Við vorum að uppfæra trygginguna og höfum tekið saman allar breytingarnar. Tryggingar okkar eru í stöðugri þróun til að þær endurspegli betur þarfir viðskiptavina á hverjum tíma.
Við höfum sett skilmálann í nýtt útlit, endurraðað köflum og uppfært orðalag. Við vekjum athygli á að eldri skilmáli gildir ennþá, þangað til við næstu endurnýjun þar sem það á við.
Breyting hefur verið gerð á aldri og hann hækkaður frá 16 ára í 18 ára þar sem það á við.
Greiðslukortatrygging, kafli 3 í fyrri skilmála, hefur verið tekin úr skilmálanum. Um var að ræða tryggingu sem bætti tjón þegar greiðslukort tapaðist og það notað af óviðkomandi aðila. Slík tjón er hægt að sækja til útgáfuaðila kreditkortsins og bendum við viðskiptavinum okkar á að kynna sér það.
Formáli
Orðalagi hefur verið breytt varðandi náttúruhamfaratryggingu og þar bætt við orðinu brunatrygging til að auka skýrleika. Er setningin nú
Lausafjármunir þeir sem brunatrygging nær yfir verða þá sjálfkrafa tryggðir fyrir náttúruhamförum, svo sem jarðskjálftum, snjóflóðum, eldgosum og öðrum sambærilegum atvikum, eins og nánar er kveðið á um í lögum nr. 55/1992 um Náttúruhamfaratryggingu Íslands.
Skilgreiningar
Nýjar skilgreiningar.
Hlutfallsreglan:
Hlutfallsregla er reikniregla um samanlagða læknisfræðilega örorku. Hafi tjónþoli orðið fyrir líkamstjóni í eldra slysi eða áður metinn til læknisfræðilegrar örorku (miskastiga) skal hlutfallsreglu beitt. Sama gildir ef tjónþoli verður fyrir fjöláverka í einu og sama slysinu. Byggir hún meðal annars á því að ekki sé hægt að vera með meiri en 100% varanlega læknisfræðilega örorku. Þegar hlutfallsreglu er beitt er metið með hvaða hætti mismunandi einkenni tjónþola verka saman og valda varanlegri örorku.
Innbú:
Lausafé og persónulegir munir sem fylgja almennu heimilishaldi og teljast ekki vera hluti af húseign eða fylgifé hennar. Við það skal miðað að innbú teljist allt það sem tryggðir myndu almennt flytja með sér ef þeir flyttu á milli heimila. Dýr, tjaldvagnar, hjólhýsi, bátar, bílar og önnur vélknúin ökutæki teljast ekki vera hluti af innbúi sem og vörur sem ætlaðar eru til sölu og/eða vinnslu.
Varanleg læknisfræðileg örorka:
Bætur vegna læknisfræðilegrar örorku eru reiknaðar út frá læknisfræðilegu mati á því hversu mikið líkamlegt eða andlegt tjón er talið hafa hlotist af slysi. Tjónið skal meta samkvæmt töflum Örorkunefndar um miskastig. Þegar fjárhæð bóta fyrir varanlega læknisfræðilega örorku er ákveðin skal litið til þess hvers eðlis og hversu miklar afleiðingar tjóns eru frá læknisfræðilegu sjónarmiði. Varanleg læknisfræðileg örorka skal metin til miskastiga og skal miða við heilsufar tjónþola eins og það er þegar það er orðið stöðugt og þegar læknir telur að frekari bata sé ekki að vænta. Varanleg læknisfræðileg örorka er óháð orsök líkamstjóns í hverju tilviki og við mat á henni er ekki tekið tillit til menntunar, starfs eða áhugamála þess sem orðið hefur fyrir líkamstjóni.
Örorkunefnd:
Í Örorkunefnd sitja þrír aðilar sem skipaðir eru á grundvelli 10. gr. skaðabótalaga. Örorkunefnd semur töflur um miskastig. Í töflunni er metin skerðing á líkamlegri, og eftir atvikum, andlegri færni hjá einstaklingum sem orðið hafa fyrir líkamstjóni.
1. kafli Innbústrygging
3. gr. Innbrotstrygging
Ákvæði um hámarksbætur vegna þjófnaðar á geisladiskum tekið út.
4. gr. Þjófnaðar- og ránstrygging
Ákvæði um þjófnað úr grunnskóla útvíkkað og tekur núna til þjófnaðar úr frístundaheimilum líka.
Orðalagi breytt til skýrleika og ákvæðið þrengt varðandi þjófnað og rán með því að bæta eftirfarandi liðum í skilmálann:
Tryggingin bætir ekki tjón vegna: þjófnaðar úr íbúð, hjólhýsi eða sumarhúsi sem hafa verið mannlaus í 6 mánuði.
Tryggingin bætir ekki tjón vegna: þjófnaðar úr húsnæði eða farartækjum sem tryggður leigir eða lánar öðrum.
Orðalagi breytt til að gera varúðarreglur skýrari.
10. gr. Skemmdarverk
Orðalag vegna þess sem ekki fæst bætt gert skýrara.
12. gr. Hvað er tryggt?
Skilgreining á almennu innbúi útvíkkuð og breytt til einföldunar. Orðalagi breytt samhliða þessari breytingu. Sérgreint innbú tekið út sem skilgreining og það sem áður var sérgreint innbú verður nú viðbót við almennt innbú.
Bótasvið innbús þrengt, hámarksbætur er nú vegna tjóns á umgangi af sumar- eða vetrarhjólbörðum.
13. gr. Munir staðsettir utan heimilis
Ákvæðið útvíkkað og tekur nú til innbús sem flutt er í geymslu vegna framkvæmda á heimili tryggðu eða flutninga í allt að 12 mánuði frá upphafi geymslutímabils.
Orðalagi breytt úr stundarsökum í allt að 3 mánuði vegna innbús sem er staðsett utan heimilis.
14. gr. Ákvörðun bóta
Orðalag vegna afskrifta á innbúi gert skýrara.
Breytingar hafa verið gerðar á uppsetningu og innihaldi afskriftartöflu í innbústryggingu:
Bótasvið tryggingarinnar hefur verið þrengt og afskrifast húsgögn núna um 10% á ári.
Bótasvið tryggingarinnar hefur verið útvíkkað og afskrifast reiðhjól, rafmagnshjól og létt bifhjól núna um 15% ári í stað 20%.
Bótasvið tryggingarinnar hefur verði útvíkkað og afskrifast skíða- og viðlegubúnaður núna um 10% á ári í stað 20%.
Hljómflutningstæki, sjónvörp og útvörp sameinast við liðinn rafmagnstæki.
Bótasvið tryggingarinnar hefur verið útvíkkað og afskrifast snjallsímar og farsímar núna á 3 árum í stað 1,5 ári. Fyrst eftir 12 mánuði og 20% á 6 mánaða fresti eftir það.
Bótasvið tryggingarinnar hefur verið útvíkkað og afskrifast spjaldtölvur, borðtölvur, snjallúr og fylgihlutir núna fyrst eftir 12 mánuði og um 20% á ári.
2. kafli Innbúskaskó
18. gr. Hvað bætir tryggingin ekki:
Bótasvið tryggingarinnar þrengt, tryggingin bætir núna ekki tjón:
sem rekja má til myglu eða sveppagróðurs.
sem rekja má til þess að tryggður munur er mislagður, gleymist, týnist eða skilinn eftir á almannafæri.
sem rekja má til hvers konar meindýra.
3. kafli Ábyrgðartrygging einstaklings
23. gr. Hvað bætir tryggingin?
Ákvæðið útvíkkað og tekur nú til tjóns sem verður ef einhver hinna tryggðu veldur með skaðabótaskyldum hætti sem notandi létts bifhjóls í flokki I, reiðhjóls eða smáfarartækis skv. skilgreiningu umferðarlaga. Ef um er að ræða tjón af völdum vélknúins farartækis er það skilyrði bótaskyldu skv. þessu ákvæði að um sé að ræða tæki sem ekki kemst hraðar en 25 km/klst á raf- eða vélarafli.
24. gr. Hvað bætir tryggingin ekki?
Bótasvið tryggingarinnar þrengt, tryggingin bætir núna ekki tjón:
sem stafar af handalögmálum eða þátttöku tryggðu í refsiverðum verknaði.
vegna langvarandi raka, vatnsleka, myglu eða sveppagróðurs
.
Ný varúðarregla. 25. gr. sem snýr að farartækjum sem falla undir flokk I.
,,Tryggðum er óheimilt að eiga við eða breyta hvers konar farartækjum svo sem rafhjólum, smáfarartækjum eða léttum bifhjólum í flokki I, þannig að tækin komist á meiri hraða en 25 km/klst. fyrir eigin raf- eða vélarafli.“
4. kafli Slysatrygging í frítíma
Gildissvið tryggingarinnar útvíkkað.
Nú greiðast bætur þótt slys, beint eða óbeint, orsakast af sjóndepru, heyrnardeyfð, lömun, bæklun, flogaveiki, krampa, slagi, sykursýki eða öðrum alvarlegum sjúkdómum og/eða sjúkdómseinkennum. Skilyrði fyrir bótum er að atvikið falli undir slysahugtakið.
32. gr. Bætur vegna varanlegrar læknisfræðilegrar örorku
Nýtt ákvæði um beitingu hlutfallsreglu við mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku.
36. gr. Almenn íþróttaiðkun
Ákvæðið útvíkkað og tekur trygging til slysa sem verða við keppni og æfingar hjá börnum til 18 ára aldurs í stað 16 ára.
37. gr. Hvað bætir tryggingin ekki?
Bótasvið tryggingarinnar þrengt og gildir tryggingin ekki vegna slysa sem verða:
í öðrum áhættuíþróttum sem eru sambærilegar og eðlisskyldar þeim sem nefndar eru í gr. 37.
af völdum farartækja sem komast hraðar en 25 km/klst. á raf- eða vélarafli,
slys af völdum notkunar rafknúinna reiðhjóla og annarra smáfarartækja og létts bifhjóls í flokki 1 skv. skilgreiningu umferðarlaga nr. 77/2019 eru þó bótaskyld.
7. kafli Réttaraðstoðartrygging
55. gr. Tryggingarfjárhæð
Nýtt ákvæði varðandi hámarksgreiðslur í málum þar sem sami lögmaður fer með mál þar sem fleiri en einn hefur hagsmuni að gæta.
8. kafli Forfallatrygging
59. gr. Hvað bætir tryggingin?
Ferðakostnaður er nú skilgreindur.
9. kafli Ferðasjúkra- og ferðarofstrygging erlendis
Kaflinn útvíkkaður í heild og gildir tryggingin núna alls staðar í Evrópu. Gilti áður í Evrópu utan Sviss.
66. gr. Hvað bætir tryggingin ekki?
Orðalagi breytt og aðlagað í a. lið Sjúkrakostnað.
10. kafli Farangurstrygging erlendis
72. gr. Hvað bætir tryggingin ekki?
Orðalagi breytt og liðir sameinaðir.
73. gr. Varúðarreglur
Ný varúðarregla, liður d. varðandi farangur og frágang: ,,Tryggður skal sjá til þess að tryggðu munir séu í viðeigandi og fullnægjandi umbúðum til að þola flutning.“
78. gr. Ákvörðun bóta
Ný grein. Tryggður skal ekki hagnast á tryggingaratburði. Tryggingin skal einungis bæta raunverulegt tjón tryggða.
11. kafli Farangurstafatrygging
81. gr. Hvað bætir tryggingin ekki?
Ákvæðið þrengt og greiðast ekki bætur ef farangurstöfin uppgötvast innan sama sólarhrings og ferð lýkur á Íslandi.
Þessar breytingar gilda frá 15. maí 2023