. Ef engin læsing er á hjólunum, setjið þá ramma utan um hjólin til að koma í veg fyrir að húsgagnið fari af stað í jarðskjálfta. Munið hinsvegar að rammi eða læsing á hjólum kemur ekki í veg fyrir að húsgagnið velti.

  • Látið þunga muni ekki vera ofarlega í hillum eða á veggjum nema tryggilega festa. Hægt er að nota kennaratyggjó til að tryggja að léttari munir færist ekki úr stað við jarðskjálfta.

  • Festið kynditæki og ofna. Kynnið ykkur staðsetningu vatnsinntaks og rafmagnstöflu.

  • Festið myndir og ljósakrónur í lokaðar lykkjur.

  • Hafið þungan borðbúnað staðsettan í neðri skápum og skúffum og setjið öryggislæsingar eða barnalæsingar á skápahurðir til varnar að innihald þeirra falli út úr þeim.

  • Fyrirbyggið að hlutir geti fallið á svefnstaði.

  • Gangið vel frá niðurhengdum loftum og upphækkuðum gólfum.

  • Byrgið glugga eða setjið öryggisfilmu á rúður til að koma í veg fyrir skæðadrífu glerbrota ef rúða brotnar. Látið rúm ekki standa undir gluggum ef hætta er á jarðskjálftum.

  • Hlustið á tilkynningar og fyrirmæli sem gefin eru í útvarpi og munið: Krjúpa-skýla-halda.

Ef þú ert innandyra þegar jarðskjálfti byrjar – ekki hlaupa af stað:

  • Haltu kyrru fyrir, mörg slys verða þegar hlaupið er af stað.

  • Farðu undir borð eða rúm og haltu þér í borð-  eða rúmfót.

  • Krjúptu niður í horni við burðarvegg eða í hurðaropi við burðarvegg.

  • Verðu höfuð þitt og andlit með kodda - ef þú vaknar upp við jarðskjálfta.

  • Haltu þig frá gluggum – þeir geta brotnað.

  • Láttu vita af þér með SMS þegar jarðskjálftinn hættir.

Ef þú er utandyra þegar þú finnur jarðskjálfta – ekki hlaupa inn:

  • Vertu áfram úti.

  • Ekki vera nálægt háum byggingum sem geta hrunið eða háum trjám.

  • Grjóthrun, skriður og snjóflóð geta fallið úr hlíðum og fjalllendi.

  • Raflínur geta verið hættulegar – varist að snerta þær.

  • Reyndu að komast á opið svæði þar sem byggingar þrengja ekki að.

Ef þú ert að keyra bíl þegar þú finnur jarðskjálfta:

  • Leggðu bílnum og stoppaðu. Vegir og brýr geta skemmst í jarðskjálfta

  • Hafðu sætisbeltin spennt

  • Haltu kyrru fyrir í bílnum þar sem hann getur varið þig gegn brotum og braki sem fer af  stað í jarðskjálfta – hlustaðu á útvarpið, þar koma jafnan fyrstu upplýsingarnar um jarðskjálftann.

Á heimasíðu Almannavarna má finna ítarlegri upplýsingar um varnir og viðbrögð vegna jarðskjálfta.

Eldgos

Þegar eldgos eiga sér stað er mikilvægt að fylgja fyrirmælum og ráðleggingum frá Almannavörnum. Mikil hætta getur stafað af eldgosi bæði vegna gasmengunar og öskufalls. Kynnum okkur stöðuna áður en við reimum á okkur gönguskóna til að fara skoða gosið.

Viðbrögð við öskufalli

  • Komum okkur styðstu leið út úr öskufallinu með því að fara þvert á vindátt.

  • Lokið hurðum og gluggum. Þéttið glugga ef þess þarf.

  • Setjið rök handklæði fyrir þröskulda og annars staðar til að koma í veg fyrir gegnumtrekk.

  • Hlýfum andliti t.d. með grímu, vasaklút eða fatnaði. Setjum augnhlífar fyrir augu ef nauðsynlegt er að vera úti í öskuregni.

  • Aftengið rör frá þakrennum til að koma í veg fyrir að niðurföll stíflist.

  • Ef þú þjáist af hjarta- og lungnasjúkdómi er ráðlagt að halda sér innandyra og forðast að komast í snertingu við öskuna.

Viðbrögð við tjóni
  • Mundu að ef þetta er neyðartilvik að hafa strax samband við 112.

  • Ef ekki skaltu gera þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru, til að draga úr tjóni sé þess nokkur kostur en farið jafnframt að öllu með gát.

  • Þegar þú hefur brugðist við þá er næsta skref að tilkynna tjónið til okkar.

  • Að senda myndir með tjónstilkynningu getur flýtt fyrir afgreiðslu.

  • Mat á umfangi tjóns eða viðgerðar hefst ekki fyrr en veðrinu hefur slotað. Það þarf að vera óhætt fyrir almenning að vera á ferðinni svo að tjónaskoðunarmenn komist á staðinn.

  • Eftir að tjón hefur verið tilkynnt hafa starfsmenn samband við fyrsta tækifæri til að hefja úrvinnslu málsins.

  • Sé brýn neyð á aðstoð vegna tjóns bendum við á neyðarsímann 514 1099 sem opin er allan sólarhringinn.