Starfsörorkutrygging

Starfsörorkutrygging

bætir þeim tjón sem missa tekjur til skemmri eða lengri tíma vegna skerðingar á starfsorku af völdum slyss eða sjúkdóms. Bætur eru greiddar þegar geta til að starfa á vinnumarkaði skerðist um 50% eða meira.

Við mat á skertri starfsorku er miðað við getu viðkomandi til að gegna starfi sem telst vera eðlilegt fyrir einstakling á svipuðum aldri með óskerta starfsorku og með sambærilega starfsreynslu, menntun og verkkunnáttu. Örorkubætur vegna umferðarslysa eru undanskildar í tryggingunni þar sem ökutækjatryggingar greiða fullar bætur vegna afleiðinga þeirra.

TÍMABUNDINN STARFSORKUMISSIR

Ef um tímabundinn missi starfsorku er að ræða hefjast mánaðarlegar greiðslur bóta sex mánuðum eftir tjónsatburð. Eftir það eru bætur greiddar í allt að þrjátíu mánuði eða þar til bata eða stöðugleika í heilsufari hefur verið náð. Greiðslur vegna tímabundinnar örorku eru tekjuskattsskyldar.

VARANLEGUR STARFSORKUMISSIR

Valdi slys eða sjúkdómur vátryggðum varanlegri skerðingu starfsorku og fyrir liggur mat þess efnis greiðir félagið örorkubætur í formi skattfrjálsrar eingreiðslu sem tekur mið af tímalengd samningsins og þeirri vátryggingarfjárhæð sem valin hefur verið.